Ægir

Árgangur

Ægir - 15.12.1975, Blaðsíða 11

Ægir - 15.12.1975, Blaðsíða 11
Ástæðan var fyrst og fremst aðsteðjandi verkefnaskortur þess hluta fiskiskipastólsins, sem undanfarin ár hefur stundað síldveiðar í Norðursjó. Önnur ástæða var byggð á nauð- syn þess að dreifa sókn bátaflotans og reyna þannig að finna honum verkefni við aðrar veiðar en þorskveiðar. Byggt var á niðurstöðum fiskifræðinga um stærð og veiðiþol loðnustofnsins, auk þess sem vitað var, að sumarloðna er í eðlilegu árferði feitari en vetrarloðna. Því miður mistókst tilraun þessi að veru- legu leyti. Kom þar m.a. til, að ís lá lengi sumars á venjulegum veiðislóðum, sjávarkuldi var því mikill og átuskilyrði slæm. Loðnan, sem fannst og veiddist var að mestu leyti mögur einsársloðna. Við höfðum hins vegar bundið vonir okkar við veiði 2ja—3ja ára loðnu. Af þessum sökum og öðrum gátu þeir tveir framtakssömu útgerðarmenn, sem réðust í að gera þessa tilraun, einungis at- hafnað sig í stuttan tíma. Að mínu mati þarf að standa betur að þessum málum á næsta ári. Að öðru óbreyttu á að vera hægt að veiða nokkur hundruð þús. lestir af loðnu yfir sum- ar og haustmánuði næstu ára, án þess að ganga nærri stofninum. Þetta þýðir ekki að- eins veiþegið verkefni fyrir bátaflotann og bræðslur á Norðurlandi, heldur gætu slíkar veiðar og dregið úr sókninni í þorskstofninn. Annað atriði, sem vert er að gefa gaum í þessu tilliti, eru veiðar á kolmunna. Rann- sóknastofnun fiskiðnaðarins vinnur nú m. a. að athugunum á ýmsum verkunaraðferðum á kolmunna til manneldis. Er æskilegt að stofn- uninni verði gert kleift að flýta þessum rann- sóknum. Fulltrúar félagsins i stjórn og ráðgjafa- nefndum rannsóknastofnana sjávarútvegsins hafa jafnan komið á framfæri samþykktum Fiskiþings og stjórnar félagsins um fiskileit og aðrar rannsóknir, og beitt sér fyrir fram- kvæmd þeirra. Þó að störf Fiskifélagsins fyrir opinberar stofnanir, ráðuneyti og samtök sjávarútvegs- ins, hafi verið svipaðs eðlis og á næstliðnu starfsári, hafa þau þó vaxið verulega, eins og fyrr segir. Virðist fara nokkuð saman auk- inn fjöldi starfsmanna opinberra stofnana og ráðuneyta og kröfur um skýrslur og önnur gögn. Vafasamt er, að margar þessar kröfur um aukið skýrsluhald og upplýsingar hafi mikið gildi til lausnar aðsteðjandi vanda. Þá má nefna störf Fiskifélagsins fyrir sendinefnd Islands á Hafréttarráðstefnu S. Þ., svo og fyrir alþjóðlegar stofnanir, svo sem Norðaustur-Atlantshafsnefndina, Alþjóðahaf- rannsóknaráðið, FAO, OECD o. fl. Fiskveiðilögsagan. Fiskveiðilandhelgi íslands var færð út í 200 mílur hinn 15. okt. s.l., nema gagnvart þjóð- um, er samið höfðu um fiskveiðiréttindi inn- an 50 mílna markanna á sínum tíma. Samn- ingar við þær þjóðir runnu út hinn 13. nóvem- ber s.l. Allmargar þjóðir hafa farið fram á samn- inga um framlengingu fyrri réttinda eða nýja samninga um fiskveiðar innan hinna nýju fiskveiðimarka í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj órnarinnar, er útfærslan í 200 mílur var tilkynnt, að hún væri reiðubúin að ræða við þær þjóðir, er teldu sig hafa hagsmuna að gæta, um takmörkuð réttindi á gagnkvæmnis- grundvelli. Ef tillit er tekið til álits Hafrannsókna- stofnunarinnar og nýútkominnar skýrslu Rannsóknaráðs ríkisins um „Þróun sjávarút- vegs“, kemur í ljós, að ástand þorsk- og ýsu- stofnanna er svo alvarlegt, að minnka þarf að mun sóknina í þessa tvo stofna, þar sem á hinn bóginn aðrir þýðingarmiklir stofnar svo sem ufsi og karfi eru fullnýttir. íslendingar veiða innan við helming samanlagðs afla þess- ara tveggja stofna. Á s.l. ári öfluðu íslending- ar um 64% þess þorsks, sem veiddist á ís- landsmiðum og rúmlega 80% heildarýsuafl- ans. Ég mun ekki ræða þessi mál ítarlega nú, þar sem báðar þessar álitsgerðir verða lagðar fyrir þingið. Þó vil ég segja, að ýmsar niður- stöður þeirra verður að ræða með ýmsum fyrirvörum, þar sem sumar orka tvímælis vegna skorts á gögnum eða þekkingu. Aðrar eru byggðar á forsendum, sem eðli sínu sam- kvæmt eru breytilegar. Gefst væntanlega tækifæri til að fara nánar inn á þessi atriði í umræðu. Hvað sem þessu líður, getum við ekki litið framhjá þeim niðurstöðum, sem fyrir liggja um ástand hrygningarstofnsins sérstaklega, né um afkastagetu íslenzka fiskiskipastólsins. ÆGIR — 393

x

Ægir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ægir
https://timarit.is/publication/584

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.