Heima er bezt - 01.05.1978, Blaðsíða 4
EIRÍKUR EIRÍKSSON:
Það er náttúra
mannsins
að forvitnast
Viðtal við Helga Hallgrímsson grasafræðing
Segðumér eitthvað um œtt þína og uppruna.
Ég er fæddur á Skeggjastöðum (Holti) í Fella-
hreppi á Héraði austur, 11. júní 1935.
Móðir mín er Laufey Ólafsdóttir frá Skeggja-
stöðum, en faðir Hallgrímur Helgason frá Ási í sömu
sveit. Mamma er af vefaraætt, sem er alkunnug þar eystra,
föðurætt pabba er komin af Hallgrími í Sandfelli, en af
þeirri ætt eru ýmsir fræðimenn og skáld þar eystra, svo
sem Páll Ólafsson, Gunnar Gunnarsson og Benedikt
Gíslason frá Hofteigi. Móðurætt hans var hins vegar úr
Vestur-Skaptafellssýslu, og hef ég fyrir satt að hana megi
rekja til Jóns Steingrímssonar eldklerks. Langalangafi
minn í móðurætt var Guttormur Vigfússon stúdent á
Arnheiðarstöðum, sem var forgöngumaður um ýmsar
nýjungar í félags- og ræktunarmálum þar eystra, en son-
arsonur hans með sama nafni varð fyrsti skólastjóri bún-
aðarskólans á Eiðum. Foreldrar mínir voru bæði komin í
fjórða lið af Ingunni skyggnu á Skeggjastöðum, sem var af
Hellisfjarðarætt, en sonarsonur hennar var Sigfús Sigfús-
Droplaugarstaðir í Fljótsdal og Fossar í Hrafnsgerðisú.
148 Heima er bezl
son þjóðsagnaritari. Loks má geta þess að Jón Ólafsson
langafi minn í móðurætt var listasmiður.
Foreldrar mínir fluttu með mig á fyrsta ári frá
Skeggjastöðum á Arnheiðarstaði í Fljótsdal, þar sem þau
fengu þriðjung jarðarinnar til ábúðar. Á þeim þriðjungi
stofnuðu þau nýbýli er þau nefndu Droplaugarstaði, og er
nú yztur bær í Fljótsdal, stendur á hjalla rétt fyrir innan
Hrafnsgerðisána, sem skiptir hreppum. Þangað fluttu þau
1942.
Arnheiðarstaðir eru nær beint á móti Hallormsstað,
hinum megin við Lagarfljót. Þar er fagurt umhverfi,
klettahlíðar rétt fyrir ofan bæinn, og fellur bæjarlækurinn
þar fram af í fallegum fossi. Þar komst ég fyrst í kynni við
huldufólk, en frá því verður ekki sagt nánar að sinni.
Tvenn beitarhús eru í landi Amheiðarstaða og fylgdu
þau bæði nýbýlinu. Önnur þeirra eru Parthúsin, sem fræg
hafa orðið af sögunni um Parthúsa-Jón, en hin nefndust
Stekkhús, og bjuggum við í þeim síðarnefndu eitt sumar,
meðan verið var að byggja íbúðarhúsið á Droplaugar-
stöðum. Það fannst mér skemmtilegt sumar. Eldavélin var
sett upp í einni krónni, en við krakkarnir borðuðum alltaf
uppi í garðanum á plötu, sem lögð var á garðaböndin.
Svefnhúsið var lítill skúr, sem hrófað var upp rétt við
fjárhúsið.
Svo hefur þú alizt upp á Droplaugarstöðum?
Á Droplaugarstöðum komst ég til vits og ára, eins og
stundum er sagt. Þar er líka mjög skemmtilegt umhverfi,
brattlent niður að Fljótinu, og breiðir hjallar hver upp af
öðrum. Hrafnsgerðisáin, sem er töluvert vatnsmikil, fellur
þarna þvert niður hlíðina í djúpu gili með mörgum
fallegum fossum. Þetta árgil varð snemma athvarf mitt frá
heimsins glaumi. Fór ég þar einförum og hugsaði um
hinztu rök lífsins og tilverunnar, - í þá daga var ég mjög
heimspekilega sinnaður.