Heima er bezt - 01.01.1980, Síða 31
varla í ár tekið og alls ekki á sjó. Bát-
urinn lá í ósnum og nú var að róa út úr
honum og síðan út að skipi og sömu
leið til baka. Mig minnir að ræðarar
væru fjórir. Mér gekk vel að róa í takt
við þá, og varð þess ekki var að á neitt
borð hallaði. En þetta var nú reynsla,
sem aldrei hefir verið endurtekin. Eitt
sinn er við vorum að róa yfir ána,
skýtur selur hausnum upp úr vatninu
rétt við bátinn. Þetta var eitthvert
fallegasta höfuð á dýri sem ég hefi séð
og augu eins og fegurstu hundsaugu.
Móti þessu höfði hefði ég ekki getað
lift morðtóli.
Auðheyrt var að kvennaskólinn
hafði ekki svo lítil áhrif á mannlífið í
þorpinu. Var grunnt að grafa eftir
vísu, sem ort hafði verið þegar kenn-
ari eða skólastjóri hætti þar og flutti
burt, enda stutt um liðið. Vísan var
svona:
Nú er sorg um Blönduós-borg,
bugast Hafsteinn lætur
Ólafur ráfar einn um torg,
Ásgeir sterki grætur.
Hafsteinn var verslunarmaður við
gömlu verslunina, Höepfner. Það sem
mér þótti merkilegast við hann, var að
hann var sláandi líkur Sigurjóni
skáldi Friðjónssyni. Þeir voru mjög
líkir á vöxt, hreyfingar sömuleiðis, og
báðir með alskegg sem var eins á lit og
andlitsfall áþekkt. Virtust mér þeir
það líkir, að ekki væri undarlegt þó
mönnum hefði orðið á að villast á
þeim. Hver Ólafur var er ég búinn að
gleyma, eða aldrei heyrt hver var. Ás-
geir sterki var sá sem ég hefi getið, og
virtist mér ekki líklegur að honum
væri gráts gjarnt. Líklega hefir vísna-
smiður viljað undirstrika hvað missir-
inn hefði verið mikill, að jafnvel Ás-
geir sterki hefði ekki mátt vatni halda
við brottför kennarans.
Mann hitti ég þarna á Blönduósi,
sem ekki var í vinnunni. Var hann um '
miðjan aldur. Hann átti fiðlu og þótti
gott hljóðfæri. Það var hægt að ná
bæði hálf- og heiltónum og þar að
auki fjórðapartstón, sem ekki var
hægt á önnur hljóðfæri. Ég man ekki
til að hann léki neitt fyrir mig á
fiðluna.
Þá var búsettur á Blönduósi
Hjálmar Lárusson, var hann dóttur-
sonur Bólu-Hjálmars og oddhagur vel
eins og afinn. Ég fór til hans og for-
vitnaðist um starf hans, ég man nú
ekki orðið hvað ég sá þá, en eitt var þó
fagurlega útskorin reglustika. Bað ég
hann um eina, smíðaði hann hana
fyrir mig, kostaði hún 5 krónur eða
tæplega tveggja daga kaup, mig
minnir að 10 tíma kaup væri þá 3
krónur. Mér fannst að Hjálmar væri
um meðalmaður á hæð, þrekvaxinn,
alskeggjaður, jarpur, eða ef til vill að-
eins rauðbirkinn. Hann var mjög
prúður og hægur í framkomu, og
þrúgaður af afkomubasli, eins og flest
alþýðufólk og ekki síst þurrabúðar-
fólk var á þeim tímum. Fáum árum
seinna andaðist Hjálmar, þá flutti
ekkjan norður í Aðaldal með börn sín,
og þar ólust þau upp. Dóttir hennar er
bóndakona í Aðaldal og sonur hennar
er búsettur á Húsavík en hin fluttu
burtu .
Ekki man ég hvernig híbýli Hjálm-
ars voru, finnst mér þó helst að það
hafi verið torfhús. Maður tók nú ekki
mikið eftir slíku á þeim tíma. Það var
svo sjálfsagt að tómthúsfólk byggi í
lélegum híbýlum og ekki mikill mun-
ur þar á.
Ég segi hér framar að ekki hafi
verið nema ein verslun á Blönduósi
fyrir utan Höepfners verslunina, en
þær munu hafa verið tvær. Verslun
Péturs og verslun Þorsteins Bjarna-
sonar. Og svo kaupfélagið norðan ár.
Nú var farið að líða á haustið og
allra veðra von, og aðeins búið að
steypa upp kjallarann, en ekki gólf
yfir hann, sem líklega hefir ekki átt að
steypa, því nú voru smíðaðar sperrur
og reist þak yfir kjallarann og öll op
byrgð svo allt væri varið fyrir snjó og
vatni.
Stóð það heima að þegar þessu var
lokið kom strandferðaskip, sem mig
minnir að væri Vestri á leið til Akur-
eyrar, þeir sem þangað ætluðu tóku
sér far með honum. Skipið fór ekki
fyrr en seint um kvöldið, en kvöldið
áður en farið var um borð var smá
kveðju hóf, sem ég helst held að sá er
stóð fyrir byggingunni hafi staðið fyrir.
Þegar um borð kom tóku menn á sig
náðir, og man ég ekki eftir neinum
viðkomustað, og engu úr þeirri ferð,
nema því að ég kom í setusal í skipinu.
Þá sátu þar nokkrir menn og spiluðu
peningaspil af kappi miklu, og ultu
þar ekki svo litlar upphæðir á þeirra
tíma mælikvarða. Þótti mér farið all-
óvarlega með fjármuni. En ég gleymi
aldrei fyrstu máltíðinni, sem ég fékk á
Akureyri, hún var nú reyndar ekkert
sérstök, nema eitt, það var hrís-
grjóna-mjólkurgrautur. Mér fór
þarna eins og sárþyrstum manni sem
fær svaladrykk, þó allar bestu kræs-
ingar heimsins hefðu verið bomar
þarna fram hefði ég ekki litið á þær,
fyrr en ég var búinn úr grautardiskn-
um, svo sár var þorstinn eftir sumar-
langt mjólkurhungur.
Á Akureyri beið íbúðarhússbygg-
ing húsameistarans sem stóð fyrir
byggingu Kvennaskólans. Ég tryggði
mér vinnu hjá honum við þetta hús,
og bjóst við vinnu eitthvað fram á
vetur. Ég átti fiðlu heima, lét ég senda
mér hana, og ætlaði að fá mér tilsögn í
fiðluspili, en það urðu aldrei nema
tveir tímar, því styttra varð í vinnunni
en ég hugði.
Þetta var timburhús á steyptum
kjallara í húsaröðinni norður frá
Schiöths bakaríi, stutt norðan við
bakaríið.
Þegar búið var að steypa kjallar-
ann, var mér sagt upp vinnunni og lá
þá ekkert annað fyrir en leggja land
undir fót, og halda heim.
Þá var ekki neina aðra vinnu að fá á
Akureyri. Ég lagði því pjönkur mínar
og fiðluna á bakið og rölti heim, lík-
lega síðari hluta október, gæti þó hafa
verið komið fram í nóvember.
Og hver var svo arður þessarar út-
gerðar? í handbæru fé hafði ég svo til
ekkert eins og þegar ég fór. Á ferðinni
hafði ég eytt 25 krónum í fatnað á
Blönduósi því ég hafði ekki fatnað til
vinnu með mér. 5 krónur fóru fyrir
reglustikuna frá Hjálmari og 2 krónur
fyrir tvo tíma í fiðluspili. Þar að auki
far með skipunum, sem ég man ekki
hvað var. Það gætu því verið um 40
krónur, sem ég hefi haft upp fyrir utan
fæði og húsaskjól. Líklega þætti það
lítið nú til dags fyrir 3ja mánaða
vinnu, og 10 stunda dagvinnu í 6 daga
vikunnar.
Lokið 9/12 1978 □
Heima er bezl 23