Heima er bezt - 01.10.1961, Side 25
Heiman og heim
Framhald af bls. 337. —
Of langt mál yrði að skýra frá öllum smá ævintýrum
og góðsprettum sem gerðust í þessari ferð. Alls staðar
var góðvinum að mæta og vín á skálum. En þetta var
nú á bannöldinni, og talið heyrði ég, að í Skagafirði
væri minna drukkið af áfengi en í flestum öðrum sýsl-
um landsins. — Ég vil í því sambandi geta þess, að á
þessum árum var biskup íslands á yfirreið um Skaga-
fjörð. Spurði hann greindan og merkan bónda hvort
það væri satt, að mikil víndrykkja tíðkaðist í Skaga-
firði. Bóndi svaraði biskupi svo, að hann áliti, að
„fyllirí“ mætti ekki minna vera í héraðinu.
Fyrsti gistingarstaður okkar á þessum fornu slóðum,
var í Litladal í Tungusveit. Þar bjó fornkunningi minn
Jóhann Jónasson, hestamaður, sem átti margt hrossa.
Hjá Jóhanni gistum við tvær nætur. Daginn á milli not-
uðum við til yfirreiðar um landið með Jóhanni og
athugunar á hrossastóði hans, sem flest var sjálegt og
kvikt á fæti í sjálfræði vetrarblíðunnar.
Þennan vetur bjuggu nýgift hjón á Skíðastöðum á
Neðribyggð, Friðrik Jónsson og Soffía Stefánsdóttir.
Frúin var húnvetnsk. Friðrik nam hana úr vesturbyggð-
um vorið áður, og giftist henni á Blönduósi. Ég var
svaramaður þeirra. Að lokinni vígslu fylgdi ég þeim
fram í Langadal með koníaksflösku upp á vasann. Hafði
ég náð mér í flösku um borð í skipi, sem lá á Blönduós-
höfn.
Ég fékk kröftug skeyti frá þessum hjónum um að
koma við á norðurleið. Þar gistum við Jón við góðan
kost. Þau hjón áttu þá brúnan góðhest Óðin að nafni,
og er hans getið í fyrra bindi „Horfnir góðhestar“, á
bls. 310.
Þegar við morguninn eftir lögðum af stað í fylgd
með Friðriki, vildi frúin ekki annað heyra, en ég leggði
á Óðin, og var það vel þegið. Og til þess að tryggja
enn þá betur unaðskenndir mínar, þegar ég riði úr
hlaði, stakk hún að mér fullri brennivínsflösku. Slíkar
höfðingskonur er gott að heimsækja á langferðum.
Vegir norður að Eylendinu voru harðir og hrjúfir
og lofaði ég Óðni aldrei að taka sprett. Þegar kom
norður hjá hinum nafntogaða og fræga Skiphól, sem
rís hátt en lætur þó fara vel um sig á sléttlendinu norð-
an við Vindheimabrekkur og skammt frá Svartá, fékk
ég áskorun eða öllu heldur ögrun frá félögum mínum
um að lofa nú Óðni að hlaupa einn skeiðsprett. Þarna
var láréttur grasbakki framundan norður með ánni, en
á köflum með alldjúpum götuskomingum, táknrænu
fyrirbæri frá góðhestagullöld Skagfirðinga.
Ég var ekki ánægður með sprettfærið, en lofaði Brún
þó að fara. Þegar hann hafði náð skeiðfluginu, lenti
hann í nokkuð djúpri og þröngri götu. Ég reyndi að
beygja hann lítið eitt til hliðar inn á sléttari skeiðvöll.
Tólcst mér það, en við beygjuna greip hann fram á
Jón Pétursson. ,
sig, en fataðist þó ekki skeiðið. — Á meðan Óðinn
þrumaði norður bakkann, reið þekktur hestamaður
norðan frá á hlið við okkur, og sá glöggt skeiðgrip
Óðins. Hann mælti svo, að naumast hefði hann séð
fallegri tilburði eða skeiðgrip til hests. Ég taldi mér
trú um, að gæðingshróður Óðins hefði ekkert minnk-
að við þennan sprett.
Þegar við fóram af baki kom það í ljós, að Óðinn
hafði gripið sig á innri hæl á hægra framfæti, en þó
ekki svo að valda mundi helti. Ég átti joð og hrátjöru
í tösku minni, sem ég bar í sárið, og batt svo með vasa-
klút um fótinn. En ekki var ég ánægður að verða að
skilja við Óðin með særðan fót eftir góð kynni og
þennan glæsilega sprett, en þannig launaði ég gestrisni
og fórnfýsi þessara góðu hjóna.
Ég leit hrifinn og þakklátur með góðkenndir í hjarta
á eftir Óðni, þegar hann reistur og glaðvær skokkaði
við hlið húsbónda síns að afstöðnum skilnaðarkveðjum.
Við Jón riðum að Eyhildarholti um kvöldið.
Nú fóru dýrðardagar í hönd. Sýslufundur og sælu-
vika, mesta árshátíð Skagfirðinga, var að byrja. í birtu
og sólarljóma dagsins mátti líka sjá mikla umferð um
sléttlendið í Skagafirði, ýmist ríðandi, keyrandi á sleð-
um eða geisandi á skautum. Við gömlu vinirnir riðum
til höfuðborgar héraðsins þyrstir í væntanlega sælu og
gleði. Við völdum okkur dvalarstað hjá Hálfdáni Guð-
jónssyni, vígslubiskupi, og frú hans, Herdísi Péturs-
dóttur, systur Jóns Péturssonar. — Margt var til glaðn-
ingar og yndisauka sólarhringana sem við dvöldum á
Sauðárkróki. Verður hér á fátt eitt minnzt.
Framhald í riæsta blaði.
Heima er bezt 353