Blanda - 01.01.1944, Page 113
109
in hafa verið 19 alls. Um hina fjóra, sem enn eru
ótaldir, þá Bjarna Pétursson, Bjarna Jónsson, Finn-
boga Þórðarson og Davíð Ólafsson, get eg ekkert sagt
nema það, að Finnbogi var sonur Þórðar bónda í Haga
Jónssonar signors — Tignor Jóns. Svo nefndu spaug-
samir menn hann.’ Hann var blestur í máli og nefndi
sjálfan sig „Tignor Jón í Haga“. Finnbogi átti þrjá
bræður. Þeir hétu: Kristján, Jón og Ebeneser. Jón
fluttist að Skarði á Skarðsströnd og var þar nefndur
Jón Hagalín vegna þess, að hann var frá Haga. Hann
var einn þeirra, sem fórust vorið 1876 ásamt Ebeneser
Kristjánssyni kammerráðs á Skarði. Þeir voru á leið
frá Rauðseyjum upp að Skai'ði. Kristján og Ebeneser
kvæntust báðir og áttu börn, og er allmannmörg ætt
frá þeim komin. Kristján var tápmikill, skemmtilegur
og fyndinn. Hann var líka talinn snilldar sjómaður.
Sumir hafa getið þess til, að Kristján þessi hafi verið
fyrirmynd Jóns skálds Thoroddsens að Finni Bjarna-
syni í skáldsögunni „Manni og konu“. Finnbogi, fjórði
bróðirinn, mun hafa verið vinnumaður í Flatey, er
hann lézt, sennilega hjá Jóhanni bónda Eyjólfssyni og
konu hans, Salbjörgu Þorgeirsdóttur. Honum hefir
verið þannig lýst, að hann hafi verið tápmaður og
ötull til verka og að dagfari alllíkur Kristjáni, bróður
sínum, og dáða drengur.
Um þá fimm menn, sem bréfið getur um, að farizt
hafi frá Móabúð, er mér ókunnugt. Síra Pétur getur
þeirra ekki heldur í Annál sínum. En eg tel víst, að
bréfið greini þar rétt frá. Móabúð var í svo nefndu
Eyrarplássi í Eyrarsveit. Mun hún hafa verið þurrabúð
°g nú vera í eyði. Eyrarsveit dregur nafn af Hallbjarn-
ai'eyri.
Samkvæmt framan greindu hafa 21 maður drukkn-
að á Breiðafirði 1861.
Pétur Jónsson
frá Stökkum.