Morgunblaðið - 02.02.2010, Síða 12
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
VERKSMIÐJA til að vinna háspennustrengi og
jarðstrengi úr áli er í undirbúningi á Seyðisfirði.
Frumkvöðlarnir eru að leita að samstarfsaðilum
erlendis til að byggja og reka verksmiðju þar.
Bæjarstjórinn segir að verksmiðjan hafi mikla
þýðingu fyrir byggðina. Sáralítil vinnsla er á áli
frá álverunum þremur sem starfrækt eru hér á
landi. Álið er flutt óunnið úr landi.
Nokkrar hugmyndir eru uppi á Austurlandi
um að nýta hráefni frá Alcoa Fjarðaáli á Reyð-
arfirði til verðmætasköpunar þar. Áætlanir um
byggingu álstrengjaverksmiðju á Seyðisfirði
virðist lengst komnar. Sigfinnur Mikaelsson,
framkvæmdastjóri flutningafyrirtækisins Smyril
Blue Water, hefur unnið að verkefninu í á þriðja
ár, í samvinnu við verkfræðistofur og Þróunar-
félag Austurlands. Undirbúningsfélagið nefnist
Al kaplar ehf.
Valsa og splæsa vírinn
Alcoa Fjarðaál hefur tæki til að framleiða vír í
álveri sínu á Reyðarfirði. Hugmyndin gengur út
á það að kaupa vírinn þaðan og valsa og splæsa
saman í háspennulínur af mismunandi gerðum.
Jafnframt er fyrirhugað að búa til jarðstrengi
sem klæddir verða í hlífðarkápu.
Álið hefur verið að taka við sem hráefni í
strengi af þessu tagi. Koparinn er orðinn of dýr.
Þannig bendir Sigfinnur á að háspennulínurnar
sem flytja raforkuna frá Kárahnjúkavirkjun til
álversins í Reyðarfirði séu úr áli.
„Við erum með alla þessa álframleiðslu en
vinnum ekki úr einu einasta kílói. Þarna eru
möguleikar og vonandi breytist þetta núna,“ seg-
ir Sigfinnur.
Hann segir að framleiðsla sé áhugaverð, eins
og staðan er núna. Framleiðslukostnaður sé
lægri hér en víða annars staðar og álstrengja-
verksmiðjan því áhugavert viðskiptatækifæri.
Áætlað er að stofnkostnaður verksmiðju af
þessu tagi sé 8 til 10 milljarðar kr. „Við erum að
þreifa fyrir okkur hjá erlendum fjárfestum. Von-
andi skýrist það á næstu mánuðum hvort þeir
koma til liðs við okkur við uppbygginguna,“ seg-
ir Sigfinnur.
Notar helming afls Fjarðarárvirkjunar
Seyðisfjarðarbær hefur tekið frá land á
Langatanga, við innkomuna til bæjarins, fyrir
verksmiðjuhús sem reiknað er með að verði 20
þúsund fermetrar að stærð. Framleiðslan er
ekki orkufrek, talið er að verksmiðjan þurfi um
fjögurra megavatta afl og vekur Ólafur Hr. Sig-
urðsson bæjarstjóri athygli á að Fjarðar-
árvirkjun sem er skammt frá verksmiðjulóðinni
framleiði 10 MW.
Reiknað er með að 100 starfsmenn fái vinnu í
álstrengjaverksmiðjunni, þegar hún tekur til
starfa. Þar við bætast afleidd störf. Ólafur bæj-
arstjóri segir strengjaverksmiðjuna hátæknifyr-
irtæki, eins og álver, og að skipting vinnuaflsins
verði eftir því, blanda af tækni- og fram-
leiðslustörfum.
Atvinnulífið á Seyðisfirði byggist mikið á sjáv-
arútvegi og ferðaþjónustu. Ólafur segir að þótt
þaðan sé gerður út togari, afli unninn í frysti-
húsinu og tæknivædd fiskimjölsverksmiðja starf-
rækt hafi störfum við sjávarútveg fækkað mikið
á síðustu tuttugu árum, eins og í öðrum sjávar-
byggðum. „Okkur vantar meiri fjölbreytni,“ seg-
ir hann.
Bæjarstjórinn óttast ekki að erfitt verði að fá
fólk til starfa. Hann segir að talsvert af nýju
fólki muni flytjast á svæðið þegar verksmiðjan
taki til starfa.
„Hún mun einnig skipta miklu máli fyrir
Fljótsdalshérað sem hefur átt í vandræðum frá
því kreppan skall á. Fólk þaðan myndi eiga kost
á vinnu,“ segir Ólafur.
Undirbúa verksmiðju til
að framleiða álstrengi
Hundrað manns fá vinnu á Seyðisfirði ef hugmyndin verður að veruleika
Verksmiðja við bæjardyrnar Seyðisfjarðarkaupstaður hefur tekið frá lóð undir álstrengjaverksmiðju,
við innkeyrsluna til bæjarins. Hugsanleg verksmiðjuhús hafa verið teiknuð inn á ljósmyndina.
12 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 2. FEBRÚAR 2010
Stoðtækjaframleiðandinn Össur hf.
hefur ákveðið að leggja sitt af
mörkum til hjálparstarfsins á Haítí
og aðstoða þá sem eiga um sárt að
binda eftir jarðskjálftann mikla
sem reið yfir landið 12. janúar sl.
Þannig mun Össur gefa vörur sem
læknar á Haítí hafa sérstaklega
óskað eftir til þess að hjálpa þeim
sem verst hafa orðið úti. Þar á með-
al eru gervilimir fyrir þá sem
misstu útlimi í jarðskjálftanum.
Össur vinnur að verkefninu í
samstarfi við Project Medishare
(www.projectmedishare.org) sem
eru ein fárra samtaka sem fá að
hafa beinan aðgang að flugvell-
inum í Port-au-Prince, höfuðborg
landsins.
Reuters
Hjálp Börn meðal þeirra sem misst
hafa útlimi í skjálftunum á Haítí.
Össur hf. og Haítí
BARNAHEILL, Save the Children,
á Íslandi standa fyrir stuttri sam-
verustund hjá minnismerkinu Rós-
inni við Þvottalaugarnar í Laugar-
dal í dag kl. 12.00. Stundin er
tileinkuð þeim börnum sem hafa
látist eða eiga um sárt að binda
vegna jarðskjálftanna á Haítí.
Rósin er alþjóðlegt minnismerki
óþekkta barnsins um von og trú. Í
samverustundinni syngur kór
Laugarnesskóla, forsvarsmenn
Barnaheilla flytja stutt ávörp og
barn segir reynslusögu barns á
Haítí.
Samverustundin er öllum opin.
Barna á Haítí
minnst við Rósina
MENNTARÁÐ og leikskólaráð
Reykjavíkurborgar hafa samþykkt
að nýr skóli í Úlfarsárdal skuli
rúma allt skólastarf fyrir börn á
aldrinum eins til tólf ára; leikskóla,
grunnskóla og frístundaheimili.
Með þessu fyrirkomulagi verður
aukin nýbreytni og sveigjanleiki í
skólastarfi og komið í framkvæmd
stefnu borgarinnar um heildstæðan
skóladag og samfellu í starfsdegi
barna. Stefnt er að því að samfella
verði í skipulagi og starfsháttum og
að allir aldurshópar vinni saman.
Nýi skólinn mun taka til starfa
haustið 2010. Þá verða í skólanum
börn til og með 5. bekk grunnskóla.
Síðan bætist við einn árgangur á
hverju ári.
Leik- og grunnskóli
undir sama þaki
BESTI flokkur-
inn hefur opnað
nýja heimasíðu.
Besti flokkurinn
er stjórnmála-
flokkur sem hef-
ur það eitt að
markmiði að
koma formanni
flokksins, Jóni
Gnarr, í vel laun-
að og þægilegt embætti þar sem
hann fær aðstoðarmann og völd til
að hjálpa fjölskyldu sinni, vinum og
stuðningsfólki. Til þess að ná þessu
markmiði beitir flokkurinn blekk-
ingum og innihaldslausum lof-
orðum, segir í fréttatilkynningu.
Þeim sem vilja eiga lýðræðislegt
stefnumót við framtíðina er bent á
nýja heimasíðu flokksins,
www.bestiflokkurinn.is.
Ný heimasíða
Besta flokksins
Jón Gnarr
STUTT