Heima er bezt - 01.07.1965, Síða 12
Fyrst sá hún aðeins gullbryddan þokubakka, sem bar
roða rósanna og mildi kvöldsins.
Svo rofnaði þokubakkinn og hlið himinsins blasti við.
Hliðið var gjört af tveim súlum, sem báru hinn
græna lit gróandans, en voru efst trafi vafðar.
Margir vegir lágu að hliðinu og úr öllum áttum.
Sumir voru beinir og breiðir, en miklu fleiri þröngir
og krókóttir, eða þá einstigi ein, villugjörn og vand-
rötuð.
A öllum vegum var fólk á ferð og af öllum þjóðum.
Þar voru líka öll dýr jarðarinnar. Allir stefndu að hliði
himnanna.
Yfir dýrum og mönnum ríkti friður og ró og hægt
var farið.
Fyrir innan hliðið voru grænar grundir, sem glitruðu
af blómum.
Og þar var aðeins einn vegur, beinn og breiður. Allar
tegundir trjáa voru gróðursett meðfram honum og
enginn gat villzt er þangað var komið.
I fjarska blikuðu lönd eilífðarinnar með vaggandi
pálmatrjám og snævi þöktum fjöllum.
En í órafjarlægð sáust turnar og hvolfþök hinnar
hvítu marmarahallar, þar sem höfundur lífsins á heima
og þó er hann allstaðar.
Og er hún hafði séð þangað, sá hún ekki meira.
Gamla konan veit ekki hve lengi hún horfði inn í
himininn. Það gat bæði hafa verið ein stund og heil
O O
eilífð. —
Þura gamla getur líka sagt þér brot af sögu horfinna
kynslóða.
Hún mun segja þér af konunni, sem bjó frammi í
dalnum og þótti harðlynd. Konunni, sem heimtaði
mikla vinnu af ungum og gömlum og varla heyrðist
yrða á bónda sinn.
Hún segir, að þessi kona hafi verið óvanalega blíð-
lynd, þegar hún var ung. Ein af þeim konum, sem allir
vildu unna.
En hún unni aðeins einum manni, og það var fátækur
maður og af vafasömum ættum.
Foreldrar hennar vildu hvorki heyra hann né sjá.
En þau hefðu eins getað skipað Eiríksjökli og Baulu
að hoppa á haf út og dansa þar trylltan dans, eins og ást-
inni að yfirgefa hjarta dóttur sinnar.
Hún brást unnustanum aldrei. Hann gleymdi henni.
Eftir það heyrðist hún sjaldan hlæja og ef hún brosti,
var eins og brosið stirðnaði á vörum hennar.
Eftir lát foreldranna giftist hún manni, sem var eldri
en hún sjálf. Hún þótti köld og harðlynd húsmóðir
og skipaði öllum til vinnu, húsbóndanum Iíka. Sjálf
vann hún mest og átti oftast lengstan vinnudag. Vinn-
an var blessun hennar eins og svo mörgum börnum
sorgarinnar.
En þessi harðlynda kona var fátækum góð. Þegar
aðrir fóru að sofa, fór hún oft með mat og föt til
þeirra, sem áttu lítinn kost. Og þá var ekki numið við
nögl.
Ekki fór hún troðna stigu þegar hún fór þessar ferðir
sínar og oftast mun hún hafa komizt óséð á áfangastað.
Hundarnir á bæjunum gelta varla að henni. Hún
var vinur þeirra og átti oft bita handa þeim í pilsvasa
sínum, er hún fór þessar ferðir.
Komið hafði það fyrir að hún mætti öðrum vegfar-
endum, en fáir urðu til að spyrja hana hvert ferðinni
væri heitið. Oftast stóð af henni gustur. Hún átti sam-
leið með svo fáum.
Ef einhver veiktist á heimili hennar eða sorgin sótti
hann heim, þá átti sá hinn sami öruggt athvarf hjá
þessari harðlyndu konu, sem hreytti orðunum til þeirra,
sem hún taldi fleyga og færa.
Alla sína ævi var hún fátækum góð, og hún varð
gömul kona.
Einkadóttir hennar giftist manni af sömu ætt og gamli
unnustinn hennar var.
Talið er að það hafi verið mjög á móti skapi gömlu
konunnar. En það veit þó enginn með vissu.
Eftir giftingu dótturinnar varð móðirin hálfu gjöf-
ulli við fátæka en áður. —
Og á banabeði gaf hún öll fötin sín fátækri konu.
Þá átti hún ekkert eftir.
Spunakonan trúir því að við jarðarför hennar, rétt
áður en presturinn mælti fram blessunarorðin, hafi tveir
hvítir fuglar, sem enginn þekkti, flogið inn um opnar
kirkjudyrnar og setzt á kistu hennar.
En er prestur hafði mælt fram blessunarorðin, hafi
þeir flogið á móti bliki hinnar hnígandi skammdegis-
sólar og horfið í geislum hennar.
Þura gamla mun líka segja söguna um fóstbræðurna,
Sigurð og Helga. En er hún gerir það, þá verður þú
að hafa hugfast að hún er barn síns tíma. Trúir á álfa
og huldufólk og gætir þess vandlega að móðga ekki
hulda hollvætti.
Hún efast ekki um að hægt sé að lækna mannamein,
með hjálp frá öðrum heimi. Hafið hugfast að á henn-
ar æskudögum voru úrræði, er sjúkdóma og slys bar
að höndum, önnur en nú eru. Þá notuðu menn andar-
nefjulýsi til lækninga á beinbrotum og liðhlaupum.
Fyrir mörgum, mörgum árum gekk drepsótt ein víða
um land og lagðist mest á börn. Komið gat það fyrir
að á barnaheimilum væru öll börnin dáin eftir fáa daga,
ef þann vágest bar að garði.
Hjón bjuggu góðu búi. Er húsfreyja nefnd Þórdís en
bóndi Hallur. Þau áttu einn son er Sigurður hét, var
hann ungur sveinn er sagan hefst.
Þórdís var ljósmóðir og hafði margri konunni hjálp-
að. Gott orð fór og af bónda hennar.
Talið var að Þórdís hefði einhver sambönd við huldu-
heima og þóttist fólk vita að hjálpað hefði hún huldu-
konu í barnsnauð.
248 Heima er bezt