Heima er bezt - 01.07.1964, Blaðsíða 15

Heima er bezt - 01.07.1964, Blaðsíða 15
eftir nema rúma dagleið að fyrsta ákvörðunarstaðnum, miðað við, að allt gengi vel, og þó að síðasti áfanginn væri dálítið erfiður fjallvegur, þá var það bara hress- andi, ekld sízt, ef ég fengi eins gott veður og leit út fyrir að ætlaði að verða í dag. RöSkri klukkustund eftir að ég skildi við bílinn, er ég staddur við á eina, allvatns- mikla, að mér sýndist, og er að svipast eftir, hvort ég sjái ekki brú á henni, því að síður vildi ég þurfa að vaða hana. Sé ég þá hvar maður kemur ríðandi ofan með ánni og fer mikinn. Þetta reyndist vera ung stúlka á rauðum fola, sýnilega mesta fjörgapa. Er hún var kom- in til mín, gaf hún reiðskjóta sínum stöðvunarmerki með léttu, en snöggu taumtaki, sem hann hlýddi strax, enda þótt sjá mætti á svip hans, að ljúfara væri að mega halda sprettinum áfram. Ég bauð henni góðan dag og spurði um brú á ánni. Jú, brúin var að vísu til, en hún var bara mikið neðar. Ég var því kominn talsverðan spöl af réttri leið, sem hlaut að orsaka dálitla tímatruflun á ferða- áætlun minni. Annað hvort hafði bílstjórinn ekki sagt mér rétt til vegar, eða ég ekki tekið rétt eftir. Unga stúlkan sneri sér til hálfs við í hnakknum um leið og hún gaf umbeðnar upplýsingar. Eitt augnablik mættust augu okkar, og í svip hennar fannst mér speglast við- kvæmni og blíða, og þó festa. Sá rauði tók nú að ókyrrast og gaf ótvírætt í skyn, að honum fyndist þessi töf óþörf. Allt í einu tók hann á sprett og var óðara horfinn niður að ánni, þar sem ég hugði, að stúlkan myndi ætla yfir. Ég stóð þarna nokkur augnablik eins og negldur við jörðina, og var að hugsa um, hvað þessi unga ókunna stúlka, með sín fögru augu og hugljúfa málróm, hefði haft annarleg áhrif á mig. Ég hafði kynnzt mörgum ungum og lagleg- um stúlkum á undanförnum árum, en engin haft jafn skyndileg áhrif á mig sem þessi. Allt í einu barst mér að eyrum hljóð, sem mér virtist koma frá ánni. Ég leit við og sá þá hvar hesturinn var að koma upp úr ánni hinum megin — og mannlaus. Ég svipti af mér ferða- pokanum og yfirhöfninni og hljóp fram að ánni. Mátti það eigi seinna vera, því rétt í þessu var straumurinn að bera stúlkuna fram með bakkanum áleiðis niður í gínandi straumiðu, sem óefað hefði flutt hana yfir landamæri lífs og dauða. Ég neytti nú allrar orku til að standast straumþungann, sem beljaði á mér, um leið og ég laut niður að hinni meðvitundarlausu stúlku. Mátti það engu muna að straumurinn tæki mig, og hefðum við þá bæði orðið samferða yfir í hin ókunnu lönd. Síðar hvöfluðu að mér þær hugsanir, að sælt hefði verið að deyja með hana í örmum sér, en sælla var þó áreiðan- lega að bjarga henni úr greipum dauðans. Ég tók nú stúlkuna í fang mitt, og gat með mestu erfiðismunum lyft henni upp á bakkann, sem var nokk- uð hár, og fann ég til mikillar þrautar í bakinu um leið. Ef til vill var það bara gigtarstingur, sem ég hafði jnokkrum sinnum fundið til áður. „Dag skal að kveldi lofa“, segir gamalt spakmæli. Veðrið, sem hafði verið svo yndislegt um morguninn, var nú tekið að breytast allmikið, kominn norðaustan kuldasvelja, og útlit fyrir allmikla úrkomu. Það var því rík þörf að komast fljótt til bæja, ef stúlkan átti lífi að halda, og það gerði ég mér vonir um, enda þótt hún væri enn meðvitundarlaus í fangi mínu. Ég hafði tekið eftir, að stutt var heim að næsta bæ, en leiti bar á milli, svo að ekki sást heim frá ánni. Leiðin frá ánni upp á leitið var talsvert í fangið og reyndist því þessi stutti áfangi mjög erfiður — en upp varð ég að komast, því annars vorum við kannske bæði í dauðans greipum. Það mátti heldur ekki tæpara standa, til allrar hamingju var ég svo heppinn, að sjá mann úti við. Ég neytti nú allr- ar orku til að kalla á hjálp, en í sama bili sortnaði mér fyrir augum, og ég hné aflvana til jarðar. Þegar ég kom til sjálfs mín aftur, lá ég í mjúku rúmi í mjög vistlegu herbergi, en við rúmið sat hvítklædd vera, sem ég hélt í fyrstu að væri engill, og hugsaði ég því, að ég væri dá- inn. En þegar stúlkan fór að tala við mig, spyrja hvernig mér liði og þess háttar, þá smáskýrðist þetta fyrir mér, og þekkti ég líka við nánari athugun að þetta var sama stúlkan, sem ég hafði bjargað úr ánni. Hún sagði mér, að ég væri búinn að liggja í viku. Hafði ég fengið lungnabólgu og verið um tíma svo slæmur, að læknirinn hefði talið tvísýnu á lífi mínu, en nú væri ég á góðum batavegi og úr allri hættu, ef ekk- ert sérstakt kæmi fyrir. Ég yrði bara að vera rólegur á meðan, þá kæmi þetta furðu fljótt. Þetta sagði hún mér með þeirri gætni, sem góð hjúkrunarkona myndi gert hafa. Sjálf sagðist hún hafa verið búin að ná sér furðu vel strax daginn eftir. Síðan bætti hún við: „Annars má ég ekki tala meira við þig, fyrr en þú ert farinn að hressast betur, og það vona ég að verði fljótt úr þessu.“ Þarna lá ég í fullar fjórar vikur við þá beztu aðbúð, sem hægt var að láta í té. Hjúkraði þessi stúlka mér að mestu leyti með sérstakri alúð og nærgætni. Sagðist hún heita Margrét Ólafsdóttir, en móðir sín hefði heitið Anna og væri dáin fyrir tíu árum. Heimilið héti Stóru- Vellir og hefði faðir sinn búið hér allan sinn búskap, eða um tuttugu og fimm ára skeið. Kvaðst hún hafa verið bústýra hans síðustu sjö árin, að undanteknum tveimur vetrum, sem hún hefði verið við nám — en hún væri nú tuttugu og þriggja ára. Þegar ég fór að hressast lánaði hún mér bæði bækur og annað, sem mér mátti til dægrastyttingar verða, og sjálf sat hún hjá mér, þegar hún gat því við komið, og skemmti mér með alls konar frásögum. Fannst mér þessi tími í raun og veru svo unaðslegur, þrátt fyrir lasleikann, að ég hefði næstum því viljað liggja mikið lengur til að fá að njóta slíkrar hjúkrunar. Um jólaföstuinngang var ég orðinn allhress, að mér fannst, a. m. k. Vildi ég því fara að klæða mig, enda fannst mér ég vera búinn að liggja nógu lengi upp á ókunnu fólki, enda þótt það væri af framangreindum ástæðum. En Margrét var ekki á því að ég færi á fætur strax. „Ég veit ekki nema þú kunnir að rjúka burtu áður en þú ert nægilega frískur,“ sagði hún, er ég hafði orð á því að ég vildi fara að klæða mig. Heima er bezt 255

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.