Heima er bezt


Heima er bezt - 01.01.1997, Blaðsíða 27

Heima er bezt - 01.01.1997, Blaðsíða 27
kvörn hafi verið í bæjardyrunum á Kvíabekk, þar sem Sölvi segist hafa skilið eftir brókina, og hann segist ekki hafa skoðað föggur Sölva. Sölvi svarar því til að í bæjardyrunum hafi verið stokkur með torftunka eða ein- hverju þess háttar hrófi undir, sem hafi líkst kvarnarstokk. I annan stað segist hann þrisvar hafa kallað til prestsins og beðið hann að líta í föggur sínar. Hafi hann orðið við hinu þriðja kalli sínu og skoðað í þær og hafi 2 vottar verið að þessu. Greindi Sölvi þá með nafni. Það er sýnilega engu tauti komið við Sölva. Það verður að slíta dómþingi við svo búið og leita nýrra gagna. Næst er málið tekið fyrir á Kvíabekk, prests- setri séra Daníels Jónssonar. Á þessu aukaþingi var nú lögð fram sjálf Árnapostilla, sem séra Daníel taldi Sölva hafa stolið frá sér. Það hafði orðið að sækja hana norður í Strandasýslu til Fögrubrekku, þar sem Sölvi hafði selt hana fyrir 3 rík- isdali og kannaðist hann við það að sú væri hin sama bókin. Séra Daníel var nú látinn lýsa postillu sinni, og kvað hann grápappír límdan innan á spjöldin. Hann minnti að saurblöð væru í bókinni, og enn minnti hann að nafn hans væri skrifað annað hvort á saurblað eða innan á spjaldið. Presti var sýnd postillan og sagði hann að hún svaraði aö öllu leyti til lýsingar sinnar á henni, en eitt skorti þó tilfinnanlega: Nafn hans væri hvergi að finna á bókinni né nokkur merki þess að það hefði verið skafið út. Hins vegar hafði Sölvi letrað nafn sitt á hana smárri og blæfagurri rit- hendi. Séra Daníel kvaðst samt ekki geta séð annað en þetta væri sín bók, þó treysti hann sér ekki til að sverja sér hana. Prestsfrúin á Kvíabekk, Ólöf Tóm- asdóttir, var nú tekin til yfirheyrslu, og kvaðst hún ekki skynja betur en að Árnapostilla sú, er lægi fyrir rétt- inum, væri bók manns síns, en ekki treysti hún sér samt til að vinna eið að því. Frúin reyndi ennfremur að styðja grun manns síns um bóka- þjófnað Sölva. Hún segir frá því að sumarið 1847, er Sölvi var á Kvía- bekk, hafi hún litið í fataböggul er hann átti, og fundið í honum 2 bækur er hún hafði léð honum og aðrar tvær bækur, er maður hennar átti, skrifað- ar ræður í í fastri kápu og aðra bók, er hún man ekki hver var. Henni fannst þetta svo ískyggilegt að hún hafi heimtað bækur sínar af Sölva og hann skilað þeim. Prestur neitaði því hins vegar að hann hefði lánað Sölva nokkrar bækur. Loks bætti prests- konan við framburð sinn, að vinnu- konan sín þáverandi, Soffía Guð- mundsdóttir, hefði sagt sér að Sölvi hefði látið fyrrnefndan böggul, er hann hafði í rúmi sínu, út um glugga á baðstofunni og borið hann síðan eitthvað út fyrir, skömmu áður en hann fór frá Kviabekk. Sölvi Helgason krafðist þess nú að bókað væri, að hann hefði flett sund- ur föggum sínum og sýnt, áður en hann fór. Nú var rétturinn fluttur að Grund- arhóli í Héðinsfirði til að yfirheyra Soffíu Guðmundsdóttur og komast að því, hvort hún staðfesti framburð prestskonu. Hún bar það að hún hefði heyrt ófermdan dreng til heim- ilis á Kvíabekk, segja sumarið 1847, að hann hefði séð Sölva láta ein- hvern böggul út um glugga á bað- stofuhúsinu, sem hann svaf í, en ekki minntist hún að hafa sagt að Sölvi hefði borið þennan böggul út fyrir tún eða heyrt menn segja það, og ekki vissi hún hvað í bögglinum var. Loks kvaðst hún aldrei hafa orðið vör við neinn ófrómleika hjá Sölva Helgasyni. Þetta voru fremur fákæklegar nið- urstöður af hinum mörgu réttarhöld- um og bréfaskriftum, sem fram höfðu farið í málinu. Eggert Briem var orðinn þreyttur á þessu smáskít- lega málavafstri klerksins á Kvía- bekk, og honum var helst í hug að láta frekari rannsókn niður falla og vísa málinu frá. Hann sendi amt- manni á Möðruvöllum útskrift af réttarprófunum og lét á sér skilja, að hann teldi nú nóg komið af slíku. En amtmaður var ekki aldeilis á því. Hinn 24. október 1850, skrifar hann Bjarna sýslumanni bréf og er þykkjuþungur. Segir hann að það sé „sorglegur vottur þess, hversu kraft- lítil lögreglustjórn vor er farin að verða, að hinum illræmda Sölva Helgasyni skuli meira en í þrjú ár hafa haldist það uppi átölulaust að flakka um landið án þess að eiga nokkurt víst heimili. En þar eð þó ennþá lausamennska og flakk er bannað í lögum vorum og hegning liggur við slíku, verð ég að beiðast þess að þér einnig nákvæmlega, snú- ið rannsókninni að téðu atriði og gjörið það að álitum á sínum tíma.„ Fram að þessu hafði Briem sýslu- maður hagað rannsókn sinni sem þjófamáli, en eftir bréf amtmanns varð hann að víkja því einnig inn á þá braut, hvort Sölvi hefði gerst brot- legur við konunglega tilskipun um lausamennsku, sem getið var í upp- hafi. Þegar Sölva var stefnt fyrir aukaþing á Espihóli, 8. desember 1850, er hann því krafinn sagna um dvalarvist sína, síðan hann losnaði undan lögreglutilsjón í árslok 1846. Hann kvaðst hafa verið um stund tal- inn til heimilis hjá Birni hreppstjóra Þórðarsyni, uns hann vildi ekki veita honum viðtöku vegna þess að honum þótti Sölvi hafa komið lítið til vinnu hjá sér. Hafi hann þá orðið að uppi- halda sér á ýmsum stöðum í Skaga- firði og Húnaþingi og víða boðið mönnum vist sína, raunar upp á þá kosti að hann ynni að slætti á sumrin, en fengi að vera við bækur sínar hinn tíma ársins. En skagfirskum búhöld- um þótti lítill akkur í svo vinnulitlu og bókhneigðu hjúi. Hann fékk því hvergi vist. En ef hann var ekki vist- ráðinn, hvað var herra Helgi Sölva- son þá? Lausamaður, flakkari, brot- legur við allra hæsta konunglega til- skipun 19. febrúar 1783. Þetta voru auðvitað niðurstöður hins rökfasta yfirvalds Eyjafjarðarsýslu. Framhald í næsta blaði. Heima er bezt 23

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.