Heima er bezt - 01.09.1981, Blaðsíða 5
„Þegar litið er til baka og hugsað um það frjálsa lif, sem
við krakkarnir nutum á Króknum, sér maður hversu
skemmtilegt það hefur verið. Oft tók helmingur barna og
unglinga í bænum þátt í leikjunum samtímis og þeir stóðu
líka oft heila daga. Ég man ekki að unglingavandamálið
margumrædda hafi verið til i þá daga.
Við vorum auðvitað engir englar og gerðum ýmis
prakkarastrik. Það held ég hafi fyrst og fremst verið at-
hafnaþráin. En það, að alltaf þyrfti að vera að gera eitthvað
fyrir unglingana, það þekktist ekki. Einhvern veginn höfð-
um við lag á að hjálpa okkur sjálf, við stunduðum veiðar,
smíðuðum úr tunnustöfum og kassafjölum og renndum
okkur á skíðum.
Reyndar stóð ég að skíðaframleiðslu sjálfur í tvo vetur.
Þá kom ég mér upp smáverkstæði í líkhúsinu á Króknum
þar sem ég lengdi tunnustafi, fékk kassafjalir hjá pabba,
setti klossa á og leðurreim yfir og rétti svo skíðin út um
glugga á líkhúsinu. Áttatíu aura fékk ég fyrir parið.
Það var fremur sjaldan sem lík stóðu þarna uppi, en
þegar svo var hætti maður sér auðvitað ekki inn. Þrátt fyrir
óskaplega myrkfælni lét maður sig nú hafa þetta, svona var
athafnaþráin mikil. Sennilega hefur hún verið myrkfæln-
inni yfirsterkari.“
„Ekki má gleyma kassabílasmíðinni,“ segir Ottó, „hún
var einkennandi fyrir Krókinn, en þessir bílar voru fundnir
upp af okkur systkinunum og börnum Jóns Þ. Björnssonar,
kennara. Ég hóf fjöldaframleiðslu á þessum bílum og þró-
aði þá mikið, og stundum hef ég nú sagt í grini að ég hafi
verið fyrsti bílaframleiðandi á íslandi.
Þessir bílar voru orðnir talsverð flutningatæki og síðasti
bíllinn, sem ég smíðaði gat borið stóru síldarmjölsekkina,
sem voru, að því er ég best man, um 100 kíló. Ég smíðaði
þann bíl rétt fyrir stríð og þegar ég kom heim aftur eftir
stríðið, sex árum seinna, þá var hann enn í notkun.
Þessir kassabílar og Staðarvagninn voru einu flutninga-
tækin á Króknum í þá daga. Staðarvagninn var vagn á
símstöðinni, sem allir bæjarbúar gátu gengið að og notað.
Þessi vagn átti sér merkilega sögu, eins og reyndar sím-
stöðvarhúsið, þar sem Pétur Sighvats, stöðvarstjóri bjó.
Hann og synir hans eiga stóran þátt í sögu gamla Sauðár-
króks. Þau eru til dæmis ómæld tonnin af fiski, sem þeir
gáfu fátæku fólki á Króknum og hafa gefið allt fram á
þennan dag.“
— Var mikið félagslíf á Króknum?
„Já, það var mikið, en frá unglingsárum mínum þar er
mér ekki síst minnisstætt hve mikið var spilað. Ég man til
dæmis, hve oft var spilað hjá Sölva smið, enda fólkið þar
með eindæmum glaðvært og elskulegt. Ég held bara ekki
að ég hafi hitt glaðari fjölskyldu á minni lífstíð en Sölva-
fjölskylduna. Öll höfðu þau glimrandi söngrödd og sungu
mikið og vel. Litla húsið sem fjölskyldan bjó í var einnig
ævintýri líkast. Þegar ákveðið var að stækka það, var byggt
nýtt hús utan um gamla húsið og þótti okkur það þá orðið
mjög stórt og reisulegt. Þegar maður lítur þetta hús í dag þá
sér maður að það er enn lítið. Þannig stækkar margt í
minningunni.“
Ottó í tölvusal IBM að Skaftahlíð 24 í Reykjavík i sumar.
Heimaerbezt 277