Morgunblaðið - 28.04.2010, Page 4
4
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 28. APRÍL 2010
Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
„Túristagos“ Arcanum fór margar ferðir með ferðafólk að eldgosinu á
Fimmvörðuhálsi. Gamanið kárnaði þegar jökullinn byrjaði að gjósa.
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
„ÞAÐ er allt stopp hjá okkur, út af
ösku á jöklinum,“ segir Benedikt
Bragason sem rekur ferðaþjón-
ustuna Arcanum í Sólheimakoti í
Mýrdal. Hann sér ekki fram á að
geta notað dýran útbúnað sinn til
vélsleðaferða á Mýrdalsjökul í sum-
ar. Sigurður Baldvinsson, sem býður
upp á hundasleðaferðir á Mýrdals-
jökul, er að meta stöðuna. Hans fyr-
irtæki hefur einnig verið í lamasessi
frá því askan fór að falla.
Mikið var að gera hjá ferðaþjón-
ustunni Arcanum eftir að gosið hófst
á Fimmvörðuhálsi enda var gott að
fara á vélsleðum til að skoða eldstöð-
ina. Benedikt segir að askan hafi
fljótlega farið að valda vandræðum
og þegar gos hófst í Eyjafjallajökli
og aska féll í nágrenninu hafi alveg
lokast fyrir alla möguleika.
„Sleðarnir þola ekki öskuna. Skíð-
in slitna og búnaðurinn eyðileggst.
Það þýðir ekkert að reyna,“ segir
Benedikt.
Arcanum hefur fjárfest mikið í
vélsleðum og ýmsum búnaði sem
þarf í slíkt úthald og sér ekki fram á
að fá neinar tekjur í sumar, á aðal-
ferðamannatímanum. „Við getum
kannski farið að huga að þessu eftir
næsta vetur, athuga með að setja
aftur í gang. Þá verðum við á byrj-
unarreit. Við þurfum að hefja mark-
aðssetningu upp á nýtt því væntan-
lega töpum við viðskiptavinum okkar
þegar ekki er hægt að bjóða ferðir,“
segir Benedikt.
Alltaf einhver leið
Arcanum hugar að því að bjóða
upp á jeppaferðir til að skoða gosið
en segir að til þess þurfi mikla fjár-
festingu til viðbótar. „Eitthvað þarf
maður að hafa að gera en það bjarg-
ar ekki afborgunum af sleðunum,“
segir Benedikt.
„Það finnst alltaf einhver leið til að
gera eitthvað úr þessu, það er bara
spurning um hvar og hvernig,“ segir
Sigurður Baldvinsson sem rekur
ferðaþjónustuna dogsledding.is.
Hann býður upp á hundasleðaferðir
á Mýrdalsjökul og þegar ekki er fært
þangað draga hundarnir hjólavagna
á Sólheimasandi.
Ekki er vitað hvaða áhrif askan
hefur á hundana og skíði sleðanna
þannig að Sigurður hefur ekki viljað
hreyfa sleðana frá því öskufallið
hófst. Hann á von á fólki um helgina
og ætlar að prófa að hreyfa hundana
einhvern næstu daga.
„Við verðum svo að sjá hvernig
jökullinn kemur undan vetri og
ösku,“ segir Sigurður og segir koma
til greina að fara með úthaldið annað
ef ekki verði fært á Mýrdalsjökli og
söndunum fyrir ösku.
Aska lamar ferðaþjónustu á jökli
Eigandi ferðaþjónustunnar Arcanum sér ekki möguleika á að bjóða vélsleðaferðir á Mýrdalsjökul
í sumar Hundasleðaferðirnar hafa einnig legið niðri en eigandinn hugar að öðrum möguleikum
Morgunblaðið/RAX
Hreinsun Öskunni sem mokað var frá Þorvaldseyri og Önundarhorni var sturtað í Svaðbælisá. Aska sem fallið hefur síðustu daga fauk um sveitirnar í gær.
Eftir Egil Ólafsson
egol@mbl.is
„MAÐUR verður aðeins að sjá til
hvað eldfjallið gerir,“ segir Sigurður
Þór Þórhallsson, bóndi á Önundar-
horni, þegar hann er spurður hvern-
ig verði með hefðbundin vorverk á
Önundarhorni. Sigurður var í allan
gærdag að keyra leir og ösku úr
skurðum við bæinn. Hluti túnskurða
við Önundarhorn hálffylltust af leir
þegar hlaup kom í Svaðbælisá dag-
inn sem eldgos hófst í Eyjafjalla-
jökli.
Um 58 hektarar af um 100 hektara
túnum á Öndunarhorni skemmdust í
hlaupinu. Til viðbótar féll mikil aska
á túnin fyrstu dagana eftir að gosið
hófst.
Í dag koma menn með fjóra
sturtuvagna úr Árnessýslu til að
hjálpa til við hreinsun á Önundar-
horni. Stór hluti túnanna er það illa
farinn að ekki er um annað að ræða
en að plægja þau og endurrækta.
Um helgina komu sjálfboðaliðar til
að aðstoða við hreinsun í kringum
bæinn á Öndunarhorni. Um sex
sturtuvagnar af ösku voru mokaðir
upp úr garðinum í kringum bæinn og
er þó hreinsun ekki að fullu lokið.
Paula Kristín húsfreyja sagði mik-
inn mun að losna við öskuna við bæ-
inn. Búið væri að vinna mikið og gott
hreinsunarstarf þó mikið væri enn
ógert.
Sigurður sagði að hann ætlaði sér
að hreinsa ösku í kringum bæinn og
af túnum og upp úr skurðum. Síðan
þyrfti hann að meta stöðuna, m.a.
með tilliti til þess hvernig gosið þró-
aðist.
Hann þyrfti að vera búinn að taka
ákvörðun fyrir 20. maí um hvað hann
legði í mikinn kostnað við grasrækt-
un í sumar. Það væri erfitt að eyða
miklum tíma og fjármagni í ræktun
ef það skilaði ekki árangri vegna
öskunnar.
Aðrir bændur sem rætt var við
undir Eyjafjöllum í gær höfðu sömu
sögu að segja. Það væri of snemmt að
segja til um hvernig heyskapur yrði í
sveitinni í sumar. Menn einbeittu sér
að hreinsunarstarfinu og ætluðu síð-
an að sjá til hvernig gosið þróaðist og
hvernig grösin brygðust við öskunni.
Aka ösku frá bæjunum
Bændur undir Eyjafjöllum kepptust við í gær að moka ösku frá bæjum sínum
Menn treysta sér ekki til að svara því hvernig staðið verður að heyöflun í sumar
EKKI liggur fyr-
ir hversu mikla
fjármuni Bjarg-
ráðasjóður hefur
til ráðstöfunar til
að bæta tjón sem
bændur undir
Eyjafjöllum hafa
orðið fyrir. Þetta
segir Árni Snæ-
björnsson, fram-
kvæmdastjóri
Bjargráðasjóðs. Unnið er að því að
meta tjónið en óvissuþættir í því mati
eru margir.
Árni átti fund með bændum undir
Eyjafjöllum í gær. Hann fór þar yfir
hlutverk Bjargráðasjóðs og hver
yrðu næstu skref sjóðsins, en rík-
isstjórnin hefur lýst því yfir að fjár-
magn verði sett í sjóðinn til að bæta
bændum tjón sem þeir hafa orðið
fyrir vegna eldgossins í Eyja-
fjallajökli.
Samkvæmt lögum á Bjargráða-
sjóður að bæta tjón bænda sem aðrir
bæta ekki. Sjóðurinn á að bæta tjón á
ræktuðu landi, uppskeru, girðingum,
skurðum og túnvegum.
Árni hefur verið að skoða tjón á
bæjum undir Eyjafjöllum. Hann seg-
ist ekki treysta sér til að svara því
hversu tjónið sé mikið. Menn viti
ekki hversu mikil uppskera verði á
túnum þar sem aska hefur fallið.
Eins sé óljóst hvort meiri aska muni
falla á næstu vikum. Tjón bænda sé
því ekki enn komið fram að fullu.
Heildarframlagið óákveðið
Árni segist því ekki hafa getað
svarað bændum hversu mikið verði
bætt eða hversu mikla peninga
Bjargráðasjóður komi til með að hafa
til ráðstöfunar. Stjórnvöld hafi viljað
fá eitthvert mat á hugsanlegu tjóni
áður en ákvörðun verði tekin um
hversu stórt framlag sjóðurinn fengi.
Fundað verði í landbúnaðarráðu-
neytinu um málið næstu daga.
Árni segist vera sæmilega bjart-
sýnn á að túnin undir Eyjafjöllum
muni gefa af sér uppskeru í sumar.
Hann segir að það verði hins vegar
að vera ákvörðun bændanna sjálfra
hvernig þeir haga málum, þ.e.a.s.
hvaða tún þeir taki til endurrækt-
unar og hvort einhver tún verði alveg
hvíld í sumar. Hann segir greinilegt
að bændur séu ekki tilbúnir á þessari
stundu til að taka ákvörðun um
næstu skref. Þeir þurfi fyrst að sjá
hvernig gosið þróist. egol@mbl.is
Ekki búið
að meta
tjón bænda
Bjargráðasjóður
fundaði með bændum
Árni
Snæbjörnsson
Páll Eggert Ólafsson, bóndi á Þorvaldseyri, var bú-
inn að moka um 30 vögnum af ösku af hlaðinu á Þor-
valdseyri í gær. Hann sagðist halda að hann væri
ekki hálfnaður með þetta verkefni. Öskuna keyrði
hann á sturtuvagni niður að Svaðbælisá, en hlaupið í
ánni olli talsverðu tjóni á bænum. Hitaveitan
skemmdist og einhverjar skemmdir urðu á kalda-
vatnslögn og rafmagnslögn frá heimarafstöð.
Í gær var einnig unnið við lagfæringar á varnar-
görðum við Svaðbælisá, en þeir skemmdust í flóðinu.
Hætt er við frekari tjóni á túnum ef ekki verður gert
við garðana. Sjóður á vegum Landgræðslunnar, sem
ætlaður er til að fjármagna endurbætur á varnar-
görðum á landi, mun taka þátt í kostnaði við lagfær-
ingarnar.
Hlíðarnar fyrir ofan bæina undir Eyjafjöllum eru
áberandi svartar og greinilegt að þar er mikil aska
sem hætt er við að fjúki niður í byggð í norðanáttum.
30 vagnar af ösku á hlaðinu á Þorvaldseyri og mikið eftir
Morgunblaðið/RAX
Hreinsun Páll Eggert Ólafsson bóndi á Þorvaldseyri.
Eldgosið í Eyjafjallajökli