Heima er bezt - 01.08.1962, Page 26

Heima er bezt - 01.08.1962, Page 26
fátt, þegar hann kom aftur, en lét þess þó getið, að Sólveig hefði „misst barnið.“ Asta starði á hann galopnum augum. Hún sá nú, að Karlsen var henni glataður. Slys Sólveigar réð þar bagga muninn. Hann myndi kenna sér um, að þetta kom fyrir og reyna að bæta fyrir það, þannig var hans eðli. — Sólveig var lítið farin að hressast, þegar Karlsen fór í næstu ferð. Hún var sífellt útgrátin, þegar hann kom í heimsókn, en mun hressari, þegar hann fór. Hún trúði honum fyrir því, að sér hefði þótt svo fyrir að missa barnið. Læknirinn hefði komizt að þeirri niður- stöðu strax daginn eftir slysið, að hún væri fótbrotin, svo búast mætti við, að hún kæmist eltki á fætur fyrr en eftir 5—6 vikur. Sólveig hætti brátt að gráta. Hún þurrkaði sér um augun og andlitið, en mjög varlega. „Sminkið“ mátti ekki þurrkast af. Karlsen sá ekki í gegnum leik hennar, og eftir því sem hann sat lengur hjá henni, varð hún vissari um sigur. Karlsen vildi, að hún færi í sjúkrahús, en það tók Sólveig ekki í mál. Kvað hún Björgu vera hjá sér næt- ur og daga, og betri hjúkrunarkonu fengi hún ekki á sjúkrahúsi. Þær lýstu fyrir honum af miklum fjálgleik, hve stórt sárið á enninu væri. Sólveig varð döpur, þegar hann eitt sinn spurði hana, hvort sárið væri ekki farið að gróa. „Bölvaðir asnar vorum við að hafa ekki sárið í hnakkanum eða einhvers staðar, þar sem hárið hefði getað hulið það,“ sagði Sólveig gröm við Björgu, þeg- ar Karlsen var farinn. Nú verð ég að gifta mig með plástur!“ „En hvað ætlarðu að segja honum, þegar hann sér að ekkert ör kemur eftir þetta hræðilega sár?“ spurði Björg, hún sá engin ráð. „Láttu mig um það,“ svaraði Sólveig og hló sigri hrósandi. „Eftir brúðkaupið má hann vita, hvernig ég ginnti hann eins og þurs!“ Þá lá við að Björgu ofbyði. Hún fór að sjá eftir að hafa látið Sólveigu narra sig út í þetta ævintýri. Sól- veig gat ekki um annað talað, en hve sniðuglega hún hefði náð Karlsen aftur frá Ástu. Björg fékk að vita allt um Ástu og kenndi ósjálfrátt í brjóst um hana. „Sveinn getur fengið hana. Hann er bara alltof góð- ur handa henni,“ sagði Sólveig. „Hver er Sveinn?“ spurði Björg. Og svo fékk hún að vita allt það um Svein, sem Sólveig vissi. Verst þótti Sólveigu að komast ekki út. Hún óskaði oft, að hér væri tízka að ganga með blæju fyrir andliti, þá hefði enginn þekkt hana. Ollum sem komu og spurðu um hana, veitti Björg þau svör, að Sólveig væri ekki heima. Og svo vildi svo heppilega til, að fólkið sem bjó í húsinu, var á ferð norður í landi og vissi ekki neitt. Einn dag þegar Sólveig lá í legustól úti á svölunum 282 Heima er bezt og lét sér leiðast, gekk Sveinn fram hjá. Hún kallaði á Björgu og benti henni á hann. „Skrambi sætur strákur,“ sagði Björg, „en hver er þetta sem hann er með?“ Það vissi Sólveig ekki, hafði aldrei séð stúlkuna fyrr. Ásta vann enn á saumastofunni, og stundum kom fyrir, að Ingunn tók næturvökuna nótt og nótt. „Við þurfum víst að sjá fyrir okkur sjálfar, ef Kalli fer til hennar,“ sagði Ingunn einu sinni. „En við eig- um þó hvor aðra að, og Ingu litlu, blessaðan litla sól- argeislann.“ Ásta vildi endilega fara að vinna allan daginn, og Ingunn lét það eftir henni eftir miklar fortölur. Henni fannst það samt alltof mikið á hana lagt. Einn daginn kom ný stúlka á vinnustofuna. Hún var sett í verk með Ástu, og átti hún að kenna henni. „Hvar er ,startarinn‘?“ spurði stúlkan. Hún var með stór brún augu og dökkt hár. Ásta brosti og sýndi henni, hvernig vélin var ræst. „Hefur þú aldrei saumað á rafvél áður?“ spurði Ásta. „Nei, yfirleitt aldrei snaumað neitt,“ sagði stúlkan glettnislega. „En þú mátt ekki segja ,höfuðpaurnum‘ frá því.“ Ásta hló og sagði stúlkunni að fá sér eitthvað til að æfa sig á, svo hún næði valdi yfir vélinni. Hún gat ekki varizt brosi af að sjá til stúlkunnar. Ýmist hreyfðist vélin varla og nam staðar eftir fáein spor, eða þá æddi hún yfir efnið með ofsahraða, en stúlkan starði á hana með skelfingarsvip og fórnaði höndum, „svo hún saumi þær ekki líka,“ sagði stúlkan. Um hádegi hafði hún samt tamið vélina svo vel, að óhætt var að láta hana sauma það, sem auðvelt var. Annars var eins og vélin tæki til sinna ráða annað veif- ið. Þá geystist hún áfram með ógnar hvin, svo allar stúlkurnar litu upp, en nýja stúlkan tók ekki eftir neinu í kringum sig, hún starði á vélina, stakk tungunni út í annað munnvikið og deplaði augunum í sífellu, þegar vélin tók rokurnar. Nýja stúlkan var seytján ára, vestan af fjörðum, mesti ærslabelgur, hét Þórunn, en kölluð Dúlla. Hún þekkti fáa í bænum og sótti eftir vinfengi við Ástu. Og þegar hún komst að því, að aðeins fá hús voru á milli þeirra, kom hún í heimsókn. Ingunn kom til dyra, og stúlkan spurði eftir Ástu. „Hún býður mér ekki heim, svo ég varð að njósna um hana til að sjá, hvar hún ætti heima. Mér dauðleið- ist oft, og nú er ég komin, ég vona að ég verði ekki rekin út,“ sagði stúlkan að lokum og í svo vesældarleg- um róm, að Ingunn gat ekki að því gert að brosa. Það fór svo, að stúlkan vann vináttu þeirra allra þriggja og varð heimagangur í húsinu. í fyrsta sinn sem hún sá Svein, sagði hún upphátt: „Guð, hvað hann er sætur!“ Framhald. I

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.