Heima er bezt - 01.05.1978, Blaðsíða 36
BÓKAHILLAN
Elías Mar: Speglun.
Rvík 1977. Helgafell
Höfundur hefir lítið komið fram sem Ijóðskáld, en getið sér
hinsvegar góðan orðstír fyrir skáldsögur sínar úr Reykjavíkur-
lífinu, enda þótt fátt hafi sést frá honum hin síðari ár, og er það
miður, því að sögur hans voru skrifaðar af raunsæi og skilningi.
Þessi ljóðabók er ekki mikil fyrirferðar, einar 40 bls., en kvæðin í
henni ort á rúmlega 40 ára tímabili, svo að uppskeran er ekki
mikil að fyrirferð. En vart trúi ég öðru en hann eigi sitthvað í
pússi sínum, sem fengur væri í að fengi að sjá dagsins ljós eftir
þessu litla úrvali að dæma. En þetta litla ljóðaúrval er gert af
óskeikulli smekkvísi, sem sýnir ljóslega, að höf. er vandlátur við
sjálfan sig. Ljóðin eru öll hin haglegustu, og sýna að Elías á bæði
næg yrkisefni og kann með þau að fara. Hann nefnir ljóðin
Speglun, og við lestur þeirra sér maður fljótt, að nafnið er vel
valið. Þau eru speglanir af hugsunum hans og viðhorfum til hins
daglega lífs, skyndimyndir, fáorð, mærðarlaus og markvís.
Hann yrkir bæði rímað og rímlaust, en bregður sér einkum á leik
í ríminu og því oft dýru, þegar hann þarf að bregða sér á gam-
anleik. Og satt að segja finnst mér raun að því, að maður sem
slíkt vald hefir á máli og rími skuli ekki alltaf beita því tæki við
ljóðasmíðina. Þá mundu Speglanir hans festast betur í minni.
Ljóðin leita til fanga, þrátt fyrir rímleysið, og hver vill ekki taka
undir með honum
Mér er í mun að vita
hvort einnig þið
Hafið komist að raun um það
þrátt fyrir allt
hversu jörðin er fögur
hljómur tungunnar nýr
haustið jafnfagurt vori
líf og dauði í sátt
þegar maður elskar.
Andrew Gilchrist: Þorskastríð og hvernig á að tapa
þeim.
Rvík 1977 Almenna bókafélagið.
Dagar þorskastríðanna eru liðnir, og vonandi endurtekur saga
þeirra sig ekki. Sendiherra Breta hér á landi í fyrsta þorska-
stríðinu, Sir Andrew Gilchrist, segir hér frá minningum sínum
frá þessu stríði og aðdraganda þess. Hann var á sínum tíma
umdeildur maður hér á landi. og vafalaust voru þeir margir. sem
litu hann hornauga, enda hélt hann fast á málefnum þjóðar
sinnar, þótt hann gagnrýndi margar ráðstafanir hennar, og
kannske hefði hann getað komist að friðsamlegri niðurstöðu ef
hann hefði mátt ráða. Þessi bók hans er næsta fróðleg, en hann
hefir skrifað hana eftir að fullur friður var á kominn. og hægt er
að ræða málin frá hærri sjónarhóli. Vissulega höfum vér ís-
lendingar aldrei efast um réttan málstað vorn. en engu að síður
er fróðlegt fyrir okkur að heyra hvernig sanngjarn andstæðingur
lítur á málin að leikslokum. Og sannarlega megum vér vel við
una frásagnir hans. Hann ræðir málin af yfirsýn og sanngirni.
þótt hann vitanlega horfi frá breskum sjónarhóli. Ég efast ekki
um að lestur bókar Sir Andrews gefur okkur gleggri sýn yfir
hvað gerðist í raun og veru á þessum árum. Höfundur kynntist
mörgum framámönnum þjóðarinnar, og vann sér vináttu þeirra.
Lýsir hann þama mörgum mönnum hispurslaust og af hrein-
skilni og skrifar heilan kafla um Bjarna Benediktsson forsætis-
ráðherra, sem hann hafði miklar mætur á. Höfundur er mikill
veiðimaður, og segir heilmargar veiðisögur. og stíll hans er léttur
og oft gamansamur.
Islenskt Ijóðasafn IV bindi B. Tuttugasta öld 2.
Rvík 1978. Almenna bókafélagið.
Með þessu bindi lýkur hinu mikla úrvalssafni íslenskra ljóða,
sem Kristján Karlsson hefur valið að mestu, og Almenna bóka-
félagið gefið út. Er það langstærsta safn íslenskra ljóða, sem
gefið hefur verið út og jafnframt hið besta. Hefir Kristján þar
leyst þrekvirki af hendi, og þótt vafalaust megi eitthvað að því
finna eins og öðrum mannaverkum, þá hverfur það fyrir kost-
unum. Og sannast mála hygg ég engan núlifandi íslending hafa
getað leyst verkið af hendi eins vel og Kristján, nema ef til vill
Tómas Guðmundsson. Formálar Kristjáns eru hver öðrum betri
og opna nýja sýn á ýmsum þáttum íslenskrar ljóðagerðar fyrr og
síðar.
Um þetta síðara bindi er fátt að segja. Þar eru 35 skáld, sem öll
höfðu gefið út bækur fyrir 1960. Hin elstu fædd 1910. Þama eru
nokkur góðskálda vorra, en meiri hlutinn eru af hinum svo-
nefndu atómljóðaflokki, og þó að þar hittist góðar setningar
innan um, þá sýnir meiri hlutinn, hvílíka lægð ljóðagerð fs-
lendinga er komin í, og er þó sennilega meira ef svokölluð
ljóðagerð seinustu áratuganna væri með. Hinn ytri frágangur
safnsins er með ágætum, og það allt prýði íslenskrar bókaútgáfu
að efni og útliti, enda þótt nokkrir svartir blettir séu á tungu
síðasta bindisins.
Matthías Johannessen: Morgunn í maí
Rvík 1978 Almenna bókafélagið. Myndir Erró.
Matthías setur hér í ljóðaform minningar bernsku sinnar og
æsku í Reykjavík, og þá einkum frá styrjaldarárunum með öllu
því umróti, sem þeim fylgdí, og hann hefir í blaðaviðtali kallað
„fæðingarhríðir nýs tíma“. Til þess að leggja sem mesta áherslu
á upplausnina, sem varð, þegar hin fornu verðmæti hrundu í
rústir og ný viðhorf voru að skapast í deiglu eftirstríðsáranna,
hefir höf. valið sér sérkennilegt ljóðaform, einskonar blöndu af
hefðbundnu formi með hljóðstöfum og óreglulega settum rím-
orðum, en hinsvegar háttleysu nútímans, og fer víða vel á því, og
gefur það ljóðunum frumlegan blæ. Margt er áhugavert í þess-
um ljóðum Matthíasar, og er víst að margar þær myndir, en
ljóðin eru í sjálfu sér myndasafn, sem upp er brugðið verða
mönnum hugstæðar, og því lifi þessi ljóð lengur en margt það,
sem nú kallast ljóðaskáldskapur. En til þess að njóta þeirra þarf
að lesa bókina vel. Bókin er prýdd myndum hins fræga og mjög
umdeilda Errós, sem mörgum mun þykja bókarbót. St. Std.