Blanda - 01.01.1944, Page 155
Þorlákur er fósturbarn á Kirkjuferju í ölf-
usi árið 1729, 9 ára gamall. Heimilisfólk þar er
þetta: Hjónin Jón Sveinsson og Guðrún Há-
konardóttir og börn þeirra þrjú, þá Valgerður
Sveinsdóttir vinnuhjú (systir bónda) og Mar-
grét Helgadóttir vinnuhjú (bróðurdóttir bónda),
þá Þorlákur Guðmundsson fósturbarn og loks
gömlu hjónin: Sveinn Indriðason, faðir bónda,
fyrrum bóndi á Kotströnd, og síðasta kona hans,
Geirlaug Hinriksdóttir. Allt heimilisfólkið, sem
vitað er um, er því afkomendur og vandamenn
Sveins gamla Indriðasonar.
Árið 1703 býr Sveinn á Kotströnd með mið-
konu sinni, Þórdísi Guðmundsdóttur. Meðal
barna þeirra er Guðmundur f. 1698, sem ekki
er frekara kunnugt, hvað orðið hefir um. Þessi
Gudmundur, hygg eg, að vera muni faðir Þor-
láks á Hjalla. Guðmundur hefir dáið fyrir 1729,
ef til vill ókvæntur eða þá eftir stutt hjónaband
og átt Þorlák einan barna.
Það styður einkum þessa ættfærslu, að það
virðist varla efamál, að Þorlákur sé hjá skyld-
fólki sínu á Kirkjuferju 1729. Elzta dóttir hans
hét Geirlaug, önnur hét Guðrún og sonarsonur
hans Hákon. Benda þessi nöfn öll á venzl Þor-
láks við heimilisfólkið á Kirkjuferju, enda þótt
nöfnin geti sum verið annan veg til komin.
Frá Þorláki á Hjalla er margt manna komið.
Þessi voru börn hans, sem komust upp: 1) Sæ-
finnur á Hjalla, átti Helgu Erlendsdóttur á
Þóroddsstöðum, Ásbjörnssonar. 2) Geirlaug,
fyrri kona Jóns í Bakkárholtsparti Jónssonar í
Gerðakoti, síðar á Þórustöðum, Magnússonar.
3) Ingvéldur, kona Jóns á Þorgrímsstöðum Sig-
urðssonar í Arnarbæli í Grímsnesi, Jónssonar.