Heima er bezt - 01.08.1962, Síða 11
MAGNÚS BJÖRNSSON Á SYÐRA-HÓLI:
FORYSTUSAUÐIR
r
Aæsku og manndomsárum var Jónas Illugason,
sem löngum hefir verið kenndur við Bratta-
i hlíð, flest haust í göngum á jaðri gangnasvæð-
is, í nánd við Blöndu. Þar er kölluð Safnslóð,
er heiðarsafnið er rekið, austanhallt við Stóruflá vestan
í Öfuguggavatnshæðum og þeim hæðum öðrum, sem
þar eru í framhaldi og hallar landi þessu öllu til vesturs.
Það blasti sem bezt við þeim, er með Blöndu fóru.
Það varð oft í góðu veðri og björtu, að Jónas nam
staðar á leið sinni og horfði austur til hæðanna á hina
miklu fjárbreiðu, er hún rann og liðaðist norður Safn-
slóðina. Fram úr aðalsafninu gengu oddar á nokkrum
stöðum og voru þrír lengstir og mestir. Þar voru for-
ystusauðir í fararbroddi og teygðu á rekstrinum.
Oddar þessir breikkuðu aftur unz saman runnu við
aðalsafnið. Fyrir einum oddanum fór kollóttur sauður
móbotnóttur. Flann átti Þorleifur Klemenzson í Ból-
staðarhlíð. Fyrir öðrum var í fararbroddi svartur sauð-
ur vaninhyrndur, ungur og ötull. Þann sauð átti Guð-
mundur Sigurðsson vinnumaður á Bollastöðum. Guð-
mundur bjó síðan langa ævi á Fossum og var fjall-
kóngur áratugum saman. Þriðji sauðurinn var frá
Brúnastöðum í Tungusveit, hvítur og háfættur, nafn-
kunnur að framgirni og dugnaði. Margir voru þar
fleiri kunnir forystusauðir, sumir uppvaxandi og í
blóma Jífsins, aðrir gamlir og þrautreyndir að dug og
vitsmunum, en búnir að lifa sitt fegursta og komnir á
fallanda fót.
Móbotni í Bólstaðarhlíð var frægastur forystusauð-
ur er á Eyvindarstaðaheiði gekk um sína daga. í heima-
högum hélt hann sig jafnan á sömu slóðum, í Fjalls-
hlíð, er svo nefnist, í Hlíðarfj alli. Þar heita Norður-
krókur og Suðurkrókur í hlíðinni og mátti ævinlega
ganga að Botna vísum í Norðurkrók. Þegar fé var
smalað í Hlíð og hann varð þess áskynja, að nú skyldi
rekið heim, lagði hann þegar af stað og rann viðstöðu-
laust með fjárhópinn á eftir sér heim og inn í fjár-
réttina. Þar tók hann sér stöðu í miðri rétt og haggað-
ist ekki þaðan. Varð margur til þess að ganga að hon-
um þar, gæla við hann og strjúka lófa um snoppu hans
og vanga.
Hlíðarmenn ráku geldfé sitt á hverju vori í Lamba-
mannaflá á Eyvindarstaðaheiði. Lækur rennur eftir
flánni og kemur undan Hraungarðshaus. Meðfram hon-
um heita Lambamannadrög. Lækur þessi rennur í
Haugakvísl, er dregur nafn af Vékelshaugnum. Það
brást ekki, að Bot'ni var í drögunum í haustgöngum.
Þegar hann varð þess var, að skriður komst á féð hið
næsta honum, lagði hann af stað út með Haugahrauns-
jöðrum og hélt striki sínu út í áfangastað í Galtarár-
drögum. Hefur hann efalaust brokkað mörgum sinn-
um yfir hinn helga blett, þar sem Jónas Hallgrímsson
sat forðum og greiddi ungmeyjarlokka vel og vand-
lega. En þó Botni væri vitur í sinni stétt, hefur hann
varla skynjað minningatöfra þess fræga staðar, sem
enginn maður veit nú með fullri vissu hvar er.
Bollastaða-Surtur hélt sig á öðrum slóðum, í Sporð-
um er svo nefnast í Guðlaugstungum. Hann vissi eins
og Botni hvað til stóð, er gangnamenn voru þar komn-
ir með hunda sína, hó og köll. Hann brá við, lagði í
Ströngukvísl þótt einatt væri úfin og ljót og brokkaði
venjulega leið í áfangastaðinn við Galtará. Og þaðan
daginn eftir áfram norður ofan að Fossum.
Báða þessa sauði þekkti Jónas mætavel. Þeir voru
skynsamir og rólyndir í umgengni og tóku ekki hliðar-
hopp eða glópaflog. Afrek þeirra flest voru unnin í
heimahögum. Þeir leiddu hjörðina á beit í misjöfnum
veðrum og í slæmu sem góðu færi og heim í byljum og
áhlaupum, þótt á móti væri að sækja stórviðri og voða-
veðrum. Saga þeirra var aldrei skráð og gleymist því
og týnist eins og saga fjölmargra bræðra þeirra.
Hvenær sem Jónas minnist þess, er hann stóð á bökk-
um Blöndugils og horfði á hina miklu fjárbreiðu heiða-
safnsins falla fram eins og straumþungt fljót, líkt og
Blanda sjálf, finnur hann yl fara um hugskot sitt og
hlýju fyrir brjósti. Og er hann sér fyrir hugarsjónum
hvernig hinir vitmiklu og einbeittu leiðtogar sauðanna,
forystusauðirnir, fóru fyrir, öruggir og sporléttir, en í
slóð þeirra rann hver af öðrum, eftir því sem þeim var
gefið þrek til og þor, en arlakar og aumingjar ráku
lestina — þá rennur upp fyrir honum önnur mynd og
þó þessari skyld. Þjóðlífsmynd, þar sem brautryðjend-
ur, félagsmálafrömuðir eða stjórnmálaforkólfar sækja
fram veginn að takmarki framundan, en lýðurinn kem-
ur á eftir, stundum tregur og ólundarfullur, óviss um
út í hvað sé stefnt, stundum áhugafullur og framfús.
Það er einatt þunnskipað kringum leiðtogana, en fár
er svo alls vesall og aumur eða misskilinn, að ekki
komi einhverjir í sporaslóðina. Og þá þykir gott ef
breiðan, sem eftir fer, færist út aftar á brautinni,
breikkar og stækkar.
Kafli þessi er skrifaður í maí 1953 eftir viðtal við
Jónas um væntanlega bók Asgeirs frá Gottorp um
forystufé, en hún kom út um haustið. Einn þáttur
hennar, Kúlu-Glúmur, hafði þá fyrir nokkru verið les-
inn í útvarp og vakti mikla athygli.
Heima er bezt 267