Heima er bezt


Heima er bezt - 01.01.1980, Qupperneq 35

Heima er bezt - 01.01.1980, Qupperneq 35
JÓNAS HALLGRÍMSSON Hátt yfir „Dranga“ hnýpir „ástarstjarna“, því húm og þoka byrgir fjallasal, og dapurt er um byggðir héraðsbarna og bert og snautt í skáldsins æskudal. Því minnumst nú á fegri tíma farna, er fossinn hló og brosti jurtaval; og gleðjum sál með gullinstrengjum ljóða og göfgum minning listaskáldsins góða! Vakna þú, hérað hans, sem er þinn sómi, og heyrðu ennþá skálds þín guðamál! Vaknaðu, Snæland! í hans hörpuhljómi sló hjarta þitt og bjó þín innsta sál. Fífill og sóley, sérhvert barr á blómi, hver björk og strá, hver kalin vetrarnál: Vakið og fjöri fyllið strengi ljóða um fagurmilda listaskáldið góða! Þá skein á hausti skær og blíður dagur, er skáldið góða fæddist vorri sveit. Á fjöil og dali færðist sumarbragur, um fjör og yndi dreymdi liljureit. Þá söng í lofti svanahópur fagur um sól og allt, er hjartað fegurst veit, því fæddan vissi fræga svaninn ljóða við fjörðinn eyja: listaskáldið góða. Hann fór um haust úr fátæklegum garði og föðurlaus, en hitti dýran sjóð, svo heim hann sneri aftur með þeim arði, sem öldum saman nærir heila þjóð. Því landsins Bragi varð hann fyr en varði. Þá vöktu fólkið stór og guðleg ljóð, er heilla alda söng oss sumargróða í sigurmóði frelsis-skáldið góða. Hugljúfa skáld! Hve töfrar oss þín tunga, með tignarmildan, engilfagran hreim! Hve fagurt dillar ljúflingsljóð þitt unga og landsins Hulduspil í strengjum þeim! Þú varpar frá odd víli, neyð og þunga og vekur hjá oss nýjan sólarheim. Hugljúfa skáld! í munarmildum tárum vér minnumst þín að liðnum hundrað árum. Hvað er svo blítt sem blóm á þess manns leiði, er blessar þannig sína fósturslóð og dáinn skín sem heilög sól í heiði og hæstum sóma krýnir land og þjóð? Og hvað er fast á fleygu tímans skeiði, ef fölna, skáld, þín guði vígðu ljóð? Hugljúfi vin! Að hundrað liðnum árum þig hyllir ísland mildum þakkartárum. Á Sjálands strönd þú sefur undir leiði. Ó, svanur íslands, hvíldu vært og rótt! Vor góði engill báðar hendur breiði um beðinn þinn og stytti helga nótt! En þegar síðast sólin rís í heiði, þá svíf þú fram með nýjan guðaþrótt! Og sérhvert vor þá sumar lýsir bárum, vér sendum blómstur, laugað vinartárum. Þótt séra Matthías hefði rétt fyrir sér um framtíðarvin- sældir ljóða Jónasar Hallgrímssonar, gat hann þó ekki órað fyrir því að þær færu út í þær öfgar að raska grafarró hans á Sjálandsströndum. En eins og kunnugt er voru bein Jónasar þrifin úr danskri mold á sínum tíma og sett niður á Þingvöllum. Var allt þetta brambolt mjög umdeilt og jaðraði við algert hneyksli. Og ekki meira um það. Fleiri ljóð birtast þá ekki að sinni. Gleði/egt nýjár. E. E. Nýtt ár er hafið . . . Framhald af bls. 2 enginn hvorki eygði, né vildi eygja vandann, sem fyrir hendi var, þá hlaut að fara sem fór. Og ef vér skyggnumst áfram um spjöld sögu vorrar, sést ljóslega, að ægilega mikill hluti sög- unnar er um deilur og togstreitu, að vísu ekki svo mjög um landsmál, heldur á milli einstaklinga um eigin hagsmuni þeirra, arfahluta, jarðar- skækla eða eitthvað þessháttar. Oft sýnist sem ekkert sameiginlegt sjón- armið hafi verið til, en hver reynt að toga sinn hagsmuna skækil. Og enn deilum vér, að vísu ekki um landamerki eða jarðaparta, heldur um það hve stóran hluta vér getum hrifsað til vor af sameiginlegri þjóð- arköku. Enn ráða þrýstihópar og sér- hagsmunasjónarmið hverja stefnu þjóðarskútan tekur, ef hún þá hefir nokkra stefnu. Enn ráða tortryggni og öfund miklu um viðhorf flokka og flokksforingja, og svo gengur það langt, að þótt í rauninni ekkert greindi á málefnalega, getur einn flokkurinn ekki unnað hinum þess að eiga frum- kvæði að nytjamáli, af ótta við að hann kynni að hljóta fleiri atkvæði við það. Og ekki mun dæmalaust að flokkar gangi til stjórnarsamstarfs með þeim hug einum að láta sam- starfið ríða hinum flokkunum að fullu. Hvarvetna sjáum vér öfund, valdstreitu, tortryggni og undirferli vaða uppi í stjórnmálaheiminum. Og þessi þokkalega fylking er það, sem ræður svo ferðinni, að útlit er fyrir þessa dagana, að vér getum ekki myndað stjórn, og erum þar sest á bekk með þeim ríkjum, sem minnstan hafa stjórnmálaþroskann. Og því síð- ur 'eygjum vér þá von, að flokkarnir sameinist um þau ráð og átök sem þarf til að binda verðbólgudrauginn svo rammlega, að hann fái ekki losnað á ný. En um leið er borin von um að þeir sömu aðilar fái sameinast um ráðstafanir til að skapa fegurra og betra þjóðlíf, sem oss ætti þó raunar að vera flestum léttara, sakir fámennis og skyldleika. Alls staðar rekum vér oss á sundurlyndis fjandann. Gætum vér ráðið niðurlögum hans væri um fátt að óttast. Einhuga þjóð sigrast á flestum örðugleikum. Látum oss vona að hið nýbyrjaða ár færi oss eitthvað í áttina til samhugs og samstarfs og óskum í krafti þess gleðilegs nýjárs. St. Std. Heima er bezl 27

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.