Heima er bezt - 01.05.1978, Side 8
námsstyrkur, ef ég vildi fara og kynna mér sveppafræði og
sérstaklega fúasveppi, sem þá gerðu mikinn usla í fiski-
skipum úr tré. Þetta varð til þess að ég fór að kynna mér
sveppafræði. En áður hafði ég ekki haft sérstakan áhuga á
þeirri grein. Um sumarið safnaði ég nokkru af sveppum
og sá að þetta var skemmtilegt viðfangsefni. Lét svo slag
standa, og tók tilboðinu, og fór utan um haustið, og enn til
Göttingen, var þar vetrarmisserið, og tók „stórpraktikum“
i dýrafræði. Fór svo heim um vorið og vann við smíði
ritgerðar um gró, sem ég flutti svo opinberlega í Grasa-
fræðistofnun Háskólans næsta sumar, en þá dvaldi ég
mest í Hannoversch Munden, þar sem skógræktardeild
Háskólans er staðsett, og kynnti mér svepparæktun o.fl.
því skylt.
Þá hefurþú farið að hugsa til doktorstitilsins.
Ég var nú (sumarið 1961) loksins kominn að því stigi að
hafa lokið tilskildum kúrsum o.s.frv., sem krafist var til
lokaprófsins, en það var kallað doktorspróf í Göttingen,
eins og í fleiri þýzkum háskólum. Tilskilið var einnig að
kandidatinn skilaði ritgerð, sem byggðist að einhverju
leyti á sjálfstæðri rannsókn.
Ég fór nú á fjörurnar við grasafræðiprófessorana um að
þeir tækju mig sem „doktorant“, og kvaðst vilja rannsaka
íslenzka sveppi og taka þá sem ritgerðarefni. Þeir töldu þá
öll tormerki á því, og báru við vanþekkingu sinni á
svepparíki íslands (sem auðvitað var rétt.) Niðurstaðan
varð sú, að þeir „sendu“ mig til Hamborgar, en þar töldu
þeir að væru menn, sem væru mun betur inni í þessum
hlutum. Þangað fór ég svo og fékk heldur góðar undir-
tektir hjá Hamborgurum. Það kom hins vegar í ljós að
þar þurfti ég að taka sérstakan kúrsus í lífrænni efnafræði,
sem ég hafði sloppið við í Göttingen. Fór svo heim við svo
búið.
Næsta vetur (1961-62) kenndi ég aftur við Mennta-
skólann, og fór svo til Hamborgar um vorið og lauk þess-
um efnafræðikúrs á einum mánuði (sem annars var gert
ráð fyrir að tæki tvo-þrjá mánuði), og svo aftur heim, og
hélt áfram að safna sveppum um sumarið.
Veturinn 1962-63 var ég heima og stundaði próflestur,
en greip jafnframt í að rannsaka sveppasafnið, sem nú var
orðið allmikið að vöxtum. Fór svo til Hamborgar um
vorið og lauk þar prófi í eðlisfræði og efnafræði, en það
var eins konar forpróf, sem þar þurfti að hafa til loka-
prófs.
Þóttist ég nú vel hafa gert, og beið með eftirvæntingu
tilkynningar um endanlegt efnisval frá prófessornum í
Hamborg. Og sjá: seint um sumarið fæ ég bréf frá honum,
þar sem hann felur mér að skrifa um berserkjasveppinn
og efnasamsetningu hans. Megi ég að vísu taka íslenzka
sveppi til ræktunar í þessu skyni, en að öðru leyti verði ég
að vinna að þessu í Hamborg, undir handleiðslu hans.
Það þarf naumast að geta þess að ég var búinn að fá nóg
af „þýzkri nákvæmni“ þegar hér var komið sögu, og þetta
bréf varð aðeins til að undirstrika það, enda skrifaði ég
prófessornum að hann gæti „étið“ sína berserkjasveppi
sjálfur. Síðan hefi ég ekki hugsað frekar til próftöku, enda
152 Heima er bezt
aldrei orðið var við að það háði mér að vera án þeirra
réttinda.
Hvenœr varst þú svo ráðinn safnvörður við Náttúrugripa-
safnið?
Sama haustið (1963) var ég ráðinn þar safnvörður. Hafði
reyndar flutt þangað sveppasafn mitt veturinn áður, með
leyfi bæjarstjórans þáverandi, Magnúsar Guðjónssonar,
af því mig vantaði húspláss fyrir það. eg held sé óhætt að
segja það, að ég hafi aldrei hugleitt þann möguleika að
hægt væri að gera neitt úr þessu nátturugripasafni, sem þá
var ekki annað en sýningarsafn, en þegar ég flutti þangað
inn fór ég að íhuga þetta, niðurstaðan varð sú að ég gerði
tillögur til bæjarstjórnar um eflingu þess, og það mun
aftur hafa valdið því að ég var ráðinn í þetta starf, sem þá
hafði raunar verið laust í nokkur ár, eða síðan Kristján
Geirmundsson fyrrv. safnvörður flutti til Reykjavíkur, en
það mun hafa verið árið 1959.
Reyndar er nú hæpið að kalla það starf, því það var
auðvitað ekki nema lítið brot úr starfi (mánaðarlaun mín
voru 1500 kr. að mig minnir, þegar ég byrjaði), og þess
vegna hafði ég fulla kennslu við Menntaskólann næstu
árin, en gat svo smám saman minnkað hana eftir þvi sem
starfsemin á safninu jókst, og vorið 1969 hætti ég alveg að
kenna, og hef ekki komið nálægt því síðan.
Hvernig líkaði þér kennslustarfið?
Bæði vel og illa. Ég hafði á vissan hátt gaman af því, en gat
ekki að því gert, að mér fannst það alltaf heldur tilgangs-
lítið, eins og það er stundað í skólunum. Ég braut heilann
mikið um þetta á sínum tíma, og gerði alls konar tilraunir
með nýjar aðferðir, en allt strandaði það á tregðu þessarar
miklu vélar sem nefnist skólakerfi. Mig langaði til að gera
nemendur virkari þátttakendur í náminu og tók m.a. upp
ritgerðasmíð í því skyni, í náttúrufræðinni, en það er víst
það eina sem hefur haldist af þessum nýjungum mínum.
Annars naut ég mín bezt í efnafræðikennslunni í þriðja
bekk, og þaðan munu flestir nemendur mínir eiga góðar
minningar, það hef ég oftlega rekið mig á síðan. Ég reyndi
að tengja efnafræðina sem mest við daglega lífið, og
byrjaði t.d. oftast á þvi á haustin að kveikja á kerti og
útskýra logann sem efnabreytingu.
Á síðari árum hefi ég gerzt enn fráhverfari skólum og
öllu sem þeim fylgir, og held að þeir eigi verulegan þátt í
vandamálum nútímans.
Hvað er svo að segja um safnstörfin frekar?
Ég byrjaði á því að skrásetja safnið. Sem fyrr getur var það
nær eingöngu sýningarsafn fugla, eggja o.s.frv. Þó var þar
jurtasafn Steindórs Steindórssonar, sem bærinn hafði
keypt um 1960, en Steindór hafði einn aðgang að því, og
svo var sveppasafnið mitt.
Ég byrjaði strax fyrsta sumarið að safna jurtum handa
safninu, og hélt því áfram næstu sumur, fór mest um
Eyjafjörð í því skyni, enda eina farartækið reiðhjól, sem
ég keypti með styrk frá safninu. Þó fór ég nokkrar lengri
ferðir, m.a. út í Fjörður og á Látraströnd. Árið 1965 keypti