SunnudagsMogginn - 27.06.2010, Side 18
18 27. júní 2010
É
g ætla að drepa mig,“ segir gamli, hvítskeggjaði
og hokni maðurinn sem stendur frammi fyrir
troðfullum sal í Háskóla Íslands. „Ég geri það á
öllum fyrirlestrum mínum.“ Því næst tekur
hann sig til og gleypir innihald heillar flösku af töflum
sem hann segir áhorfendum að innihaldi arsenik. Ótrú-
legt nokk stendur maðurinn keikur eftir eins og ekkert
hefði í skorist. Ótrúlegt við fyrstu sýn. Töflurnar eru
nefnilega hómópatalyf.
Blekkingar eru ær og kýr James Randi. Hann starfaði
sem töframaður til fjölda ára og það var hann sem leiddi
saman sjónhverfingateymið Penn og Teller sem margir
kannast við úr samnefndum þáttum þeirra félaga. Þegar
hann fékk leið á því að hanga á tánum neðan úr lofti í
spennutreyju, eins og hann kemst sjálfur að orði, hóf
hann að halda fyrirlestra um allan heim um gervivísindi
og allrahanda kukl, hjátrú og bábiljur.
Útlit hans blekkir einnig. Þrátt fyrir að vera á níræð-
isaldri og líta út fyrir það, er hugsun hans leiftursnögg og
skopskynið flugbeitt og drjúpandi af kaldhæðni. Ég spyr
hann um sjálfsmorðsatriðið sem hann segir að hann
framkvæmi yfirleitt með svefntöflum. „Vinur minn sem
er góður í útreikningum tjáði mér að ef ég ætlaði að fá eina
sameind af koffíni úr hómópatískum svefntöflum – svo
rugluð er hómópatía að koffín er notað gegn svefnleysi! –
þá þyrfti ég að gúffa í mig 16 sundlaugum fullum af pill-
um,“ segir Randi. Hann var því aldrei í neinni hættu þeg-
ar hann tæmdi pilluglasið af arseniki, enda innihald
þeirra eins útvatnað og koffínið í svefntöflunum. Tilgang-
urinn var sá einn að sýna fram á skrum þess sem hann
kallar skottulækningar.
„Hómópatía er eitt elsta dæmið um skottulækningar í
heiminum enda búin að vera við lýði í um 200 ár. Upp-
hafsmaður hennar var maður sem hafði þá undarlegu
hugmynd að ef þú tekur snefil af efni sem veldur vanda-
máli þá læknist það. Auðvitað stendur ekki steinn yfir
steini í því vegna þess að virka efnið er svo útvatnað að
það er ekkert eftir af því.“ Samkvæmt kenningum smá-
skammtafræðinnar eru virku efnin í lyfjunum leyst upp í
vatni, yfirleitt í svo veiku hlutfalli að ekkert er eftir af
efninu. Það komi þó ekki að sök því vatnið búi yfir nokk-
urs konar minni eða titringi frá uppleysta efninu. Því
uppleystara sem efnið sé, því sterkara sé lyfið. „Þeir segja
auðvitað að það þurfi ekkert lyf að vera til staðar út af
titringnum,“ segir Randi. „Skammtatitringi hvorki meira
né minna, svo það hlýtur að vera sérstaklega öflugt.
Hvernig er hægt að gagnrýna svona rök?“ segir Randi og
kímir. „Einn kvilli er þó til,“ segir hann um leið og hann
dregur fram veskið sitt, sem smáskammtalækningarnar
geta læknað. Ef þú glímir við bólgið veski þá getur hómó-
patía bjargað því fyrir þig á svipstundu!“
Rannsakandi hins yfirskilvitlega
Sem fyrrverandi töframaður er Randi sérfræðingur í list-
inni að blekkja fólk og hvernig fólk blekkir sjálft sig. Hann
dregur úr pússi sínu nokkrar smámyntir og leikur með
þær í höndunum. Hann hendir þeim úr hægri hendinni
yfir í þá vinstri en þegar hann opnar vinstri lófann er
hann tómur, eins og fyrir töfra. Auðvitað notaði Randi
aðeins hljóðið í myntunum og augnaráðið til þess að af-
vegaleiða en blaðamaður er engu að síður gabbaður upp
úr skónum. „Fólk telur sig ekki geta verið blekkt. Það
heldur að það sé svo snjallt að það sé ekki hægt að plata
það. Þetta er hættuleg hugsun því það eru auglýsingar og
afætur með annarlegar hvatir sem reyna sitt besta til þess
að hafa af fólki fé þess, öryggi og framtíð með blekk-
ingum.
Meira að segja vísindamenn hugsa í beinni línu og ná
ekki út fyrir kassann. Ég vildi mun frekar sýna töfrabrögð
fyrir fullum sal af fólki með doktorsgráðu en fyrir átta til
níu ára gamla krakka. Börnin draga ekki sömu ályktanir.
Þau sjá mig ekki setja myntirnar í höndina svo þau gera
ekki ráð fyrir því að þær séu þar. Þau eru ekki nógu snjöll
til að vera göbbuð,“ segir Randi.
Kunnáttu sína í blekkingum hefur Randi notað til þess
að rannsaka dæmi um fólk sem heldur því fram að það
hafi yfirnáttúrulega hæfileika. Hann segist ekki vera í
þeim bransa að afhjúpa svindlara enda gefi hann sér ekki
neitt fyrir fram um það sem hann rannsakar. Oft afhjúpar
hið meinta kraftaverkafólk sjálft sig hins vegar.
Ísraelsmaðurinn Uri Geller er dæmi um þetta, segir
Randi. Geller varð heimsfrægur á áttunda áratug síðustu
aldar þegar hann kom margoft fram í sjónvarpi þar sem
hann sagðist geta beygt skeiðar með hugarorkunni. Randi
skrifaði meðal annars bók um Geller þar sem hann sýndi
fram á að hann væri lítið annað en sjónhverfingamaður.
„Haltu í sinn hvorn endann á þessari teskeið fyrir mig,“
segir Randi við blaðamann og réttir fram skeiðina sem
hann er búinn að vera að hræra í kaffibollanum sínum
með. Randi heldur sjálfur um miðja skeiðina og nuddar
rólega þar til hún linast og bognar og á endanum dettur
hún í sundur á borðið fyrir framan okkur. Meint afrek
Gellers eru kannski ekki eins einstök og af var látið.
Fræg var sneypuför Gellers í The Tonight Show Jo-
hnnys Carson árið 1973 þar sem Randi hafði verið fenginn
til að koma í veg fyrir að Geller hefði nokkur brögð í tafli.
Með leikmunum sem Carson hafði sjálfur valið og aðstoð-
armenn hins meinta kraftaverkamanns höfðu ekki getað
átt við fyrirfram gat Geller ekkert gert en sagðist sjálfur
ekki vera í stuði það kvöld.
Það voru þó ekki bara skeiðar sem beygðust ekkert í
þættinum, því almenningsálitið breyttist ekkert og Geller
er enn starfandi í dag. „Hann er eins og ósökkvandi
gúmmíönd sem spýtist alltaf upp aftur,“ segir Randi.
„Fólk hlustar ekki. Ég hef afhjúpað heilara á afgerandi
hátt en fólk vill samt trúa á þá. Það er eins og sauðfé sem
heldur áfram í sláturhúsið. Þetta er eins og í trúar-
brögðum. Fólk fórnar öllu fyrir manninn uppi á himnum.
Er hann til? Ég veit ekki, segir fólk, en það er auðveldara
að trúa því. Fólk vill fara auðveldu leiðina.“
Fjölmiðlar sökudólgar
Randi ber fjölmiðlum ekki vel söguna; hann ásakar þá um
æsifréttamennsku. Þeir beri hluta ábyrgðarinnar á mörg-
um ranghugmyndum almennings um hvernig heimurinn
virkar. „Almennt talað held ég að fjölmiðlunum sé alveg
sama. Ef mögulegt efni er áhugavert þá skiptir engu hvort
það sé satt eða hvort það sé skaðlegt fólki, öllu máli skipt-
ir hins vegar að styrktaraðilar haldi áfram að kaupa aug-
lýsingar. Þetta er ekki ábyrg hegðun heldur er níðst á
fólki.“
Hann tekur bandaríska miðilinn Sylviu Browne sem
dæmi um þessa samsekt fjölmiðlanna. „Hún er víðfræg
aðallega vegna eins sjónvarpsmanns, Montels Williams,
en hún kemur vikulega fram í þættinum hans. Hún segist
geta talað við látið fólk. Það get ég reyndar líka,“ segir
Randi sposkur á svip. „Halló,“ kallar hann út í tómið en
fær ekkert svar. Andarnir eru ef til vill ekki komnir á fæt-
ur svo snemma morguns. „Hvort látna fólkið svarar er
aðalatriðið. En Williams ver hana, alveg sama hversu
rangt hún hefur fyrir sér, að hún hafi meint annað eða
ruglast. Þegar hann var svo spurður í útvarpsþætti hvort
hann hefði trú á miðlum þá þvertók hann fyrir það, sér-
staklega ekki á Sylviu Browne. Það sem hún gerði hins
vegar væri að selja vörurnar sem styrktaraðilar þáttanna
auglýstu hjá þeim. Honum var alveg sama hvort það sem
hún segði væri satt eða ekki.“
Svikahrappar eða fórnarlömb?
Heldur hann sjálfur að þeir sem hann nefnir kuklara eins
og hómópatar séu svikahrappar eða að þeir sjálfir séu
einnig auðtrúa fórnarlömb blekkinga? „Hómópatar kom-
ast að því eftir einhvern tíma að aðferðirnar virka ekki en
halda samt áfram því þeir eru að græða pening af því.
Bandaríska lyfjaeftirlitið leyfir hómópötum að rukka 70%
meira fyrir hómópatalyf en fyrir raunveruleg lyf. Tökum
dæmi um hefðbundið lyf gegn kvefeinkennum. Það er
einnig hægt að fá það sem hómópatalyf með sérstakri
merkingu þess efnis en það selst á 70% hærra verði þó
innihaldið sé nákvæmlega það sama. Fólk kaupir það
vegna þess að það sér hómópatíumerki á flöskunni og
heldur þá að hún virki. Eftirlitið á að felast í því að verja
fólk sem er nógu kjánalegt til að kaupa þetta.“
Hvað með fólk sem segir að því líði betur af meðferð
hómópata? Af hverju þarf að gera athugasemdir við fólk
sem er ánægt og sannfært? „Hvernig veistu að þér líður
betur? Það er hægt að fara margar leiðir til að líða betur.
Þú getur tekið snafs eða reykt gras, þá líður þér betur.
Þetta er spurning um hvort þú vilt að þér líði betur eða
hvort þú vilt að þér batni. Ef þú vilt lyfleysuáhrif, þá er
það fínt í tuttugu mínútur. Þau munu hins vegar ekki
lækna þig, aðeins láta þér líða betur í smástund.“
Fólk deyr vegna ranghugmynda
Sjóður James Randi í Flórída í Bandaríkjunum, James
Randi Educational Foundation, hefur lengi boðið hverjum
sem getur fært sannanir fyrir yfirskilvitlegum fyrirbærum
milljón dollara í nokkurs konar fundarlaun. Randi segir
hundruð manna hvaðanæva úr heiminum hafa sótt um en
enginn hafi staðist prófanir vísindamannanna sem sann-
reyna fullyrðingarnar.
Hvað er það sem drífur Randi áfram og til þess að eyða
slíkum tíma og orku í að berjast gegn hindurvitnum og
falsvísindum? „Fólk þarf að fá að vita þessa hluti ef það
vill það sjálft. Það er orðatiltæki sem segir að þú getir leitt
hross að vatnsbóli en þú getir ekki látið það drekka. Ég
gef fólki það sem ég tel vera staðreyndir og ég fæ bréf á
hverjum degi frá fólki sem þakkar mér fyrir og segir mig
hafa haft áhrif á hugsunarhátt þess. Það er það sem gerir
það þess virði. Þess vegna kem ég hingað, til þess að
brýna fyrir fólki að það sé hægt að blekkja það. Fólk deyr
út af þessu falsi. Fólk fer til hómópata, hættir að taka
krabbameinslyfin sín og deyr jafnvel. Það hefur gerst,“
segir Randi.
Eins og gefur að skilja er hann ekki hrifinn af trúar-
brögðum sem hann kallar skipulagða hjátrú sem engar
sannanir séu fyrir. „Það eru engin sönnunargögn sem
sýna fram á að æðri máttarvöld séu til. Vissulega er mörg-
um spurningum ósvarað en vísindin finna ný svör við
þeim á hverjum degi. Þau gera okkur kleift að sigrast á
erfiðleikum og skilja heiminn betur. Vísindin hafa ekki
leyst öll vandamál enda er starfi vísindamanna aldrei lok-
ið, það vakna alltaf nýjar og nýjar spurningar eftir því sem
við lærum meira. Í trúarbrögðum er aftur á móti öllum
spurningum þegar svarað í helgum bókum.“ Randi segir
trú ekki vera frábrugðna öðrum ranghugmyndum og að
hún hafi kostað mikla peninga og mannslíf. „Ég nefni
presta, eins og sjónvarpsprédikarana í Bandaríkjunum,
sem lemja sjúkt fólk í hausinn og segja því að það sé lækn-
að. Seinna deyr þetta fólk í einrúmi og enginn veit af því.
Þegar þú ert með furðulegan átrúnað af þessum toga sem
byggist ekki á neinu áþreifanlegu líður siðmenningin fyrir
það. Það er kominn tími til þess að fólk vaxi úr grasi og
byrji að lifa á 21. öldinni, ekki þeirri fjórtándu.“
Sjálfsmorð
fyrir fullum sal
James Randi, fyrrverandi töframaður, segir
tíma til kominn fyrir fólk að leggja drauga for-
tíðar á hilluna og byrja að lifa á 21. öldinni.
Texti: Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is
Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is