Lesbók Morgunblaðsins - 24.01.2009, Side 8

Lesbók Morgunblaðsins - 24.01.2009, Side 8
Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sith@mbl.is I „Ertu frá Íslandi?“ hváir þjónninn á El Ate- neo, flottasta bókakaffinu í Buenos Aires og þótt víðar væri leitað í Suður-Ameríku. Hann heitir Jorge og hefur bersýnilega aldrei heyrt minnst á Ísland: „Hvaða gjaldmiðill er þar?“ Ég hika eitt andartak, þetta er furðuleg spurning og ég veit ekki einu sinni svarið. Það er 9. október 2008 og ég veit ekki hvort það er yf- irleitt nokkur gjaldmiðill á Íslandi. „Hann heitir króna,“ segi ég með semingi, vil eyða talinu. „Kóróna, já, ertu nokkuð með svoleiðis á þér? Ég safna nefnilega erlendri mynt, sjáðu, í dag áskotnaðist mér klink frá Moldavíu,“ segir Jorge og veiðir upp úr vasa sínum. Ég yppi öxlum, segist ekki eiga krónu. „Alveg viss? Ég er ekkert að biðja um ölmusu, ég myndi borga þér.“ Ég lít á manninn og spring úr hlátri. Svona er þetta; bókakaffið El Ateneo er í dag eini staðurinn í öllum heiminum þar sem einhver beinlínis heimtar að kaupa krónu. Enginn annar vill sjá hana. Krónan hangir yfir hyldýpinu. Allir sem eiga krónur eiga bágt. Bankakerfið er hrun- ið á Íslandi. Öll gjaldeyrisviðskipti eru í frosti. Ég borga kaffið með þremur argentínskum tveggja-pesóa seðlum og labba út. II Það kostar einn pesóa í strætó, níutíu sent ef maður ætlar mjög stutt. Það er fáránlega ódýrt, sirka þrjátíu og fimm kall. Samt er heljarinnar vesen að taka strætó því maður á aldrei klink. Enginn í borginni á klink og enginn getur skipt. Maður fer sjoppu úr sjoppu, reynir að kaupa sér ódýrt tyggjó og fá til baka, en það er ekki einu sinni hægt, þú verður að vera með akkúrat, segir fólkið og dæsir. Borgin er klink- laus eftir kreppuna fyrir sjö árum þegar verðlag hækkaði og hækkaði og smámyntin missti mik- ilvægi. Það eina sem ekki hækkaði var far með strætóum og jarðlestum því ríkið niðurgreiðir al- menningssamgöngur af einurð. Ekki er í boði að borga með seðli í strætó, miðavélin tekur bara smáaura og þess vegna græða margir stórfé á að selja manni eins-pesóa-strætómynt fyrir seðil upp á tvo, fimm, jafnvel tíu pesóa. Já, það hefur frést af fólki sem borgar tíu pesóa fyrir klink til að komast í strætó. Þannig er braskað hér með peninga, ég segi ekkert um stærri svik og spillingu, ég veit ekkert um það, en það er kostulegt að þurfa að kaupa þrjátíu og fimm kall á svörtum. „Svo eru vagn- stjórarnir í slagtogi við Kínverjana, gera díla, selja þeim klinkið úr vélunum á uppsprengdu verði, kassarnir hjá kínversku hornkaupmönn- unum fyllast af skiptimynt og þangað beinir fólk viðskiptum sínum því það þarf klink til að komast í strætó. Argentínsk spilling, gjörðu svo vel,“ segir innfæddur sessunautur minn í flugvél seinna, en ég neita að trúa honum. Þegar ég sit yfir mbl.is daga og nætur og fylg- ist með líftórunni fjara úr kauphöllum og stjórn- kerfi og framtíð míns fólks, get ég ekki að mér gert að vona að það verði jafn hugmyndaríkt og hér, til að komast af. III Það er skrýtið að vera að heiman þegar hamfarir ganga yfir. Ég var í burtu þegar snjóflóðið féll á Flateyri, ég var í burtu í Suðurlandsskjálftunum 2000, ég er í burtu núna og ég vil það ekki. Ég vil vera heima til að ganga úr skugga um að ekki sé verið að ýkja, ég ímynda mér að það sé búið að loka allri Reykjavík með manni og mús, það getur þess vegna verið út- göngubann, maður veit ekki, fréttirnar á rúv.is, vísi.is, mbl.is, jafnvel baggaluti.is, eru þess eðlis að sjálfur skrattaveggurinn hlýtur að hafa hold- gerst. Hryðjuverkalög. Þjóðargjaldþrot. Alls- herjarskuldsetning. Ég hef aldrei heyrt þessi orð fyrr í samhengi við innlendar fréttir. Hver eru næstu skref? spyrja menn, hver um annan þveran. Ég veit það ekki, mín næstu skref eru út á torg, ég kaupi pítsu á leiðinni og myndi gefa heimilislausa fólkinu í götunni minni klink ef ég ætti það til. Á torginu mæni ég á gifsstyttu, eftir að krepp- an setti Argentínu í bóndabeygju fyrir sjö árum tók fólk ýmislegt til bragðs, til dæmis að stela bronsstyttum og bræða þær og selja. Koma svo, hugsa ég heim og pítsan bragðast alveg eins og í öllum öðrum stórborgum evrópskum. Hver eru næstu skref? Ja, ég þarf a.m.k. ekki að labba heim, það er frítt í allar neðanjarðarlestir í dag, út af klinkskortinum. Og það var frítt í fyrradag því starfsmenn voru ósáttir við yfirmenn sína og í stað þess að fara í verkfall mættu þeir í vinnuna en létu engan borga inn. Yfirmennirnir sjóðbrjál- uðust. Ég ímynda mér að þetta verði gripið á lofti sem lausn heima, að hver fari að haga sér eins og hann vilji, eða að allt verði einhvern veg- inn bara frítt því enginn á pening. IV Mamma hringir – að svara farsíma kostar 437 kr./mín. – og segir að ég ætti kannski bara að koma heim. Maður viti ekki hvernig þetta fari, þetta sé heimskreppa, flug- félögin muni fara hausinn eins og í dómínói, út- séð um að ég komist heim fyrir jól, ég þurfi sennilega að bíða eftir vorskipi. Hún segir þetta reyndar ekki svona, en ég heyri að hún er áhyggjufull. Ég heyri það á öllum sem ég tala við, þeir eru svartsýnir. Mér líður illa, ég vil fara og leggja höndina á öxlina á öllu þessu fólki. Öllu mínu fólki. Það er eins og einhver hafi dáið. Ég fer út að dansa. V „You’re worldfamous now…“ segir Julio, roskinn blökkumaður frá Chicago sem finnst spennandi að ég sé íslensk; „…for all the wrong reasons,“ bætir hann við og skelli- hlær. Júlíus er tvífari Morgans Freeman og í dag er hann í gallabuxum og rauðum bol, með blá axlabönd, í rauðum og hvítum skóm. Hann tekur dansspor: „Obama verður forseti samkvæmt traustustu spám, þess vegna er ég í fánalit- unum.“ Það er heitt, Júlíus brosir og þurrkar svita í rauða bolinn, segir að nú fari draumar í Ameríku að rætast, hans maður á toppnum. Mér finnst eitthvað skrýtið við þetta og átta mig ekki á því fyrr en í lok dags að fánalitir Júlíusar Freeman eru líka fánalitirnir mínir. Ég lúskrast heim og opna tölvu, pósthólfið er fullt af vonnlæ- nerum frá vinum um allan heim sem spyrja hvers vegna Ísland sé sokkið. Þetta er ekki hægt. Við erum fræg að endemum. Ég er í öllu svörtu. VI Ástandið á Íslandi hefur gert dvöl í út- löndum að spennandi ratleik, hvar fæst mest fyrir minnst, hvar er krónan tekin gild, hvar hafa menn heyrt minnst á krónu, hvert er gengið, hvert er yfirleitt gengið til að komast í hraðbanka, festu þeir gengið í nótt, gengu þeir í fastasvefni í nótt, maður dregur sífellt upp spjald með spurningarmerki á bakinu, eins og í Mata- dor, alltaf að vonast eftir happaspjaldinu: Forseti gefur þér upp sakir … En maður verður seint laus mála með þetta vegabréf: „Ég er búinn að reikna út miðað við skatthlut- fall mitt og íbúafjölda að ég er persónulega að lána þér 25 þúsund kall,“ skrifar kunningi frá Svíþjóð þegar fréttist að Svíar hyggist hlaupa undir bagga … „P.S. Ég ætla að innheimta það í sumar, þú keyrir mig hringveginn á þínu bensíni og þá er- um við kvitt.“ VII Konan sem ég bý hjá er íslensk. Við hlæjum mikið. Við stillum fyrsta kastið á blaðamannafundi forsætisráðherra og viðskiptaráðherra sem þeir halda í einhverju leikhúsi í Reykjavík. En útsendingarnar virka ekki utanlands, þannig að við störum í statísk snjáldrin á þeim. Svo hlæjum við. Allra handa brandarar berast frá fólki sem hylmir yfir ráða- leysi sitt með húmor. We’ve got Geir Haarde, No Cash and No Hope, er pönsið í einum brandara þar sem Ameríkani montar sig af George Bush, Johnny Cash og Bob Hope. Við skellihlæjum. Ís- land er til sölu á Ebay, það er annar. Við hlæjum. Í ljós kemur að 50 evrurnar sem ég tók síðast út úr hraðbanka voru á genginu 230, það gerir 12 þúsund kall, takk, það finnst okkur óheyrilega fyndið. Við búum okkur út að dansa og í græj- unum er Sigur Rós í sinfónískri stígandi. „Hvernig tónlist ætli Sigur Rós geri í kreppu?“ kalla ég með maskarann upp við auga. „Ein fiðla og falsetta?“ „Hámark, já, nema þeir noti trekt til að magna upp hljóðin, eins og tangósveitirnar gerðu í gamla daga þegar ekki var efni á fleiri hljóðfæra- leikurum,“ segir kjarnakonan sem ég bý hjá. Við skelli-skellihlæjum. Og förum út að dansa. VIII Deginum eftir eyði ég í að þýða grein eftir Kristof vin minn Magnusson, spútnikhöfund, sem hann skrifaði að beiðni Financial Times Deutschland um baksvið ástandsins. Greinin byggist á glöggu gestsauga og íslenska blóðinu í æðum hans, mér finnst hún eiga erindi heima, ég ákveð að nú skuli fólk líta í spegil, hún fjallar um íslenska æðisgengni, verð- bólguna, uppganginn, amatörisma, um minni- máttarkenndina, endurkomu eitísins, dugnað og stemmningu. Ég spyr í inngangi: Var Íslandi stjórnað úr fermingarveislum á níunda áratugn- um? – finnst það fínn tíser því Kristof er með af- hjúpandi kenningar um smæðina og mér finnst fyrirsögnin líka vel heppnuð: Eyjan sem stokk- bólgnaði. Ég vona að vísunin í stock fattist. En á það reynir aldrei, í sömu andrá og ég sendi grein- ina heim hefur fjölmiðillinn lokað fyrir kaup á öllu efni vegna kreppunnar. Hann getur ekki einu sinni keypt sjóðheita grein um kreppuna, út af kreppunni. Þetta er hámark kaldhæðninnar, ég sem tala ekki einu sinni þýsku og eyddi í þetta fokkings heilum orðabókarvinnudegi. Ég fer út að dansa. Um nóttina gúggla ég eins og bjáni og lendi á síðu hjá stórkaupmanni sem segir að krónan sé saklaus. Hann er svekktur yfir fólki sem telur krónuræfilinn rót allra vandræða, hann segir: „Krónan er jafnsaklaus og baðvogin og spegill- inn í baðherberginu enda allt dauðir hlutir. Krónan er hins vegar eins konar spegill, sem sýnir okkur efnahagslegt verk okkar og ástand. Krónan er við sjálf.“ Auðvitað, þetta er okkur að kenna, ég sef ekki vel. IX „Er ég bara að þykjast ekki hafa áhyggj- ur af ástandi heimsins, eða hvers vegna dreymir mig mann að naga mannsfót og klunnalegan kjálka af nashyrningi, mann sem kastar því svo öllu upp á kuflinn sinn og þá er það svart og hann reynist vera gísl í Ísrael og ill- menni filma neyð hans að næturlagi?“ stendur í dagbókinni minni 12. október. Ég er ekki einu sinni vön að halda dagbók. „Og af hverju finnst mér, í sama draumi, nauð- synlegt að Haukur Ingvarsson fái áfram að vinna vinnuna sína?“ stendur þar næst. Ég botna ekk- ert í þessu, mig hefur greinilega dreymt illa. Svo kemur: „Spurning þessu tengd, og þó: Ef forseta- frambjóðandinn John McCain er myrtur, er Obama þá sjálfkrafa búinn að vinna?“ Þetta er martraðarkennt, það rennur blóð í draumum mínum. Samt er allt einhvern veginn ennþá fyndið, skv. færslum þessarar dagbók- arstelpu: „P.S. Ég þarf að fá mér vinnu hér í útlöndum Beygja, kreppa, út og saman Í höfuðborg Argentínu vaknaði ung kona upp við Íslandskreppu og skynjaði hana furðusterkt á eigin skinni þótt fjarlægðin væri tólf þúsund kílómetrar. Fáránlegar martraðir tóku völd og fánalitir misstu mátt – gleymum heldur ekki gríninu sem óð uppi – því það er sérkennilega sýndarverulegt að vera að heiman þegar húsið manns hrynur. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. JANÚAR 2009 8 LesbókHRUNIÐ

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.