Heima er bezt - 01.03.1960, Blaðsíða 32
mó á Hofi. Það verður ekki eldiviðarlaust á því heimili
næsta vetur. Nóg verður annað til að ergja sig yfir. En
við garmarnir eigum það eftir að mestu leyti,“ sagði
gamla spákonan og horfði framan í gest sinn með köldu
glettnisbrosi.
„Eg hljóp nú þetta til þín, Stína mín, til að vita,
hvort þú ættir ekki heitt á könnunni. Ég hafði ekki geð
í mér að snerta kaffikönnuna hjá kerlingarálkunni. Það
er einhver fólska í henni. Ég veit svo sem ekki hvað
er á seyði milli hennar og þess á Þúfum. Hún læddist
þangað í gærkvöld eftir að allir voru háttaðir nema ég,
því ég var á útreiðartúr. Það var áreiðanlegt að hún
kom skælandi heim aftur,“ sagði Asdís.
„Hún hefur náttúrlega verið að kveðja Rósu, aum-
ingja stráið. Ég býst við að henni hafi verið heldur
þungt innan brjósts þessa dagana,“ sagði Stína gamla
og saug upp í nefið.
„Er Rósa þar?“ spurði Ásdís.
„Veiztu það ekki, manneskja, að hún er búin að vera
í Þúfum marga daga og nætur? Reyndar hefur hún
verið á Hofi flesta dagana. Stundum hafa þær verið á
útreiðartúr vinkonurnar fram um alla sveit og út í
kaupstað.“
Ásdís var stóreyg af undrun:
„Það hefur þá verið hún sem lét stela Bleik og söðl-
inum. Leifi laug því, að Kristján hefði lánað Önnu
hann og svo hefur hann sjálfur verið að rölta suður
eftir á hverju kvöldi. Slíkt er ekki vanalegt.“
„Ætli Leifi hafi ekki verið jafn heimskur og þú og
ekki haft hugmynd um, hvað Kristján var að fara og
búið svo þetta til svona handa þér,“ sagði Stína. „En
hafðu þig nú yfir girðinguna ef þig langar í kaffi,
vesalingurinn,“ bætti hún við í hlýrri málrómi.
Ásdís hafði sig yfir girðinguna.
Stína fylgdist með henni heim að bænum með hríf-
una í hendinni.
„Svo tef ég þig frá vinnunni,“ sagði Ásdís.
„Ég er sjálfrar mín húsbóndi. Það hefur alltaf þótt
gott. Það er ekki svo oft, sem gest ber að garði hérna
að þeir tefji mig mikið,“ sagði Stína. Svo bætti hún við
þegar hún hafði hellt í bollana handa þeim báðum:
„iYIér þykir þú vera heldur fáfróð, Ásdís mín. Þú veizt
þá líklega ekki að þau voru skilin frammi á Hóli í gær,
Kristján og Rósa?“
Ásdís horfði á hana skilningssljó: „Skilin? Hvernig á
ég að skilja það?“ spurði hún.
„Þau eru ekki lengur hjón. Hefurðu aldrei heyrt tal-
að um að hjón skilji?“ sagði Stína.
„Hann vill þá ekki búa saman við hana lengur,“ sa^ði
Ásdís.
„Það hefur sjálfsagt verið öfugt. Hún vill sjálfsagt
ekki sjá hann sem eiginmann framar og ég lái henni
það ekki,“ sagði Stína. „Náttúrlega hefur hann verið
að reyna að hafa hana til að fara ekki suður aftur þeg-
ar hann hefur setið yfir henni suður á Þúfnatúni. Mað-
ur hefur nú svo sem séð til hans rölta suður eftir í
skárri flíkunum.“
„Svo það hefur verið þetta, sem kerlingarálkan var
að sletta til mín áðan. Hún ætlar að kenna mér um
þetta,“ sagði Ásdís. „En hún má nú bara gæta að sér.“
Stína hló kuldahlátri: „Með hverju ætlarðu að
verja þig, Ásdís mín. Ég er ósköp hrædd um, að þú
eigir einhvern þátt í þessu og þó þú sért ekki ein í sök-
inni, þá muntu varla fá vægari dóminn, ef ég þekki
heiminn rétt. Það er vanalega þyngri steinninn sem
kvenfólkið fær. En reyndu nú að koma ofan í þig
kaffinu. Það er búið sem búið er. Líklega verður óþægi-
legt að taka það aftur.“
„Geirlaug skal sveimér eiga mig á fæti, ef hún ætlar
að kenna mér um þetta,“ sagði Ásdís. „Hvað átti þetta
launpukur að þýða, að láta mig ekki vita að Rósa var
hér í nágrenninu. Ég hefði talað svo um fyrir henni
að hún hefði varla farið suður aftur.“
„Það hefur engan langað til að hún sæi þig og sízt
Kristján. Hann skammast sín sjálfsagt ekki svo lítið
fyrir vöxtinn á þér, og það er honum líka mátulegt.
Mér þykir ólíklegt að þú skiljir það ekki, að Rósa hefði
komið heim aftur og tekið við sínu heimili ef þú værir
ekki orðin svona afmánarleg í laginu. Og það hefurðu
líklega ætlazt til, þegar þú skrifaðir henni í vetur.“
„Nei, ég sagði henni bara það sem satt er. Ég hef
ekki ætlað mér að yfirgefa Hof. Það er nóg þar til að
vinna og helzt til mikið fyrir hann einan. Ég tel ekki
Geirlaugu eða Boggu vinnufærar manneskjur. Og Rósa
mátti bara verða fegin að fá duglega stúlku á heimilið.“
„Ja hvaða ósköp ertu nú fáfróð og skrýtin, Ásdís
mín,“ sagði Stína algerlega ráðþrota. „Þú hefðir bara
átt að fara alfarin frá Hofi í vor eins og ég var alltaf
að reyna að ráðleggja þér, því að aldrei verðurðu ann-
að en skóþurrka Kristjáns. Og þá var ckki ómögulegt
að Rósa hefði komið heim. Ég læt það ósagt, hvort hún
hefur nokkuð verra af því að skilja við hann. Þetta
virtist nú ekki vera nein sérstök ævi, sem hún átti svona
á stundum. En samt mun margt vera viðkvæmt við
þennan hjónaskilnað,“ rausaði hún á meðan hún velti
bolla Ásdísar milli handa sinna, því að auðvitað hafði
hún verið beðin að líta í hann eins og vanalega. „Það
er ekkert hér að sjá, nema þrældóm og óánægju. Það
verður þitt hlutskipti, býst ég við, svona fyrst um
sinn.“
Ásdís kvaddi fljótlega og flýtti sér heim. Hún sá
engan nema Geirlaugu gegnum hálfopnar búrdyrnar.
Baðstofan var mannlaus. Hún greiddi sér og lét á sig
hreina svuntu og hélt svo suður að Þúfum. Það leit út
fyrir að það ætlaði að fara að verða daglegur viðburð-
ur, að Hofsfólk rölti suður að Þúfum.
Stefán bóndi var úti, þegar Ásdís gekk í hlaðið.
Hún kastaði á hann kveðju og spurði, hvort Rósa prests-
dóttir væri ekki hér til húsa.
Stefán glotti og svaraði: „Hér er engin prestsdóttir.“
„Hvað er eiginlega orðið af henni? Ég hef heyrt, að
hún sé búin að vera hér í marga daga. Það lítur út fyr-
ir að það sé verið að fela hana fyrir mér,“ sagði Ásdís
og var mikið niðri fyrir.
„Hefurðu verið að leita að henni?“ spurði hann.
„Nei, ég vissi ekki að hún væri hér um slóðir. Ann-
104 Heima er bezt