Heima er bezt - 01.05.1968, Síða 15

Heima er bezt - 01.05.1968, Síða 15
kona. Leið nú sumarið og ekkert bar til tíðinda, er snerti hag Soffíu Jónsdóttur. Um haustið varð Soffía léttari og ól sveinbarn þar á Kotá þann 28. nóvember 1869. Sveininn lét hún heita Albert. Um veturinn var hún á Kotá hjá þeim Jóhannesi og Rannveigu og reynd- ust þau henni vel, eins og væri hún systir þeirra. Næsta ár á eftir taldist hún húskona á Rangárvöllum í Krækl- ingahlíð. Næstu árin vann hún hjá bændurn í Hlíðinni að ýmsum störfum, sumar og vetur, en var þó mjög viðurloða hjá vinum sínum á Kotá. Með snapavinnu og sífelldum erli stað úr stað hafði hún ofanaf fyrir sér og syni sínum. Ekki búnaðist þeim vel Kotárhjónum, og hættu því búskap þar vorið 1869 og fluttu aftur fram í Saurbæj- arhrepp. Skildu þá með öllu leiðir þeirra hjóna og Soffíu Jónsdóttur. Nú var Albert Kristjánsson orðinn fjögurra ára, hraustur og tápmikill eftir aldri, en nú orðinn föð- urlaus. Móðir hans hafði lagt fram alla krafta sína og umönnun til að forða því að hann liði nokkurn skort. Sjálf var hún svo örsnauð að tæplega átti hún fötin ut- an á sig. Soffonías Jónsson, bróðir Soffíu Jónsdóttur, var fæddur í Krókárgerði 12. okt. 1831. Þegar Jón faðir hans bjó á Hraunshöfða, léði hann Soffonías 1843 sem léttadreng út í Svarfaðardal. Þá var Soffonías 12 ára. Hann ílentist í dalnum, og vitjaði ekki síðan ættstöðv- anna. Hann gerðist snemma sjómaður og varð loks skip- stjóri á hákarlaskipi. Hann kvæntist 1859 heimasætunni á Grund í Svarfaðardal, Soffíu Björnsdóttur bónda þar, Björnssonar. Þau bjuggu nokkur ár í dalnum eða voru í húsmennsku, þar til 1869 að Soffonías fékk ábúð á Bakka í Tjarnarsókn. Jafnframt búskapnum stundaði hann hákarlaveiðar. Árið 1875 var hann skipstjóri á há- karlaskipinu „Hreggviður“. í maímánuði það ár hreppti skipið aftaka illviður, og fórst í þeim garði með allri áhöfn. Sennilega hefur Soffonías Jónsson haft einhverjar spurnir af högum Soffíu systur sinnar, og viljað rétta henni hjálparhönd, þó eftir því muni ekki hafa verið leitað. En nú þegar hann hóf búskap á Bakka, hefur hann kannski vantað vinnukraft, og þá beðið systur sína að koma til sín. Annars eru ekki til neinar öruggar heim- ildir fyrir atvikum þessarar ráðabreytni. En víst er, að vegna tilhlutunar Soffoníasar, ákvað Soffía að flytja út í Svarfaðardal til bróður síns á Bakka vorið 1869. Und- anfarin ár hafði hún hafzt við í Kræklingahlíðinni. Snemma þetta vor var Soffonías kominn á haf út í hákarlalegu, en hafði láðst, áður en hann fór, að gera ráðstöfun um flutning Soffíu út í Svarfaðardalinn. Hún átti engan að í Kræklingahlíðinni, sem hún gæti leitað til um aðstoð við ferðina úteftir. Og svo var hún blá- snauð, að hún hafði engin ráð til að fá léðan hest og fylgdarmann út í dalinn. En þetta lét hún ekki aftra sér, heldur ákvað að fara gangandi. Morgun einn síðla maímánaðar hóf hún svo göngu sína. Hún bar Albert son sinn á bakinu ásamt fatapoka sínum, sem ekki var fyrirferðarmikill. Er hún hafði gengið lengi dags án þess að matast annars en lítils nest- isbita, kom hún að bæ einum og bað að gefa sér og barninu mjólk að drekka. Húsbóndinn á bænum varð fyrir svörum, og kvað sér lítast svo á hana að hún mundi ekki þurfa að sníkja sér út mat, svo væri hún bústin að sjá og rjóð í vöngum. Ekki hafði Soffía skap til að. kné- krjúpa bónda þessum um aðstoð né skýra honum frá ástæðum sínum, og hélt áfram ferð sinni við svo búið. Ekki eru kunnar aðrar sagnir af ferð Soffíu út í Svarf- aðardalinn, en heilu og höldnu komst hún að Bakka og settist þar að með Albert son sinn, vistráðin vinnukona til næsta vors, hjá Soffoníasi bróður sínum og konu hans. í Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal hafði þrjú síðast- liðin ár búið ógiftur bóndi að nafni Hallgrímur Jóns- son, f. á Dæli í Skíðadal 12. júní 1826. Foreldrar hans voru Jón Sigurðsson og Kristín Þórðardóttir, sem þá bjuggu í Dæli og síðar Tjamargarðshorni. Hallgrímur Jónsson var hæglátur í fasi, drengskaparmaður og frem- ur heilsuveill jafnan. Vorið 1870 tók hann ábúð á Hálsi í Svarfaðardal. Réðist Soffía Jónsdóttir ráðskona til hans. Hugði hún að með því hefði hún frjálsari hendur en í vinnumennsku, og gæti betur sinnt um drenginn sinn. Innanhússstörfin á búi Hallgríms rækti hún af mik- illi stjórnsemi, hagsýni og dugnaði svo að athygli vakti hjá nágrönnum hennar. Eftir rúmlega eins árs ábúð á Hálsi giftust þau Hallgrímur og Soffía í september 1871. Var hann þá 46 ára og hún 37 ára. Þau eignuðust son, sem fæddur var 30. júlí 1871, og skírður Jón. Vöknuðu nú vonir Soffíu um að lífsferill hennar væri kominn í sæmilega trygga höfn, eftir margra ára hrakn- ing og umkomuleysi. Kannski væri nú að rætast nokk- urt brot af glæstu hjúskapardraumunum, sem fæddust í huga hennar fyrir sjö árum síðan, en aldrei urðu að veruleika. En einnig þessar nýfæddu vonir og framtíð- ardraumar báru dauðan í skauti sínu og áttu yfir sér þann dóm að bíða skipbrot og frjósa í hel á hjarni ör- laga hennar. Eftir aðeins nokkurra mánaða hjúskap and- aðist Hallgrímur Jónsson, 6. janúar 1872. Var banamein hans talið „brjóstveiki“. Stóð þá Soffía uppi ein og ó- studd með tvo unga syni sína, Albert 6 ára og Jón á fyrsta ári, en efni lítil. Einstæðingsskap og örðugleikum hafði hún áður kynnzt allvel án þess þó að andlegt þrek hennar eða vilji hefði bugazt. En nú reyndi meir á það en nokkru sinni fyrr, það sem efst og ríkast var í hug hennar nú, var umhyggjan fyrir föðurlausu drengjun- um hennar. Það var fastur ásetningur hennar og vilji að hvorugan son sinn skyldi hún láta frá sér fara. Móð- urhendi sinni ætlaði hún að halda yfir drengjunum sín- um, þeim til verndar, meðan nokkrir möguleikar væri til og orkan entist. Um þetta vandamál hefur Soffía ef- laust brotið heilann marga andvökunótt. Til þess að ósk- um hennar gæti orðið fullnægt virtist henni helzta, og raunar eina úrræðið vera, að halda búskapnum áfram með einhverjum ráðum. Annars lá ekkert fyrir annað en húsmennska og hrakningur eða þá vinnumennska. En af báðum þessum leiðum hafði hún öðlazt bitra Heima er bezt 159

x

Heima er bezt

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.