Heima er bezt - 01.08.1962, Side 30

Heima er bezt - 01.08.1962, Side 30
fall, að hætt er við, að hún hefði ekki orðið mosavaxin á Bökkunum, þótt umkomulaus væri og eignalaus, ef valbráin hefði ekki endilega þurft að leggja undir sig hennar fagra meyjarvanga og undirstrika allt hennar umkomuleysi, eins og til þess að koma í veg fyrir, að nokkur piltur freistaðist til að taka hana sér fyrir ekta- kvinnu. A Bökkunum var nú varla um annan að ræða en Steina, sem til mála hefði komið með það. En hann átti ekkert til. Allt það litla, sem hann hafði unnið sér inn til þessa, hafði hann látið renna til foreldra sinna, til þess að forða þeim frá sveitinni, og systkinum sín- um frá því að vera boðin upp. Að vísu ana sumir í hjónabandið, án þess að eiga bót fyrir rassinn á sér. En forsjónin virtist ætla að forða Steina frá því. Fram að þessu hafði hann aldrei verið í neinum hjónabandshug- leiðingum, ekki svo vitað var. Aftur á móti var öðru máli að gegna með Gvend. Hann átti dálítið til, noklcrar kindur og hest, og nokkr- ar spesíur. Margur hafði byrjað með minna að búa. Hann hafði líka haft áhuga fyrir að kvongast, en allt hafði það farið í handaskolum. Hann hafði beðið sér stúlku, en verið heldur. betur vísað á bug. Allur sá at- burður var mikil sorgarsaga fyrir Gvend. Verður hún sögð á sínum tíma. En nú var hann orðinn afhuga öll- um ástamálum og búinn að sætta sig við þá tilhugsun að lifa konulaus, og má segja þar við, að enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Þá mætti ef til vill skjóta því hér inn í, að hætt er við, að honum hefði ekki gengið betur við Gunnu litlu, en hina fyrri stúlku, ef hann hefði, sem honum þó ekki datt í hug, borið upp við hana hina sömu örlagaríku spurningu. Það var eitt embætti, sem þau höfðu sameiginlega, Gunna og Sveinki, en það var að gefa í fjósið og vatna kúnum. Það þótti alls ekki viðeigandi og kom engum til hugar, að karlmenn væru í fjósi. Til þess verks voru konur einar valdar, og svo unglingar, stráklingar, eins og til dæmis Sveinki. Fjósaverk voru að sjálfsögðu ekki fyrir neðan virðingu hans, ef annars er leyfilegt að nefna virðingu í sambandi við annan eins fáráðling. Aftur á móti mjaltaði Guðrún. Já. Það fóru merkilegir tímar í hönd. Skammdegið með öllu sínu myrkri og leyndardómum. Svo má segja, að frá því á jólaföstu og fram yfir þrettánda séu flest- ir hlutir lifandi og dauðir — og flest, sem við ber, meira og minna dularfullt. Tökum til dæmis kýrnar. Svona rétt um það bil, sem maður ætlar að fara að sofna, heyrast í þeim þessar líka djúpu og þungu stunur, eins og öll heimsins mæða hvíli á herðunum á þeim. Að minnsta kosti hljóta þær að búast við, að pallurinn detti ofan á þær þá og þá — eins og raunar hefur kom- ið fyrir á einstaka bæ. Eða þær gnísta tönnum og kingja munnvatninu með þeim ógurlegu barkalátum, að maður getur hrokkið upp af værum svefni. Og svona mætti lengi telja. Það er æðimargt dularfullt við kýrnar. Fyrir nú utan það, að mælt er, að þær tali á nýjársnótt. Því trúir að vísu enginn maður, nema ef vera má einstaka einfeldningur. Ekki opinberlega. Með sjálfum sér veit maður nú aldrei, hvað verið getur. Af einhverju hefur þessi saga komið upp. Og margt skeð- ur ótrúlegt, furðulegt, enginn getur mótmælt því. Margt sem maður skilur ekki, og er óþarfi að fara langt út í þá sálma. En hvort heldur það var fyrir áhrif frá kúnum og þeirra dulrænu gáfum eða af einhverju öðru, þá er svo mikið víst, að þegar komið var fram á jólaföstu, tók Gunna upp á því að fara að kenna Sveinka að lesa. Og Sveinki, blessaður vertu, var hinn námfúsasti og gekk eftir atvikum prýðilega. Yfirleitt rak allt heimilisfólkið í rogastanz, þegar þetta kvisaðist um bæinn. Það var Guðrún, sem fyrst varð þess. áskynja. Henni datt allt í einu í hug að skreppa undir pallinn eitt kvöldið um gjafirnar til þess að athuga kvíguna, sem rétt var komin að burði. Guð- rún var semsé yfirsetukona og ekki síður lagin við kýr en konur. Hafði hún hjálpað margri konunni í barnsnauð og kúnni við burð. Fylgdist hún vel með kvígunni, eftir að hún fór að stálma. Brá Guðrún sér undir pallinn við og við og þuklaði á henni. Og þetta umgetna kvöld, þegar Guðrún vindur sér inn fyrir fjóshurðina, sér hún hvar þau sitja flötum beinum hlið við hlið í auða básnum beint á móti, Gunna og Sveinki, og höfðu fest koluna í beizluna fyrir ofan sig. Héldu þau á einhvers konar bókar- rifrildisræksni í höndunum og rýndu þar í, niðursokk- in, og hrukku upp við það, að skellihurðin small á dyrastafinn. Guðrúnu brá aftur á móti svo rækilega við að sjá þau svona, að við sjálft lá, að hún dytti í flórinn. Var það í sama mund og hurðin skall og þau hrukku við, kennarinn og nemandinn. „Hvað sé ég?“ hrópaði Guðrún. „Hvað eru að gera, Gunna?“ „Ég er að kenna honum Sveinka að stafa,“ sagði Gunna. „Hver hefur beðið þig um það?“ „Enginn. Mér datt bara svona í hug að vita, hvort hann gæti lært að lesa.“ „Og til hvers á hann að læra að lesa? Er ekki búið að ferma hann?“ „Jú. En það getur nú verið gaman fyrir hann að læra að lesa fyrir því.“ „Ég er alveg hlessa á þér, Gunna litla, að taka upp á svona, án þess að það sé nefnt við þig. Ég skil varla í, að hann Sveinki, vesalingurinn, hafi mikinn tíma til að skemmta sér yfir lestri á lífsleiðinni; ég er hrædd um, að hann þurfi um annað meir að hugsa, ef hann ætlar að halda sér frá sveitinni. Það hefur alltaf verið haldið um þig, Gunna litla, að þú værir trú og dygg og efni í gott hjú. Þú veizt líklega, að hjúin eiga að vinna hús- bændunum allt, nema þau hafi leyfi þeirra til að vinna sér eða öðrum stund og stund.“ „Þetta er engin stund, Guðrún mín, ekki nema rétt 286 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.