Heima er bezt - 01.04.1975, Blaðsíða 7
Vafalaust hefur breytingin orðið mikil að flytja frá
Blain, á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna, til Húsa-
víkur við Skjálfandaflóa. — Mannlífið var þar annað,
hvað þá umhverfi. En á þjónustustörfum prestshjónanna
varð ekki stórfelld breyting. Frú Gertrud lék á hljóð-
færi og tók þátt í söng, gerðist organisti í sóknarkirkju
manns síns, kennari við skólana á Húsavík, stofnaði
skátafélag stúlkna og var leiðtogi þess, svo nokkuð sé
talið. Húsmóðir var hún á stóru heimili þar sem gesta-
komur voru miklar.
Séra Friðrik hafði mikla lífsreynslu og starfsreynslu
auk þess að vera hámenntaður. Hann hafði stundað
framhaldsnám í trúarsálarfræði, predikunarfræði o. fl. á
meðan hann dvaldi í Ameríku. Hann rækti kirkju sína
af trúmennsku og er mikill kennimaður. Ræður semur
hann af listrænni kostgæfni. Meðferð íslensks máls er
honum íþrótt. Eins og miklir kennimenn notar hann
dæmisögur. Þeirra þarf hann skammt að leita. Upp-
sprettulindin í fjallinu og fallandi haustlaufið á trjánum
er honum efni í predikun.
Auk þess að vera prestur og prófastur hlóðst á hann
fjöldi annarra starfa, og verða fá ein talin hér. Hann
var kennari, prófdómari, starfaði í fjölda nefnda og var
þar gjarna formaður. Hann var söngstjóri Kirkjukórs
Húsavíkur og Karlakórsins Þryms í fjölda ára. í þeirri
hstgrein var hann sjálfmenntaður. Og þótt sjálfsmennt-
un sé góð, er hún allrar menntunar erfiðust. Söngstjóra-
starfið var honum mjög tímafrekt. Hann skrifaði og
fjölritaði sæg af lögum fyrir báða kórana. Það var
gjarna næturvinna, eins og raunar margt annað. Hann
átti sæti í stjórn Söngfélagsins Heklu, sem er samband
norðlenskra karlakóra og í stjórn Kirkjukórasambands
S.-Þing.-prófastsdæmis og var söngstjóri á söngmótum
beggja þessara sambanda.
Þrátt fyrir allt þetta og miklu fleira, hafði hann tíma
til að flytja ræður á mannamótum, þýða ágæta skáld-
sögu úr ensku, semja lög og þýða og frumsemja fjölda
söngtexta. Hverja nótnabókina af annarri hefur hann
skrifað til Ijósprentunar, en nótnaskrift hans er með
miklum snilldarbrag.
Þegar Húsavíkurkirkja átti fimmtugsafmæli, samdi
séra Friðrik hátíðaljóð og lag, sem frumflutt var undir
stjórn hans. Hvort tveggja er fagurt og tilkomumikið
og hefur nokkrum sinnum verið flutt síðan.
Frumsamin lög eftir séra Friðrik eru þegar lands-
kunn, en einkum þó söngtextar hans. Sumir þeirra má
heita að séu á hvers manns vörum. Hann er gott skáld,
og lausavísur yrkir hann af listfengi.
Þegar prófastshjónin komu til Húsavíkur, fluttu þau
með sér mikinn sæg ljóða og laga frá hinum enskumæl-
andi heimi. Sú tónlist var lítt þekkt hér um slóðir, þar
sem norræn og germönsk sönglög voru mestu ráðandi
allt frá því að sönglíf hófst og íslendingar lögðu þjóð-
lög sín til hliðar. Nú lét séra Friðrik kóra sína, Kirkju-
kórinn og Þrym, kynna þessi vestrænu lög. Það var
drjúgur skerfur til menningarlífs á Húsavík og nágrenni.
Hann þýddi eða orti texta við lögin. Við það verk naut
hann hagmælsku sinnar, skáldgáfu og tónlistargáfu. Að
þýða eða setja á annan hátt texta við lög svo vel fari,
hvað þá mjög vel, er miklum mun meiri vandi en al-
mennt er skilinn. í þeim efnum nær séra Friðrik mjög
langt.
Það hlýtur að vekja undrun allra sem til þekkja,
hve miklu séra Friðrik kom í verk á Húsavíkur árum
sínum. Enda hvarf hann þaðan mjög þreyttur.
Hér að framan hafa einkum verið upp talin þau verk,
sem unnin voru í hinum stóra víngarði. A bak við þau
var maðurinn Friðrik A. Friðriksson. Maðurinn sem
konan sagði um forðum að væri „eintóm sál“. Maðurinn,
sem ekki verður greindur í orðflokka, fallhætti né setn-
ingar. Ekki heldur lagður á kvarði né veginn á vogar-
skál.
Þar sem störf hans voru flest unnin á Húsavík, hefði
Heima er bezt 119