Fréttablaðið - 11.06.2011, Page 24

Fréttablaðið - 11.06.2011, Page 24
11. júní 2011 LAUGARDAGUR24 S teingrímur J. Sigfússon tók við starfi fjármálaráðherra þegar ríkis- stjórn Geirs H. Haarde hrökklaðist frá völdum í kjölfar búsáhaldabylt- ingarinnar. Óhætt er að segja að verkefnið hafi verið ærið – endur- reisn íslensks fjármálakerfis. Steingrímur segir heilmargt hafa áunnist á þessum tíma og staða Íslands á alþjóðavísu sé gjörbreytt. „Það er ótrúlegur munur að koma á erlenda grundu og hitta kollega sína eða ræða við blaðamenn. Á fyrstu mánuðum mínum í embætti var ætíð spurt. Fer Ísland á hausinn? Nú spyr enginn að því. Menn ræða um hvernig batinn gangi og hvernig við höfum komist þangað sem við erum komin.“ Starfshættir hafa batnað Alþingi er enn að störfum og ekki hefur náðst samkomulag um hvernig málum þar skuli háttað. Eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar var að bæta starfshætti á þingi og koma í veg fyrir það ástand sem oft myndast við þinglok, að fjöldi mála hrúgist inn á þing og fundað sé fram á nótt. Má ekki líta á ástandið nú sem dæmi um að það markmið hafi mistekist? „Nei, þetta hefur nú lagast og það er algjör- lega á hreinu að mál frá ríkisstjórninni náðu að langstærstum hluta inn fyrir 1. apríl. Það eru helst þrjár undantekningar á því. Eitt mál, sem allir skilja, tengist kjarasamningum, þá komu fiskveiðistjórnunarmálin inn nokkrum vikum eftir frestinn og síðan komu mál frá efnahags- og viðskiptaráðherra sem tengjast framkvæmd gjaldeyrishafta. Eðli málsins samkvæmt gátu þau ekki komið fram fyrr en sú áætlun var samþykkt, þannig að það eru skýringar á því. Auðvitað hefði verið betra að fiskveiði- stjórnunarmálin hefðu komið fyrr fram, en þau sjónarmið voru uppi um að þessi tvö mál fylgdust að. Það eina sem nú er til afgreiðslu er lítið frumvarp um bráðabirgðaaðgerðir, sem eru í sjálfu sér ekki stórvægilegar, vegna þessa fiskveiðiárs og þess næsta. Ég tel að menn geri mikið úr því að menn þurfi mikinn tíma til afgreiðslu þessa máls. Búið er að ná samkomulagi um hvernig meðferð stóra málsins verður háttað fram á haustið þannig að við höfum lagt okkar af mörkum til að hægt sé að semja um þinglok.“ Steingrímur hafnar því að ríkisstjórnin sé að hörfa í kvótamálinu og segir að ljóst sé að af tæknilegum ástæðum hefðu fyrirætlaðar kerfisbreytingar ekki komið til framkvæmda á næsta fiskveiðiári. Hann segir aðallega ágreining um ýmis útfærsluatriði varðandi upphæð veiðigjalds, tímalengd og endurnýj- unarákvæði samninga svo og hlutfall milli samninga og potta. Brýnt sé að ná sátt um málin og vilji standi til þess víða. „Þetta er stór áskorun fyrir alla og ekki síður sjávarútveginn því það er ómögulegt að búa við þetta ástand endalaust, þessar miklu deilur og illindi. Það er mikill skilningur á því hjá mörgum í sjávarútveginum og ég finn það hjá þeim sem ég ræði við að það er mikill vilji til að reyna að ná landi í þessum málum. Í því skyni er mikilvægt að umræðan sé á uppbyggilegum og málefnalegum nótum og menn talist við með rökum. Náist það er ég bjartsýnn á að lending náist. Ef menn hins vegar hörfa ofan í gömlu skotgrafirnar, gjör- samlega hvort á sínum enda, verður þetta erf- iðara.“ Dapurleg umræða Landsdómur hefur verið kallaður saman í fyrsta sinn í sögunni og sakborningurinn er Geir H. Haarde. Hann hefur látið þung orð falla um forsendur ákærunnar og sakað Stein- grím, Ögmund Jónasson og Atla Gíslason um pólitískar ofsóknir. Hvað vill Steingrímur segja um það? „Ég vil helst ekki ræða málin á þessum for- sendum, mér finnst það of dapurlegt. Það er ágæt regla að menn tjái sig ekki of mikið um mál sem eru á leiðinni fyrir dómstóla, þau eru komin í ákveðinn farveg.“ Steingrímur minnir á að góð samstaða hafi náðst um skipun rannsóknarnefndar Alþing- is og hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að tólf manns hefðu gerst sekir um vanrækslu eða brot í starfi. Í lögunum um nefndina hafi verið komið inn á ábyrgð stjórnmálamanna og vitnað til stjórnarskrárákvæða um ráðherra- ábyrgð. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að í niðurstöðum nefndarinnar gætu komið hlutir sem tengdust ábyrgð manna í þessum efnum. Þingmenn Vinstri grænna hafi verið samkvæmir sjálfum sér í gegnum alla atkvæðagreiðsluna. „Allt tal um að þetta hafi beinst að einum frekar en öðrum stenst ekki skoðun, né heldur tal um pólitíska herferð. Að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um þetta og vísa til þess hvernig málið er komið. Ég held að menn gerðu rétt í að láta það fara sinn gang.“ Útilokar ekki liðsstyrk Þrír þingmenn Vinstri grænna sögðu sig úr þingflokknum á dögunum og nú hefur einn þeirra, Ásmundur Einar Daðason, gengið til liðs við Framsóknarflokkinn. Steingrímur segir þó að ríkisstjórnin sé sterkari en marg- ir halda. „Ég held að staða hennar hafi styrkst gagn- vart verkefninu sem er stærst og viðamest; að koma landinu út úr erfiðleikunum. Hún hefur styrkst vegna þess að það er sýnilegra með hverjum deginum að verkefninu miðar vel, þrátt fyrir allt svartagallsraus. Ég held að samstaðan sé nokkuð góð í þeim hópi sem stendur á bak við stjórnina. Ég held líka að það sjái það allir að það eru ekki augljósir valkostir í stöðunni og ekki hefur reynst mikill áhugi á kosningum hér, samanber það að tillaga um slíkt var enn fjær því að ná samþykki heldur en vantraust á rík- isstjórnina. Ég les því þannig í það að við komum vel undan vetrinum þrátt fyrir ýmsa ágjöf sem ekki hefur verið auðveld, sérstaklega hér hjá okkur í þingflokki Vinstri grænna.“ Steingrímur segir hins vegar ljóst að flokk- urinn standi heils hugar á bak við ríkisstjórn- arsamstarfið. En kemur til greina að bjóða Framsóknarflokknum í ríkisstjórn? „Það hefur ekki verið á dagskrá núna að undanförnu þar sem við höfum haft öðru að sinna. Væntanlega skilja menn það að í okkar huga hefur fyrst og fremst verið að halda samstarfinu áfram á grundvelli þess meiri- hluta sem flokkarnir hafa haft. Við höfum ekki útilokað aðra möguleika ef til slíks kæmi og við fögnum aukinni sam- stöðu og auknu samstarfi ef það er í boði. Ekki veitir nú af að menn leggi saman krafta sína frekar en hitt. Hvort það er ávísun á að það verði formleg breyting á ríkisstjórn eða stuðningi við hana er svo aftur annað mál. Það er eitthvað sem maður talar ekki um í fjöl- miðlum fyrirfram, en í bili sé ég ekkert sér- stakt sem bendir til þess að breytingar séu í vændum.“ Steingrímur segir engar viðræður hafa átt sér stað. „Vika er hins vegar langur tími í póli- tík og það getur líka tengst því hvernig stórum og mikilvægum málum reiðir af. Hvort tekst til dæmis að skapa samstöðu um hluti eins og breytingar á stjórnkerfi fiskveiða.“ Hefði þýtt stjórnarslit Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur legið undir ámæli fyrir að standa ekki harðar gegn árásum Nató á Líbíu. Steingrímur segir að valkosturinn hefði einfaldlega verið úrsögn úr Nató. „Ég hef engan heyrt krefjast þess að við færum úr ríkisstjórn vegna sérstöðu okkar í utanríkismálum og í mínum huga er það alveg ljóst að við hefðum ekki haft stuðning við það sjónarmið okkar að við hefðum látið þetta varða úrsögn úr Nató eða eitthvað álíka. Við höfum haldið okkar afstöðu til haga af myndugleika og hún liggur fyrir. Við erum væntanlega í minnihluta hér um það sjón- armið að við eigum ekki að vera í hernaðar- bandalagi og okkar afstaða til Nató og hernað- araðgerða á vegum þess tengist því.“ Steingrímur segir málið vera á forræði utanríkisráðherra sem sé afstaða Vinstri grænna ljós. „Við höfum dregið þá línu að við teljum að það sé óréttlætanlegt ef þessar aðgerðir á nokkurn hátt fara út fyrir umboð Sameinuðu þjóðanna. Okkar andstaða byggir á því að við teljum að í ýmsum tilvikum hafi það verið gert og þar af leiðandi getum við ekki stutt málið.“ Tafir vegna Icesave Margt hefur áunnist síðan hrunið varð og á fimmtudag var tilkynnt um að ríkissjóður væri aftur kominn á alþjóðlegan skuldabréfa- markað. En hvað finnst Steingrími að betur hefði mátt fara? „Auðvitað er margt sem maður hefði viljað að gengið hefði hraðar og verið komið lengra. Í raun má segja að endurreisnin í heild hafi tafist af vissum ástæðum. Það má segja að við séum svona níu mánuðum á eftir áætlun, miðað við það sem stefnt var að í upphafi. Það skýrist á töfum sem urðu á fyrstu og annarri endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem urðu vegna Icesave. Við værum án nokkurs vafa komin lengra ef ekki hefðu orðið þær tafir á prógramminu. Nú erum við sem betur fer alveg á áætlun og höfum verið í meira en ár. Við höfum nýfeng- ið fimmtu endurskoðun og þá er vonandi bara ein eftir í haust. Það verða mikil tímamót ef áætluninni lýkur með árangursríkum hætti síðsumar eða í haust. Staða landsins hefur tvímæla- laust verið að styrkjast og við höfum öðlast trúverðugleika vegna þess hvernig við höfum tekist á við vandamálin og þann árangur sem hefur náðst í ríkisfjármálun. Áhættuálagið er komið niður fyrir 200 punkta í fyrsta sinn síðan 2007 og landið er að komast í eðlilegri tengsl við umheiminn, líkt og skuldabréfaút- boðið vitnar um.“ Leiði flokkinn áfram Nokkuð hefur verið ritað um hvort Stein- grímur ætli sér að halda áfram sem formað- ur Vinstri grænna. Hann segir ekkert benda til annars núna, enda sé hann í miðjum verk- efnum á miðju kjörtímabili. „Hitt er þó ljóst að ég hef engin áform um að verða eilífur augnakarl, hvorki á for- mannsstóli Vinstri grænna né í stjórnmál- um. Ég get vel hugsað mér að afhenda öðrum keflið þegar ég met það að tíminn sé réttur. Ég hef verið býsna lengi í stjórnmálum og í eldlínunni. Þetta eru að nálgast 30 ár og þetta hefur verið annasamur tími, náttúrulega ekk- ert í líkingu við síðustu tvö og hálft ár. Því er ekkert að leyna að þetta tekur sinn toll. Maður yngist ekki mikið í þessu starfi eins og ég hef djöflast. Það hefur komið sér vel að vera með sæmilegt vinnuþrek. Ég tel það ekki eftir mér að leggja fram alla krafta mína eins og ég ýtrast get.“ En mun Steingrímur leiða flokkinn í næstu kosningum? „Jú, ég geri alveg eins ráð fyrir því, en ætla þó engar yfirlýsingar að gefa út á þessu stigi mála. Ég vonast til að næstu kosningar verði ekki fyrr en eftir tvö ár og þá getur margt skipt máli um ákvörðun mína; hvað er eftir í manni þegar þar að kemur, hvernig verkefnið hefur heppnast, er maður sáttur við það eða finnst manni að maður þurfi að fylgja því betur eftir. Ég hef engar stórar áhyggjur, hvorki af mér né öðrum, svo fremi sem verkefnið heppnist; að koma Íslandi út úr erfiðleikun- um eins fljótt og auðið er. Einu verklaunin sem ég vonast til þess að fá er að geta litið yfir farinn veg og sagt: þetta tókst. Þá yrði ég sáttur.“ Þetta er stór áskorun fyrir alla og ekki síður sjávarútveginn því það er ómögulegt að búa við þetta ástand endalaust, þessar miklu deilur og illindi. Auðvitað tekur þetta sinn toll Steingrímur J. Sigfússon telur ríkisstjórnina standa styrka gagnvart því verkefni sem endurreisn Íslands er. Hann útilokar þó ekki styrk- ingu þótt hún sé ekki augljós í bráð. Hann segir mikið hafa áunnist en margt sé þó enn óunnið. Hann reiknar með því að leiða Vinstri græn í næstu kosningum. Steingrím- ur ræddi við Kolbein Óttarsson Proppé um stjórnmálin og stefnuna. FR ÉT TA B LA Ð IÐ /G VA FJÁRMÁLARÁÐHERRANN Steingrímur hefur sinnt starfi fjármálaráðherra síðan eftir hrun og er bjartsýnn á framtíðina.

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.