Blanda - 01.01.1944, Page 193
189
venja. Fór hann að kvöldi 13. apríl. Furðaði
skipverja hans og heimafólk, hversu tómlátlega
hann bjóst. Var sagt, að hann hefði gleymt
ýmsu, sem með þurfti á sjóinn, og þurft að
fara margar ferðir heim til að sækja það. Var
slíkt Jóni ótamt. Og eftir að hann var farinn,
kom það í ljós, að hann hafði gleymt byssu
sinni, sem hann ávallt var vanur að hafa með
sér á sjóinn, hvort sem hann fór lengra eða
skemur. í þess stað segja sumar sagnir, að hann
hafi í þetta sinn tekið með sér smíðaöxi sína og
nokkuð af smíðatólum sínum, en því var hann
heldur ekki vanur.
Að áliðnum degi þann 14. apríl tók að hvessa
af vestri, og brátt gerði rok, er á daginn leið.
Jafnframt gekk veðrið meira til norðvesturs,
og fylgdi því hríð. Skipin af Lónkotsmöl og
Höfðaskipið lágu í austurbrún Skagafjarðar-
álsins. alllangt norður af Málmey. Tjarna- og
Róðhólsskipin höfðu þegar fengið góðan afla,
og leystu þau strax, er tók að hvessa, og var
vindstaða svo þver, að þeim tók upp á Lónkots-
möl, og farnaðist þeim vel. Kristinn á Tjörn-
um sigldi hjá Höfðaskipinu, og lá það þá við
stjóra norður af Djúphausnum, sem er mið all-
langt norður af Málmey, en það lá áfram, enda
hafði það þá legið miklu skemur en Tjarna-
skipið.
Strax og hvessa tók, rak ísinn innan af Skaga-
firðinum út, og ísinn frá Skaganum rak aust-
ur á bóginn, og þegar Kristinn var sloppinn inn
á Málmeyjarsund, virtist honum að sjá þaðan,
að samfelld ísbreiða lægi þá þegar fyrir mynni
sundsins og lokaði því, og óttaðist hann þegar
mjög um Höfðaskipið.