Monitor - 31.03.2011, Blaðsíða 7

Monitor - 31.03.2011, Blaðsíða 7
SKAPARAR VERKSINS GIBBLA SEM FRUMSÝNT VERÐUR UM HELGINA 7FIMMTUDAGUR 31. MARS 2011 Monitor Íslenski danshópurinn Darí Darí frumsýnir um helgina nýtt íslenskt dansverk sem ber nafnið Gibbla. „Þetta er í rauninni frumsýning á þremur verkum í einu,“ útskýrir Inga Maren Rúnarsdóttir, einn af meðlimum Darí Darí sem skipað er henni, Guðrúnu Óskarsdóttur og Kötlu Þórarinsdóttur. „Gibbla er dansverk, tónlistarverk og myndverk svo allir ættu að geta fundið í því eitthvað við sitt hæfi,“ bendir Inga á en tónlistin er samin af Lydíu Grétarsdóttur og myndverk er eftir Þóru Hilmarsdóttur. Þurfa að vera útsjónarsamar Darí Darí hefur unnið lengi að verkinu sem er þó byggt á fyrra verki þeirra sem var sýnt í grunnskólum árið 2008. „Í rauninni unnum við þetta frá grunni aftur þó við notum eitthvað úr upprunalega verkinu,“ útskýrir hún og bendir á að þá hafi verkið einungis verið dans. Hún segir verkið í núverandi mynd hafa verið lengi í vinnslu. „Við byrjuðum að ræða hugmyndirnar síðasta sumar svo ferlið hefur verið svipað langt og venjuleg meðganga,“ segir hún hlæjandi og bætir við að síðastliðnir tveir mánuðir hafi verið sérstaklega stífir. „Síðustu tvo mánuði höfum við verið saman á hverjum degi að vinna að verkinu,“ útskýrir Inga Maren og segir vinnslu myndbandsins hafa verið heljarinnar átak. „Við unnum langt fram á nótt í heila viku til að þurfa að leigja tækjabúnaðinn í skamman tíma,“ segir hún og bætir við að uppsetning á svona sýningu sé virkilega kostnaðarsöm. „Við fengum listamannalaun til að vinna verkið en enga aðra styrki svo við þurftum að vera mjög útsjónarsamar.“ Lifa á dansinum Inga Maren, Guðrún og Katla starfa allar sem atvinnudansarar en Inga Maren segir oft geta verið mjög erfitt að lifa á dansinum einum saman. „Ég held að flestir í þessum bransa flakki mikið á milli verkefna og þurfi að kenna með,“ segir Inga Maren sem er sjálf á leiðinni til Bandaríkjanna í vor að sýna með dansflokki þar. „Það eru engir geðveikir möguleikar á háum launum sem dansari svo maður er ekki í þessu út af peningunum.“ Lífsþræðir og örlaganornir Gibbla sækir innblástur í örlaganornirnar Urði, Verðandi og Skuld en Inga Maren segir þær stöllur ekki hafa viljað kafa of djúpt í viðfangsefnið. „Við ákváðum að hafa þetta einfalt og vinna með örlaganornirnar og sérstaklega lífsþræðina sem þær spinna,“ útskýrir hún og bendir á að verkið sé örlítið dramatískt á köflum. Gibbla verður frumsýnt þann 1. apríl í Tjarnarbíói og sýnt þar áfram. „Draumurinn væri auðvitað að sýna verkið erlendis svo vonandi fær það góðar viðtökur,“ segir Inga Maren spennt fyrir fæðingunni eftir langan og strangan undirbúning. GIBBLA SÝNINGAR: Föstudaginn 1. apríl Sunnudaginn 3. apríl Miðvikudaginn 6. apríl Sunnudaginn 10. apríl Nánari upplýsingar á Tjarnarbio.is. Darí Darí frumsýnir verkið Gibbla um helgina. Monitor ræddi við Ingu Maren Rúnarsdóttur, dansara og danshöfund, um verkið og dansbransann á Íslandi. Eins og venjuleg meðganga Myndir/Árni Sæberg Við lánumþér ekki fyrir tískuvikunni í NewYork

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.