Heima er bezt - 01.04.1990, Síða 34
— Ég sé að einhver hefur verið svo vænn að sækja
Skjóna fyrir mig. Takk fyrir það.
Hafliði ók sér í sætinu.
— Það var ekkert. Það var alltaf um það talað að ég
lánaði þér Skjóna næst er við riðum út. Þú skýtur hesti
undir Kristínu, er það ekki Sigurpáll?
Sigurpáll starði á Hafliða. Alltaf gat þessi maður komið
honum á óvart. Hann sem hafði haldið að Hafliði vildi
sjálfur lána Kristínu hest.
— Er það ekki?
Sigurpáll hrökk upp úr hugsunum sínum og roðnaði.
— Jú, jú, auðvitað.
Það var föngulegur hópur er reið úr hlaði á Stóra-Núpi
skömmu seinna. Sigurlaug átóð á tröppunum og horfði á
eftir þeim, uns þau hurfu sjónum. Hún var stolt af þessu
unga fólki. Vonandi yrði þessi dagur þeim til gleði. Henni
fannst einhvern veginn, að ef til vill yrði hann tímamóta-
dagur fyrir einhver þeirra. En kannski voru þetta einungis
órar gamallar konu.
Það var margt til skemmtunar á Engjunum þennan dag.
Unga fólkið keppti í íþróttum, hlaupum, stökkum og auð-
vitað var gliman, þjóðaríþróttin, í hávegum höfð. Karl-
mennirnir frá Stóra-Núpi tóku þátt í íþróttunum af lífi og
sál. Hafliði var, eins og ávallt, fremstur í flokki í hlaupum
og stökkum. Hann var svo kattliðugur að unun var á að
horfa. Sigurpáll og Friðgeir létu sér nægja glímuna, enda
voru þeir glímumenn góðir. Að lokum voru aðeins þeir
tveir eftir. Allir biðu spenntir; myndi vinnumaðurinn hafa
húsbóndann.
Hafliði gekk til stúlknanna, er sátu á grasbala í góða
veðrinu og fylgdust með. Hann settist milli Vilborgar og
Kristínar.
— Viljið þið veðja hver hefur það?
Vilborg hristi höfuðið, en Kristín hvíslaði:
— Friðgeir vinnur.
Hafliði hnyklaði brýrnar. Gat það verið að hún væri að
hugsa um Friðgeir, stúlkan sú? Hann gat varla trúað því.
Friðgeir stórbóndi og oddviti var sérstæður maður og of
stór biti fyrir venjulega stúlku.
Glíman varð hörð, og lengi vel mátti ekki á milli sjá hver
hefði það. Sigurpáll var þyngri maður, en löng þjálfun kom
Friðgeiri til góða. Að lokum var Friðgeir hlutskarpari.
Sigurpáll stóð upp þungur á svip og stikaði á brott. Mikil
fagnaðarlæti kváðu við. Oddvitinn varð glímukóngur einu
sinni enn. En Hafliða leist ekkert á blikuna. Hann þekkti
vin sinn það vel, að hann vissi að hann ætti erfitt með að
þola tapið. Nú var þungt í Sigurpáli og þá var hann viss
með að skvetta duglega í sig.
Hafliði gekk fram á Sigurpál, þar sem hann sat á þúfu,
þungur á brún, búinn að innbyrða stóran hlut úr vasapel-
anum sínum.
— Þú stóðst þig vel, vinur.
Það rumdi í Sigurpáli.
— Það geta ekki allir unnið, Sigurpáll minn. En þetta er
nú bara leikur. Vertu glaður og njóttu þess að vera til.
Veðrið er yndislegt og hér úir allt og grúir af gullfallegu
kvenfólki.
Sigurpáll var enn jafn brúnaþungur.
— Það er til lítils að líta á þetta kvenfólk. Það sér ekkert
nema þig.
Hafliði settist niður við hlið vinar síns.
— Hættu þessu voli, maður. Þér væri nær að gefa mér
með þér en sitja hér einn og hella í þig. Ég veit líka alveg
hvað þú ert að hugsa um. En þú hefur enga ástæðu til að
örvænta, ekki mín vegna. Ég hef hér augastað á einni stúlku
og önnur kemur ekki til greina.
Sigurpáll hnussaði en rétti fleyginn samt í átt ti! Hafliða.
— Þig langar kannski til að vita, hver það er?
Hafliði kímdi, en Sigurpáll sat enn með signar brýr.
— O, ætli ég viti það ekki.
— Það getur vel verið, en ég ætla að segja þér það samt.
Það er hún Vilborg okkar. Hún er mér kærust af öllu því,
sem dregur andann hér um slóðir.
Sigurpáll gapti af undrun, en svo færðist bros yfir and-
litið.
— Fáðu þér meira úr fleygnum vinur. Vilborg; ég held
þér sé ekki of gott.
Hafliði kímdi, kvöldinu var borgið.
Það var hinn víðfrægi gamli Gústi, er sá um að halda
fjörinu uppi. Hann var gamall maður, en úr hverjum and-
litsdrætti skein kátína og hann var ódrepandi á nikkuna.
Hann gat staðið upp á endann tímunum saman og spilað,
án þess að hvílast. Einstaka sinnum kom einhver góð-
hjörtuð kona með kaffisopa handa Gústa. Þá ljómaði hann
enn meir, skellti í sig kaffinu og hélt svo ótrauður sínu
striki.
Það var mikið dansað og glatt á hjalla. Eldsnöggar
augnagotur flugu milli unga fólksins. Ástarævintýri voru í
uppsiglingu og einhvers staðar beið Amor karlinn í laumi
með bogann spenntan. Vinnumennirnir á Stóra-Núpi
dönsuðu við vinnukonurnar til skiptis. Pils sveifluðust og
roði kom í vanga. Tíminn leið. Sumir góðbændur urðu
drukknir, settust afsíðis og röfluðu sín á milli um skepnu-
höld og veðurfar. Eldri konurnar héldu sig mest í kaffi-
tjaldinu. Það var svo margt að spjalla og svo langt milli þess
er þær hittust. Bændur þeirra voru heldur ekki svo duglegir
við að stíga dansinn. Þeir vildu láta unga fólkið um það.
Það var langt liðið á kvöld er Gústi tók sér örstutt hlé.
Hann þurfti að komast afsíðis og skila kaffinu, er góð-
hjörtuðu konurnar höfðu fært honum.
Hafliði dró Sigurpál með sér út í horn.
Heyrðu vinur, við Vilborg ætlum að fá okkur göngutúr.
Þú þarft ekkert að undrast þó við hverfum af staðnum. Við
sjáumst þá bara í fyrramálið.
Hafliði hnippti í Sigurpál.
— Þú ert viss um að allt verði í lagi?
Sigurpáll brosti út undir bæði eyru. Hann var orðinn
dálítið drukkinn og hafði vaxið kjarkur eftir því. Jú, honum
var sko sama þó Hafliði færi á braut með kærustunni. Það
var bara betra.
Hljóðlega læddust turtildúfurnar á braut. Vilborg var
rjóð í kinnum og eitthvað nýtt blik sást í augunum. Eftir-
vænting.
Gústi greip nikkuna að nýju og spilaði fjörugan skottís.
142 Heimaerbezt