Heima er bezt - 01.01.1964, Qupperneq 42
„Ertu ekki glaður yfir því, að ég kom?“
Þórir brosti. „Þú gleður karlmenn, fallegar stúlkur
gera það.“
Elín svaraði þessu ekki, sneri við honum vanga,
gaumgæfði hönd hans. Svart hárið féll frarn yfir enn-
ið. Það var dálítið blautt. Hún bar með sér hressandi
eim útiloftsins, vakti löngun Þóris eftir fjöllum, stormi
og regni.
„Ég er hætt að lesa nokkuð að gagni,“ sagði Ella og
leit framan í Þóri. „Það er allt svo vonlaust.“
„Uss, enga vitleysu,“ sagði Þórir og byrsti sig. „Vet-
urinn er varla byrjaður enn. Ef þú hættir að einbeita
þér, veizt þú ekki af, fyrr en þú ert búin að tapa þræð-
inum. Ertu búin að gleyma stúdentsprófinu og 17.
júní? Nei, þú mátt ekki gefast upp.“
Elín hristi höfuðið treglega. „Eg veit ekki,“ sagði
hún. „Líklega reynir maður að halda áfram. Fólk gerir
víst slíkt, þótt eitthvað bjáti á. Ég held áfram að læra,
ef ekki mín vegna, þá þín vegna.“
Þórir svaraði ekki, leiddi talið að skólanum, spurði
eftir kennurunum og námsfélögunum. Elín hresstist
smám saman á meðan á þessu samtali stóð og þar kom,
að hún skellihló, er hún fræddi Þóri um síðustu afglöp
prófessorsins. Svo hafði allt lent í uppnám út af strák,
sem var rekinn. Einn kennarinn hljóp út í miðjum
tíma, viti sínu fjær af reiði vegna skammastrika nem-
endanna. Þeir höfðu sett vekjaraklukku inn í styttu af
ónefndum merkismanni, sett vindil í munn hans og fest
með tyggigúmmí. Tónlistarkveldið hafði tekizt vel. Ás-
geir bekkjarfélagi þeirra hafði sungið einsöng. Hann
hafði verið feiminn fyrst, en síðan sótt í sig veðrið og
verið klappaður upp aftur. „Það eru allar stelpur á eftir
honunt,“ sagði Elín, „en hann lítur við engri.“ íþrótta-
kappinn setti skólamet í einhverju stökld, sjötti bekkur
sigraði fimmta bekk í knattspyrnu.
Er Elín lauk frásögninni ríkti þögn, óþægileg, þrung-
in spennu. Allt í einu brosti Elín, laut áfram, kyssti
Þóri á ennið. „En hvað við erum döpur,“ sagði hún.
„Já, það er nú meiri drunginn yfir okkur,“ sagði
hann, vó sig hærra upp og liðkaði armana með arm-
beygjum og réttum.
„Þú sérð, að ég hefi ekki alveg gefizt upp við leik-
fimina,“ sagði Þórir.
„Þú varst nú svo sprækur. Þú —.“ Hún þagnaði, leit
niður og fitlaði við sængina.
Hann lét armana falla, og þau þögðu. Vindurinn ýlfr-
aði við gluggana, haglkornin smullu á glerinu. Allt í
einu glaðnaði yfir Þóri. Hann skimaði yfir í næsta rúm.
Þar lá karl einn, mjög skeggjaður. Skegg hans var líkt
grófum bursta, hvítt og svart.
„Steini!“ kallaði Þórir. „Steini, er þetta ekki falleg
stúlka, hún Ella?“
Fyrst opnaði karlinn augun, ofurhægt, þvínæst munn-
inn með sömu tregðunni, loks heyrðist rám og sarg-
andi rödd:
„Falleg og falleg ekki.“ Það var mikill þrái í rödd-
inni.
„Voru þær fallegri í gamla daga?“
„Það veit ég ekkert um. Heldurðu, að ég muni það.
Ég hafði um nóg annað að hugsa.“
„Nú, þú kvæntist þó?“
„Kvæntist, auðvitað kvæntist ég.“ Það var kominn
enn meiri þrái í röddina.
„Af hverju?“ spurði Þórir stríðnislega.
„Æi, það þýðir ekkert að segja þér það. Hvað ætli
það þýði að segja það manni eins og þér, sem brýtur í
sér hrygginn af eintómum klaufaskap.“
Ella fölnaði, en Þórir hló. „Þú vilt bara ekki segja
mér frá því. Þú hefur auðvitað verið að deyja úr ást.“
„Þvæla, ást, hvað varðar mann um svoleiðis. Ég stóð
oft 14 tíma við slátt á votengi, kannski rennandi blaut-
ur upp í nára. Þá var nú ekkert sældarbrauð að binda
votaband eða rista torf. Hefurðu nokkurn tíma rist
torf?“
„Nei.“
„Jæja, hvað ertu þá að blaðra um ást? Ungir menn
þyrftu að vinna —
„Og sofa,“ bætti Þórir við.
„Sofa, já, auðvitað þurfti maður að sofa. Nú láta
unglingarnir eins og hálfvitar allar nætur, af því að
þeir nenna ekkert að vinna á daginn.“
„En hvað þá um hana Guðnýju þína og þessi 9 börn
ykkar?“
„Guðnýju? Tja, hún var held ég alltaf að vinna.
Börnin? Það var nú ekki allur vandinn að fylla heim-
inn af börnum.“
„Guðný þín er falleg kona enn þann dag í dag,“
sagði Þórir.
„Jæja, er hún það? Það getur vel verið.“
Ella hló. Hún spurði: „Er eitthvað af bömum þín-
um hérna í bænum?“
Gráskeggur leit á hana og svipur hans mildaðist.
„Ekkert, nema hún Lóa mín.“ Það þyngdi yfir svip
gamla mannsins og hann sagði með breyttri röddu:
„Sum eru í sjó, önnur á landi.“
„Tveir synir hans drakknuðu fyrir mörgum árum,“
sagði Þórir.
„Já, þeir fóru í hafið,“ sagði Gráskeggur. „Það voru
nú kögglar á þeim mönnum. En enginn má við höfuð-
skepnunum.“
Þau þögðu öll, og þau tóku allt í einu eftir vindgnýn-
um. Haglkomin smullu á glerinu af miklu afli. Þau sá-
ust greinilega í ljósbirtunni inni í stofunni urn leið og
þau hröpuðu niður í myrkrið.
„Nú er vont í sjóinn,“ sagði Gráskeggur loks og
sneri sér frá þeim. En hvað gamli maðurinn virtist und-
arlega settur í þessu hlýja, mjúka rúmi með hvítu sæng-
unum. Hann var hrjúfur, knýttur, grófskeggjaður,
fingumir digrir, neglumar þykkar og svartar. Nei,
hann átti ekki heima hér.
Það var fátt um samræður með þeim Þóri og Elínu
það sem eftir var heimsóknartímans. Þau héldust í hend-
ur og það var friður yfir svip þeirra, eins og þau væru
að dreyma.
38 Heima er bezt