Heima er bezt - 01.10.1962, Blaðsíða 29
vestur á land, en þaðan var hann ættaður, og bað frænd-
ur og vini þar vestra að útvega sér vinumann. Var
prófastur svo heppinn að geta komið bréfinu með föru-
karli nokkrum, sem hafði atvinnu af því að flakka. Var
karl ekki lítið hreykinn af, að prófasturinn sjálfur bað
hann fyrir bréf, enda sýndi karlinn bréfið á hverjum
bæ, þar sem hann gisti á leið sinni vestur. Eftir nokkra
mánuði komst bréfið til eigandans og sá hinn sami var
svo duglegur að geta útvegað prófasti vinnumanninn,
og komst hann heilu og höldnu eftir langa og ævin-
týraríka ferð alla leið austur að Laugum. Hét maður-
inn Páll Pálsson og var kallaður Palli.
Maður þessi vakti allmikið umtal fyrst eftir að hann
kom austur. Hann var sem fyrr segir af Vesturlandi,
en það var svo fjarlægt, að það minnti helzt á annað
land, útland. Auk þess var hann úr sama byggðarlagi
og prófasturinn. Hvort tveggja þetta varð til þess, að
um hann skapaðist einhvers konar annarlegur dýrðar-
Ijómi. Þar við bættist, að Palli var ungur maður og
fjörmikill, gleðimaður og ekki ófríður sýnum, allgjarn
á að fá sér í staupinu. ,,
Það var eins og andrúmsloftið á Laugum breyttist
eitthvað sama daginn og Palli steig þangað fæti. Það
var eins og sumir yrðu gagnteknir af sæluvímu, en öðr-
um fyndist þeir anda að sér eimyrju. .Manga litla sá
ekkert nema Palla. Það duldist jafnvel ekki Gvendi.
Þvílíkir dagar! Eitt var víst, Palli yrði aldrei sauða-
maður á Laugum. Hann kunni ekki að umgangast fé.
En hún Manga mín var nú ekki aldeilis að hugsa um
það.
Það leið ekki á löngu áður en Gvendur tók að missa
bæði löngun til að sofa og seðja hungur sitt. Með
hverjum degi, sem leið, hændust þau meir hvort að
öðru, Manga og Palli, og urðu fyrr en varði óaðskilj-
anleg. Gvendur sá, að við svo búið mátti ekki standa.
Hann varð að biðja stúlkunnar, áður en það yrði alveg
vonlaust. En það var nú svo komið, að það var hægar
ort en gert að ná tali af henni. Hún gaf aldrei færi á
sér.
Svo var það eitt kvöld um vorið. Gvendur var að
koma frá lambánum og átti leið fram hjá fjósinu. Þeg-
ar Gvendur gengur fyrir dyrnar, kemur Manga út í
flasið á honum með mjólkurskjólu í hendinni. Var nú
Gvendur ekki seinn á sér að grípa tækifærið og sagði:
„Manga,“ eins blítt og ástúðlega og hann gat. Manga
nam staðar og sagði heldur svona snöggt:
>Já!“
Nú vafðist Gvendi tunga um tönn, en Manga ætlaði
að strunsa áfram. Tók þá Gvendur um handlegginn á
henni og ætlaði að láta hana nema staðar.
„Sett ekki niður mjólkina!“ sagði hún, ekkert blíð-
lega.
„Heyrðu Manga, er ekki alveg rétt að við sláum
saman og verðum hjón?“
Manga sagði ekkert, en reif sig lausa og skálmaði af
stað. Gvendur skálmaði á eftir henni og hélt áfram:
„Ég á tíu ær, loðnar og lembdar.“
Ekkert svar frá Möngu.
„Ég á nokkra gemsa og nokkra geldinga,“ flýtti
Gvendur sér að bæta við. En það hafði engin áhrif.
„Ég á líka nokkrar spesíur, Manga, er ekki alveg rétt
við sláum saman?“
Þögn. Það var farið að síga í Gvend. „Geturðu ekki
svarað, eða hvað?“ spurði hann. Jú. Nú svaraði Manga:
„Ég vil ekki sjá þig, greyið mitt,“ sagði hún og hljóp
fyrir næsta húshorn í fangið á Palla, sem stóð þar á
gægjum. Gvendur heyrði í þeim hlátrasköllin um leið
og hann lúpaðist fram hjá.
Eftir þetta festi Gvendur ekki yndi á Laugum. Hann
var varla mönnum sinnandi, en fór einförum.
Seint um vorið, rétt fyrir slátt, varð séra Ingimundi
gengið út í kirkju. Það var síðla laugardagskvöld. Hélt
prófastur, að heimilisfólkið væri háttað. Var hann ekki
alveg búinn að fullgera ræðuna fyrir morgundaginn,
gekk nú til kirkju til að gera bæn sína, svo að honum
veittist hægar að ljúka ræðunni á þann veg, sem hann
óskaði helzt. Atti hann að messa heima á Laugum dag-
inn eftir um hádegi, svo hann þurfti ekki að vakna
snemma. Þótti séra Ingimundi vornæturnar fagrar, og
neitaði sér ekki um að njóta hinna fegurstu, en þessi
nótt var ein af þeim.
Það var víst orðið æði framorðið, líklega komið lág-
nætti, er séra Ingimundur opnaði kirkjudyrnar. Úti var
stillilogn. Lítilsháttar skýjadrög hér og hvar um him-
ininn. Norð-vesturloftið stóð í ljósum loga og gyllti
fjallatindana. Allt var hljótt. Það var bersýnilegt, að
allir voru gengnir til náða, jafnvel fuglarnir.
Þegar séra Ingimundur opnaði hurðina, marraði í
henni svo ákaft, að ástæða var til að láta sér detta í
hug, að fólk hrykki upp af svefninum á næstu bæjum.
Á sama máta brakaði í kirkjugólfinu, er prófastur gekk
upp að altari. En er hann hafði kropið á kné og hafið
bæn sína, varð þögn á ný, djúp þögn, alger þögn.
Það skal ósagt látið, hversu lengi séra Ingimundur
hafði bænt sig, er hann var truflaður í bæninni. Fyrst
í stað gerði hann sér alls ekki ljóst, hvað það var, sem
truflaði hann. En það var eitthvað, einhver hljóð, eitt-
hvað, sem honum fannst hann kannast við. Satt að
segja hélt hann til að byrja með, að þetta væri ímynd-
un hjá sér, eða einhver vitleysa. En svo fór, að hann
tók að leggja við hlustirnar. Varð hann ekki lítið undr-
andi, er hann þóttist heyra, að einhver væri að hrjóta
einhvers staðar í námunda. Stóð nú prófastur upp og
litaðist um í kirkjunni ef þar væri nokkur sjáanlegur.
En þar var enginn. Gekk hann þá út og í kringum
kirkjuna. En er hann kom fram fyrir kirkju sá hann,
hvar maður lá milli tveggja leiða og svaf. Var þetta
Gvendur og hraut ógurlega. Var honum þörf á hvíld-
inni eftir margar andvökunætur.
Prófastur horfði um stund á sjón þessa. Svo beygði
hann sig niður og tók um öxlina á Gvendi. Gvendur
ætlaði ekki að vakna. Prófastur varð að hrista hann
dálítið, áður en hann opnaði augun. Hljóp Gvendur
þá upp með írafári, er hann sá prófast stumra yfir sér.
Heima er bezt 357