Heilbrigðismál - 01.03.1996, Qupperneq 12
Er varasamt að vera í ljósum?
Fræðsluefni frá Geislavömum ríkisins
Útfjólublá geislun
Sólin veitir okkur birtu og yl. í sólarljósi er útfjólublá
geislun (UV-geislun, Ultra Violet Radiation) en bylgju-
lengd hennar er utan þess sviðs sem mannsaugað
greinir. Útfjólublá geislun myndar litarefni í húðinni og
við verðum „brún". Geislunin er tvenns konar, annars
vegar útfjólublá geislun með stuttri bylgjulengd, B-
geislun (ÚV-B), sem er orkumikil og hefur mest áhrif á
húðina, og hins vegar útfjólublá geislun með langri
bylgjulengd, A-geislun (UV-A). Styrkur B-geislunar-
innar er mjög háður sólarhæð, sem ræðst af hnattstöðu,
tíma dags og árstíð.
Útfjólublá B-geislun eykur framleiðslu á litarefni
(melaníni) í húðinni og yfirhúðin þykknar. A-geislunin
leysir síðan litarefnið úr litarfrumum húðarinnar þann-
ig að það verður sýnilegra. Þessi viðbrögð húðarinnar
eru eölileg vörn gegn sólarljósi. Við óhófleg sólböð, eða
ljósböð sem stunduð eru á sólbaðsstofum, getur B-
geislun valdið brunasárum. A-geislun getur einnig
valdið bruna í húð en til þess þarf mun meiri geislun
eða lengri geislunartíma. Báðar tegundir geislunar geta
skaðað húðfrumur og aukið hættu á varanlegum húð-
skemmdum og húðsjúkdómum.
Varnir gegn geislun
I lögum um geislavarnir frá 1985 segir: „Lög-
um þessum er ætlað að tryggja nauðsynlegar ör-
yggisráðstafanir gegn jónandi geislun frá geisla-
virkum efnum og geislatækjum í því skyni að
koma í veg fyrir skaðleg áhrif slíkrar geislunar.
Með markvissum aðgerðum skal vinna að
þessu, m.a. með nauðsynlegu eftirliti með inn-
flutningi og allri meðferð geislavirkra efna og
geislatækja, svo og með athugunum og rann-
sóknum á sviði geislavarna."
Geislavarnir ríkisins eru sjálfstæð stofnun
undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamála-
ráðherra. Umfangsmesti þátturinn í starfsemi
hennar er „eftirlit og leyfisveitingar vegna inn-
flutnings og notkunar röntgentækja, geisla-
virkra efna og annarra geislatækja," eins og seg-
ir á vefsfsíðum stofnunarinnar á Internetinu
(http://www.geirik.is). Auk þess hefur hún eft-
irlit með geislaálagi á starfsmenn sem vinna við
jónandi geislun, annast vöktun vegna geisla-
virkra efna í matvælum og umhverfi og veitir
fræðslu, m.a. um ójónandi geislun, svo sem
vegna sólarlampa, örbylgjuofna og farsíma.
-r-
Geislun í ljósabekkjum
Perur í ljósabekkjum gefa aðallega frá sér útfjólubláa
A-geislun en einnig lítils háttar B-geislun. Þó eru til
ljósabekkir sem gefa jafn mikla B-geislun og sólin í
Mið-Evrópulöndunum, eða mun meira en sumarsólin
hér á landi. Útfjólublá A-geislun frá perum í ljósabekkj-
um er oft þrisvar til fjórum sinnum meiri en í sumar-
sólinni hér á landi. í nokkrum gerðum ljósabekkja get-
ur útfjólublá geislun í heild verið álíka mikil og í sólar-
ljósi hitabeltislandanna.
Léleg vernd gegn sólbruna
Brúnn húðlitur sem fenginn er með ljósböðum í
ljósabekkjum er ekki eins og venjuleg „sólbrúnka"
(vegna þess að A-geislunin er hlutfallslega mikil) og
veitir því ekki eðlilega vörn gegn sólarljósi. Því er ráð-
lagt að skýla sér fyrir sólskini þótt húðin sé dökk eftir
ljósböð. Ljósböð valda ekki þykknun á hornlagi húðar-
innar eins og sólböð gera. Þykknunin er einmitt ein
vörn húðarinnar gegn miklu sólskini og seinkar sól-
bruna. Ef húðin er brún eftir ljósböð verða menn síður
varir við byrjunareinkenni sólbruna, til dæmis í löngu
sólbaði á sólarströnd. Lítil vörn er því fólgin í „grunn-
brúnku" sem fengin er í ljósabekk áður en farið er til
sólarlanda. Best er að venja húðina smátt og smátt við
sólarljósið með því að vera úti í byrjun sumars.
Húðin eldist fyrr
Ljósabekkir gefa frá sér meiri útfjólubláa A-geislun
en sólin. Þessi geislun smýgur langt undir yfirborð
húðarinnar. Ohófleg ljósböð og sólböð valda sliti á
húðinni, teygjanleiki hennar minnkar og hún verður
hrukkóttari en ella. Ekki eru til nein smyrsl sem græða
slíkan húðskaða að fullu en þó eru til lyf í kremformi
sem geta minnkað húðslitið. Rakakrem dugir sjaldnast
til að bæta úr þornun í dýpri lögum húðarinnar.
Ljósabekkir eru ekki hættulausir
Hættan við notkun ljósabekkja er sennilega sú sama
og af sólarljósi. Nokkuð algengt er að sólarofnæmi
komi fram við ljósböð. Rannsóknir benda til þess að út-
fjólublá A-geislun eigi þátt í myndun húðkrabbameins,
en tíðni þess hefur aukist mikið síðustu ár, bæði hér á
landi og erlendis, og er það rakið til aukinna sólbaða
og ekki síður aukinnar notkunar ljósabekkja. Ár hvert
eru greind hér á landi meira en fjörutíu ný tilfelli af
krabbameini í húð.
Á flestum ljósabekkjum er tímarofi sem slekkur ljós-
in áður en hætta skapast á bruna. Ef rofanum er breytt
þannig að baðtími lengist eða ljósböð eru endurtekin
með of stuttu millibili er hætta á sólbruna þó til staðar.
12 HEILBRIGÐISMÁL 1/1996