Monitor - 31.03.2011, Blaðsíða 12

Monitor - 31.03.2011, Blaðsíða 12
12 Monitor FIMMTUDAGUR 31. MARS 2011 Fyrir áratug var Sauðkræklingurinn Auðunn Blöndal að telja skrúfur á lagernum hjá Würth og keyrði um á rauðum Hyundai Coupe. Eftir að honum tókst að „væla sig“ inn á PoppTíví fór boltinn að rúlla og 70 mínútur, Strákarnir, Tekinn, Typpatal, Svínasúpan, Atvinnumennirnir okkar og Auddi og Sveppi eru á meðal þess sem hefur bæst á ferilskrána. Nú er á teikniborðinu hjá Audda að gera kvikmynd upp úr trailernum Leynilögga sem sló í gegn á dögunum. „Ég hef alltaf verið hálfgerður aumingi og mömmustrákur,“ segir Auddi sem hefur húmor fyrir sjálfum sér en gerir flest annað en að leggja í einelti. Byrjum á byrjuninni. Þú samdir textann við lagið Án þín sem samsveitungur þinn frá Sauðárkróki, Sverrir Bergmann, sigraði Söngkeppni framhaldsskóla með um aldamótin. Kunnugir segja að þú hafir verið einstaklega stoltur af textanum. Er það rétt og ertu jafnstoltur af honum í dag? Já, eins asnalegt og það er að segja það þá er ég alveg stoltur af honum. Ég reyndar monta mig ekki jafnmikið af honum í dag og ég gerði fyrir tíu árum, en maður er alveg stoltur af þessum texta þó að það sé ein og ein lína þarna sem að hefði mátt fara öðruvísi. Ég skæri mér hjartað úr með skeið... Það er tekið úr myndinni Hrói höttur. Þar var einhver svo reiður að hann vildi láta skera hjartað úr gæja með skeið. Við vorum nýbúnir að horfa á Hróa hött og þannig kom þessi lína. Félagi okkar, Árni Þóroddur, hafði öskrað þetta á stelpu eftir ball í Miðgarði. Að hann væri svo ástfanginn af henni að hann myndi skera úr sér hjartað með skeið bara fyrir að fá að tala við hana. Við grenjuðum úr hlátri og þetta fór í textann. Ég auðvitað vissi ekki þá að þetta yrði spilað út um allt og það kannski föttuðu ekki allir húmorinn. Hvernig týpa varstu á menntaskólaárunum á Sauðárkróki? Ég var bara svona íþróttalúði og var mikið í körfubolta og fótbolta. Svo var gert mikið grín að mér þegar ég keypti mér rauðan Hyundai Coupe og menn töluðu um að ég keyrði um á notuðu dömubindi. Ég fékk að heyra það aðeins fyrir það. Amma greyið var líka alltaf að fá einhverjar nótur því ég skrifaði bílinn á hana. Hvenær fluttir þú í bæinn og hvað fórstu að gera? Ég flutti í bæinn tvítugur og fór að vinna á lagernum í Würth. Ég hálfskammaðist mín fyrir að vera að vinna þar, sem mér finnst sorglegt að hugsa til í dag því það er auðvitað bara gott hjá fólki að vera í vinnu. En þarna voru allir vinir mínir komnir í háskólann á meðan ég var á rauðum Hyundai Coupe í Würth að telja skrúfur. Ég var alltaf að segja öllum að ég væri að fara að gera eitthvað annað en það gerðist ekki neitt. Svo loksins eftir tvö ár var ég búinn að væla nóg í Simma (Vilhjálmssyni) um að fá að leika í falinni myndavél hjá þeim og þannig byrjaði PoppTíví-dæmið. Hvernig kynntist þú Simma og félögum og komst inn á PoppTíví? Ég var bara að væla í Simma á djamminu. Ég þekkti engan af þeim en sagði við hann að ég gæti hjálpað og svona. Ég var búinn að sækja um sex eða sjö sinnum og þeir voru eiginlega bara orðnir þreyttir á að ég væri alltaf að hanga þarna og betla í þeim þannig að þeir gáfu mér séns. Það gekk vel og svo fór boltinn að rúlla. Lendir þú sjálfur í dag í gæjum sem eru eins og þú varst þá? Já, ég kvarta ekkert yfir því. Ef fólk er að koma með hugmyndir og annað á djamminu þá hef ég nú alltaf hlustað á það, hvort sem það verður eitthvað úr því eða ekki. Við höfum líka gefið fullt af strákum séns. Við reyndum að vera með „Leitina“ sem gekk reyndar ekkert alltof vel, en við höfum líka tekið menn inn í þættina og gefið þeim séns. Ef þú værir að flytja á mölina í dag, myndir þú sækja um vinnu hjá Simma og Jóa á Fabrikkunni? Ég viðurkenni það og myndi finnast það töff. Sagan segir að þegar þú fluttir fyrst í bæinn hafir þú sent þvottinn þinn norður til þess að láta mömmu þína þvo af þér. Já, ég er aumingi og hef alltaf verið, það er bara þannig. Ég sendi henni þvottinn. Ég er reyndar byrjaður að þvo af mér í dag. Skrýtið að maður skuli segja það og vera stoltur af því. En ég hef alltaf verið hálfgerður aumingi og mömmustrákur í mér. Ég held hún hafi bara dekrað aðeins of mikið við mig. Ekki endilega fjárhagslega en á allan annan hátt. Ef við víkjum til dagsins í dag. Hvað finnst þér um viðbrögðin við síðasta þætti ykkar Sveppa, þegar þið fenguð Einar Bárðarson til ykkar, og ásakanir um að þið séuð að hvetja til eineltis? Ég er sammála Einari með að við höfum farið yfir strikið og margt af því sem við sögðum og gerðum var ekki sniðugt. En það var ekki gert í slæmri meiningu. Hvorki ég né Sveppi myndi nokkurn tímann hvetja til eineltis, það er bara ekki séns. Ég gerðist því miður svo ljótur að leggja annan strák í einelti þegar ég var yngri. Ég hef alltaf séð eftir því og hringdi í hann fyrir fimm árum og bað hann innilegrar afsökunar, sem hann kunni að meta. Ég hef alltaf verið á móti einelti og hef meira að segja farið og haldið fyrirlestra í skólum. Vissulega erum við Sveppi mikið að stríða hvor öðrum í þættinum okkar. Einar Bárðar er að grenna sig fyrir framan alþjóð og okkur kannski fannst við hafa of mikið skotleyfi á hann. Það var rangt af okkur. Við þekkjum hann vel og erum búnir að hitta hann í dag og allt í góðu. Það sem mér finnst leiðinlegast er að það á enginn að koma til okkar sem gestur og þurfa að sjá eftir því eða líða illa með það þegar hann horfir á þátt- inn. Ég fékk mestan bömmer yfir því og svo náttúrulega ef fólk heldur að við séum að hvetja til eineltis. Það er algjört rugl. Umboðsmaður barna hefur líka kvartað undan ykkur. Eruð þið að misstíga ykkur svona oft eða er fólk að misskilja tilgang þáttarins? Eftir öll þessi ár þá koma auðvitað upp móment þar sem við misstígum okkur. En það er aldrei gert viljandi. Við erum ekki að fá Einar Bárðarson í þáttinn til þess að kalla hann feitabollu og gera grín að honum fyrir að vera að berjast við aukakílóin. Þetta bara æxlaðist þannig klukkan fimm um morguninn. Við meinum vel þó að það séu sumir þarna úti sem haldi annað. Fyrst og fremst erum við að reyna að skemmta fólki. Varstu algjör skíthæll þegar þú varst í mennta- skóla? Ekki í menntaskóla. Ég tók sem betur fer þroskakipp á einhverjum tímapunkti og fór að haga mér eins og maður. En ég var leiðinlegur krakki. Ég var hávær og hlaupandi um á typpinu og svona. Hvað fannst þér um að hlust- endur X-ins skyldu velja þig óviðkunnanlegasta celebið á dögunum? Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá fannst mér leiðinlegt að heyra það. Ég held að það myndi öllum finnast það leiðinlegt. En ég er ekki sammála því að ég sé ókurteis eins og einhverjir sögðu. Ég hef alltaf gætt að því að vera al- mennilegur við fólk. En þetta var nú ekkert sem ég var að hugsa meira út í. Sveppi sagði að þetta væru fordómar því þú værir svo sætur. Ég veit nú ekki með það, en það er fallegt af honum að segja það. Ætlið þið að gera aðra þáttaröð af Audda og Sveppa eftir að þessari lýkur? Nei, það var ákveðið fyrir nokkru síðan að leggja þáttinn á hilluna eftir að þessi þáttaröð klárast í byrjun sumars. Þetta var lítið verkefni sem við áttum að fara í á meðan við vorum að finna annað en svo er þetta búið að vera í gangi núna í meira en tvö ár. Þetta er búið að vera gaman en við finnum báðir að okkur langar að taka að okkur ný og spennandi verkefni sem við getum lagt aðeins meiri vinnu í. Við komum líklega með eitthvað nýtt í sitt hvoru lagi næsta haust. Trailerinn Leynilögga vakti heldur betur athygli. Nú er orðrómur um að það standi til að gera alvöru bíómynd upp úr honum. Það er stór pæling í gangi. Boltinn er byrjaður að rúlla en það er allt á byrj- unarstigi. Það ætti ekki að koma á óvart Texti: Björn Bragi Arnarsson bjornbragi@monitor.is Myndir: Sigurgeir Sigurðsson sigurgeir@mbl.is Alltaf verið mömmustrákur Auðunn Blöndal um væntanlegu kvikmyndina Leynilögga, brotthvarf Audda og Sveppa af skjánum, einelti, fyndni, Sauðárkrók og hattapokann sem er ekki heilagur. AUDDI Á 70 SEKÚNDUM Uppáhaldsviðmælandi? Útlenskur er Jamie Foxx, mér fannst geggjað að taka viðtal við hann. Ætli íslenski sé ekki Óli Stef. Uppáhaldslyftingaæfing? Bekkpress- an. Uppáhaldsstaður í heiminum? Skagafjörður. Það versta við Sauðárkrók? Lítill bær og baktal. Tindastóll eða Manchester United? Úff, ég verð að segja Manchester United. Fyndnasti maður sem þú hefur hitt? Pétur Jóhann Sigfússon. Mesta ógeð sem þú hefur drukkið í ógeðsdrykk? Fish Sauce. Það er algjör viðbjóður. Ég held hún sé sett í mat til þess að skemma hann. Það og lýsi. Undir lokin vorum við búnir að finna léttu leiðina að því að gera ógeðsdrykk. Ef þú settir Fish Sauce og lýsi þá varð allt ógeðslegt. Friðrik Dór, Friðrik Þór eða Hannes Þór? Frikki Dór er eiginlega sá viðmælandi sem hefur komið mér mest á óvart síðustu ár og Hannes er auðvitað snillingur. Eigum við ekki að segja að Frikki sjái um tónlistina, Hannes leikstýri og við Friðrik Þór förum á barinn. Auðunn Jónsson kraftajötunn eða Auðun Helgason knattspyrnumaður? Best of both worlds bara. Hraðann eða lífið? Lífið. Ég er reyndar byrjaður að þvo af mér í dag. Skrýtið að maður skuli segja það og vera stoltur af því.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.