Fréttablaðið - 11.06.2011, Side 28

Fréttablaðið - 11.06.2011, Side 28
11. júní 2011 LAUGARDAGUR28 Stóri maðurinn yfirgefur völlinn Í miðri úrslitarimmu Dallas Mavericks og Miami Heat tilkynnti einn frægasti körfuknattleiksmaður allra tíma, Shaquille O‘Neal, að hann væri hættur keppni eftir nítján leiktímabil í NBA-deildinni. Kjartan Guðmundsson tók saman upplýsingar um skemmti- kraftinn Shaq, sem margir telja einn albesta miðherja deildarinnar frá upphafi ásamt Bill Russell, Wilt Chamberlain og fleirum. ÍTREKUÐ MEIÐSLI Shaq glímdi oft og tíðum við meiðsli og reyndist táin honum sérlega erfið. Þegar hann frestaði því að fara í aðgerð á tánni þar til rétt fyrir upphaf leiktíðarinnar 2002 til 2003, og hlaut bágt fyrir, útskýrði hann mál sitt á þennan hátt: „Ég meiddi mig á vinnutíma og ég læt mér batna á vinnutíma.“ VERÐMÆTIR FÆTUR Íþróttavörufyrirtækið Reebok hannaði fyrst skó á risavaxna fætur Shaq árið 1993 og kallaði gerðina „Shaqnosis“. Síðar gerði Shaq samning við kínverska fyrirtækið Ni Ling um framleiðslu á „Shaq Ni Ling“- skóm og meðal stoltra eigenda slíkra er enginn annar en Bandaríkjaforsetinn Barack Obama. KJAFTFOR SKEMMTIKRAFTUR Shaq er af mörgum talinn einn skemmtilegasti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar og uppátæki hans innan vallar sem utan voru eins og himnasending fyrir fjölmiðlafólk. Kjafturinn kom kappanum þó gjarnan í vandræði, til að mynda þegar Lakers lék gegn Sacramento Kings í úrslitum Vesturdeildarinnar árið 2002 og hann kallaði liðið ítrekað „Sacramento Queens“ í viðtölum. Eins skaut hann oftsinnis eitruðum skotum á Kobe Bryant, liðs- félaga sinn, og í rappkeppni árið 2008 endaði Shaq atriði sitt á að spyrja Bryant: „Hvernig bragðast svo rassinn á mér?“ HACK-A-SHAQ Allan feril sinn voru Shaq afar mis- lagðar hendur á vítalínunni, sem andstæðingar nýttu sér til hins ýtrasta og brutu á honum í gríð og erg. Var þessi ákveðna leikaðferð kölluð „Hack- A-Shaq“. Shaq var ekki mikið hrifnari af þriggja stiga skotum, enda skoraði hann aðeins eina slíka körfu á nítján ára löngum ferli sínum í NBA. HVAÐ TEKUR VIÐ? Margir hafa velt því fyrir sér hvað Shaq tekur sér fyrir hendur nú að ferli loknum. Hann hætti snemma í skóla til að sinna ferlinum, en útskrifaðist þó úr háskóla árið 2000 og sagðist þá „loksins geta fengið sér almennilega vinnu“. Hann hefur löngum lýst yfir áhuga sínum á að gerast lögreglumaður, og er reyndar heiðursmeðlimur lögreglu- embættisins í Miami, en flestir telja líklegt að Shaq gerist fljótlega sérfræðingur sjónvarpsstöðva í NBA-tengdum málum, enda vel til slíkra starfa fallinn. HENGD UPP Í RJÁFUR Shaq lék með sex NBA-liðum á nítján ára ferli; Orlando Magic, LA Lakers, Miami Heat, Phoenix Suns, Cleveland Cavaliers og Boston Celtics. Stjórn Lakers hefur þegar gefið út að treyja Shaqs númer 34 verði hengd upp í Staples Center-höllinni, en margir eru einnig á þeirri skoðun að Magic og Heat ættu að fara að fordæmi þeirra. GUÐDÓMLEGUR GUMPUR Shaq er rassstór af náttúrunnar hendi, sem reyndist hin mesta blessun þegar hann keyrði með látum upp að körfunni og tók hvert frákastið á fætur öðru á ferlinum. Það var erfitt að komast nálægt honum. HÖFUÐSTÓR Shaq er af mörgum talinn hafa eitt stærsta egóið í sögu NBA. Eins vinsæll og hann var meðal áhorfenda var það ljóður á ráði leikmannsins að skilja við nánast öll liðin sem hann lék með í illu. HRINGARNIR Shaq vann fjóra NBA-titla, þrjá með Lakers frá 2000 til 2002 og með Heat 2006. Hann var valinn nýliði ársins 1993, var fimmtán sinnum valinn í Stjörnuliðið (þar af þrisvar valinn besti maður Stjörnuleiksins), var þrisvar sinnum besti maður úrslitakeppninnar og einu sinni besti maður leiktíðarinnar. Þá var Shaq tvisvar sinnum stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar og er fimmti stigahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi. MAÐUR MARGRA GÆLUNAFNA Fjölmiðlafólk var iðið við að finna upp á gælunöfnum fyrir Shaq, en ekki þó jafn duglegt og leikmaðurinn sjálfur. Diesel, Shaq Fu, Big Daddy, Súpermann, Big Cactus, Big Shaqtus, Wilt Chamberneezy og Big Conductor eru ein- ungis örfá dæmi um þau. Frægasta gælunafnið er þó líklega MDE (Most Dominant Ever).

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.