Morgunblaðið - 25.06.2010, Blaðsíða 29
Minningar 29
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 25. JÚNÍ 2010
í raun aldrei verið til! Viðkoma í
Ketbúðinni Borg skylda, sviðak-
jammi, þorrabakki eða annað þjóð-
legt. Lakkrís í Iðunnarapóteki. Þá
gat leiðin allt eins legið í Kirkju-
lista- eða Lífstykkjabúðina, nú eða
Hattabúð Reykjavíkur að ræða
hattsaum og annað kruðerí sem
hver maður þarf að kunna skil á.
Ferðir víða um land til að halda
námskeið eða rannsaka mál gáfu
færi á endalausum pælingum. Þró-
un „geðsjárinnar“ var langt komin
og hefði sennilega valdið heims-
byltingu ef prósjektið hefði verið
markaðsett. Tengsl mánans við
sálina voru prófuð í þaula með
ströngustu aðferðum, aflagðar
tunglsýkiskenningar öðluðust nýtt
líf.
Þegar ég nú kveð Sæmund Haf-
steinsson er ég þess meðvitaður að
með honum kveð ég allt í senn ein-
stakan samferðamann, óvenju fjöl-
hæfan og hæfileikaríkan kollega
með glæstan feril, vinnufélaga og
mér kæran vin sem hafði áhrif á líf
mitt og starf. Missir þess fólks
sem honum stendur næst er mikill,
Auðar og barnanna, Ragnheiðar,
Braga og Tryggva. Skyldmennum
og samstarfsmönnum samhryggist
ég. Ég veit af reynslu að líf Sæ-
mundar og starf einkenndist af því
að efla og styrkja. Það mun minn-
ing um hann einnig gera.
Guðjón Bjarnason.
Bekkjarbróðir okkar og vinur,
Sæmundur Hafsteinsson, er allur.
Skæður sjúkdómur lagði hann að
velli á aðeins nokkrum mánuðum.
Það var erfið glíma og ójafn leikur.
Það er mikils virði að eignast
góða bekkjarfélaga og sú var gæfa
okkar fimmtán stráka í Q-bekkn-
um sem útskrifuðumst frá MR
vorið 1975. Við vorum minnsti
bekkurinn en sá skemmtilegasti að
eigin áliti.
Við höfum stundum sagt að
fyrstu dagarnir í 5. bekk hafi ekki
lofað góðu, við þekktumst margir
lítið og virtumst ólíkir. Þeim mun
skemmtilegri varð bekkurinn.
Sæmundur lýsti okkur eitt sinn
á þá leið að við hefðum verið hjart-
fólgnir skólabræður úr Q-deildinni
sem hefði verið lokuð deild. Það
var rétt hjá honum, þetta var lok-
uð deild sem stóð þétt saman í
blíðu og stríðu – ekki síst þegar
við töldum réttlætinu ekki full-
nægt.
Það var eitthvað í fasi Sæma
sem varð til þess að hann fékk at-
hygli án þess að sækjast eftir
henni. Hann var utan af landi, frá
Siglufirði, og leigði í bænum. Hann
var sjálfstæður; stundaði sjó-
mennsku á sumrin og vakti athygli
okkar fyrir að vera vel lesinn í
bókmenntum. Hann var hægur, ró-
legur en beinskeyttur. Hann talaði
yfirvegað en tæpitungulaust og
kímnin fólst í að skjóta inn meitl-
uðum setningum á réttum stað.
Það verður seint sagt um Sæma
að hann hafi verið stundvís á
morgnana í menntó. Augnaráð
Jóns Gúm, þegar hann hélt á
kladdanum og leit á autt sætið í
horninu, bar þess merki. En Jón
vissi sem var, að það liðu ekki
margar mínútur þangað til dyrnar
yrðu opnaðar og sest í sætið.
Þegar stúdentatal MR 1975,
Fauna, var endurútgefið fyrir tíu
árum, skrifaði Sæmi m.a. á þessa
leið um eftirminnileg atvik úr skól-
anum: „Dásamlegar löngufrímínút-
ur á veitingastaðnum „Prikinu“ yf-
ir kaffibolla og sandköku – og
innan um fjölbreytileika mannlífs-
ins eins og hann gerist skrautleg-
astur.“
Fjölbreytilegt mannlíf varð hans
vettvangur í lífinu. Eftir stúdents-
próf fór hann í sálfræði, þar fann
hann sína fjöl og varð einn kunn-
asti sálfræðingur landsins.
Þegar við tíu félagar úr Q-
bekknum heimsóttum Sæma á
líknardeild Landspítalans í Kópa-
vogi fyrir rúmum hálfum mánuði
ræddum við gamla góða daga úr
skólanum, ógleymanlega kennara
og hvað við brölluðum saman á
þessum árum. Það var mjög af
Sæma dregið; hann hlustaði og
hló; og spjallaði eftir bestu getu.
Við kvöddum hann og teknar voru
myndir af hópnum – næstum upp
á dag 35 árum eftir að við veif-
uðum stúdentshúfum í Lækjar-
götunni á leið út í lífið.
Það er komið að skilnaðar-
stundu. Hugur okkar er hjá Auði
og börnunum. Mikið er á hana
lagt; hún missti föður sinn, séra
Braga Friðriksson, fáeinum vik-
um áður en Sæmi sofnaði svefn-
inum langa. Við vottum henni og
öðrum vandamönnum samúð okk-
ar og kveðjum kæran skólabróð-
ur.
Fyrir hönd bekkjarbræðra í
6-Q 1975,
Jón G. Hauksson.
Í dag kveð ég Sæmund Haf-
steinsson sálfræðing, sem var í
senn samstarfsfélagi og besti vin-
ur minn í þrjátíu ár. Leiðir okkar
lágu fyrst saman í Háskóla Ís-
lands, þar sem við lögðum báðir
stund á nám í sálfræði. Við náðum
strax vel saman, þó að við værum
að mörgu leyti ólíkir. Við áttuðum
okkur fljótlega á því að við höfð-
um mjög svipaða sýn á lífið og til-
veruna. Að loknu BA-námi héld-
um við hvor í sína áttina til að
læra meira, þroskast og víkka
sjóndeildarhringinn. Sæmundur
greindist með illvígan sjúkdóm í
kringum síðustu verslunarmanna-
helgi og ljóst var frá upphafi að
um ójafnan leik var að ræða. Þeg-
ar ég spurði Sæmund hvernig það
væri að takast á við þessi válegu
tíðindi komst hann strax að
kjarna málsins og svaraði á bein-
skeyttan hátt en því fylgdi einnig
æðruleysi: „Mér finnst þetta
skítt, en þetta er bara svona“.
Samstarf okkar hefur alla tíð ver-
ið afar farsælt og aldrei hefur
borið skugga á okkar vináttu. Við
héldum hundruð námskeiða um
margra ára skeið um flest sem
lýtur að mannlegum samskiptum,
sjálfstrausti, uppeldi og fjöl-
skyldumálum.
Við þekktum okkar mörk, bár-
um ómælda virðingu fyrir hvor
öðrum og vissum að við þurftum á
hvor öðrum að halda. Við skrif-
uðum nokkrar bækur saman og
ég man hversu stoltur hann var
þegar þær komu út og hversu vel
þeim var tekið. „Erum við búnir
að slá sölumet?“ var gjarnan
spurning sem ég fékk frá vini
mínum og gladdist hann mikið
þegar vel gekk og háleitum mark-
miðum var náð.
Lífsviðhorf Sæmundar ættu að
vera mörgum til eftirbreytni.
Hann trúði því að kærleikurinn
væri hið æðsta takmark. Það væri
sama hvert ferðinni væri heitið
eða hvert við værum að stefna þá
væri lífið innihaldslaust án kær-
leika. Sæmundur var í eðli sínu
hógvær og laus við alla frama-
girni, en allir sem áttu þess kost
að starfa með Sæmundi áttuðu sig
fljótt á því hversu eldklár hann
var og hversu fljótur hann var að
átta sig á kjarna málsins.
Sæmundur hafði einstaklega
góða nærveru, var hlýr og vin-
samlegur við alla og ég man ekki
eftir því að hafa heyrt hann hall-
mæla nokkrum manni.
Honum varð oft tíðrætt um
gamlar og góðar dyggðir eins og
hógværð, auðmýkt, glaðværð,
nægjusemi, samviskusemi og
heiðarleika.
Satt best að segja finnst mér að
þær hafi allar átt við hann og
hann náði því sem kannski fæst-
um okkar tekst, að lifa eftir þeim.
Umfram allt var Sæmundur
vinur minn þó einstaklega já-
kvæður persónuleiki, enda sagði
hann gjarnan að jákvæðni væri
alltaf skemmtilegri og þægilegri
valkostur en neikvæðni.
Fjölskyldan var Sæmundi afar
hugleikin og var hann afar ham-
ingjusamur með Auði sinni, sem
staðið hefur eins og klettur við
bakið á honum í hans veikindum.
Sömu sögu má segja um börnin
þrjú, Braga, Ragnheiði og
Tryggva sem hafa umlukið föður
sinn ást og umhyggju í veikindum
hans.
Lífið gefur og lífið tekur. Ég
kveð vin minn Sæmund með þakk-
læti fyrir allt og allt. Þín verður
sárt saknað.
Blessuð sé minning Sæmundar
Hafsteinssonar.
Jóhann Ingi Gunnarsson.
Kveðja frá samstarfsfólki
á Félagsþjónustunni
í Hafnarfirði
Minningar okkar um Sæmund
eru sveipaðar gleði og þakklæti.
Hann kom inn í líf okkar á Fé-
lagsþjónustunni í Hafnarfirði
snemma árs 2000 og tók við
stjórnun stofnunarinnar eftir
nokkurt erfiðleikatímabil hennar.
Okkur grunar að það hafi ekki
alltaf verið auðvelt en Sæmundi
leysti það vel af hendi og var lagið
að stjórna þannig að allir gengu
sáttir frá borði. Með honum kom
hressilegur blær og jákvæðni til
starfsins og starfsmanna.
Sæmundur var hár og mynd-
arlegur maður. Hann bar sig vel
og hafði mjög hlýja og góða nær-
veru. Það var tekið eftir honum
þegar hann gekk stórstígur eftir
Strandgötunni í Hafnarfirði á leið
sinni til fundar við stjórnendur
bæjarins, þá gustaði af honum.
Hann var elskulegur maður og
mikill sáttasemjari. Ekkert var
fjær Sæmundi en erjur manna á
milli og óþarfa ergelsi. Hann leit-
aðist við að leysa mál með öllum,
sem að því komu og hlusta á öll
sjónarmið og stjórnaði þannig fyr-
ir opnum tjöldum. Hann sýndi
starfsmönnum sínum traust í orði
og verki og hélt sér í hæversk-
legri fjarlægð. Sæmundur hafði
ástúð á íslensku máli og lagði
mikið upp úr fallega rituðum
texta. Hann var mikið náttúru-
barn og var hreykinn af að hafa
alist upp í íslensku sjávarplássi.
Hann var skemmtilegur maður,
fróður og vel lesinn og hafði oft
ljóð á hraðbergi og kunni þau
mörg. Hann var mikill trúmaður
þó hann flíkaði því ekki og er ekki
að efa að það var honum styrkur á
síðustu mánuðunum.
Sæmundur hafði mikinn áhuga
á þróun Félagsþjónustunnar og
tók virkan þátt í því starfi með
starfsmönnum sínum. Í skemmti-
ferðum okkar var hann var hrók-
ur alls fagnaðar og tók þátt af
áhuga og gleði. Hann var söng-
maður og hafði miklar mætur á
meistara Megasi svo dæmi sé tek-
ið. Hann lagði sannarlega sitt af
mörkum til að efla samkennd okk-
ar samstarfsmanna sinna.
Sæmundur var ekki margmáll
um einkahagi sína en þó leyndi
sér ekki að fjölskyldan var honum
mikils virði og hann var afskap-
lega hreykinn af henni. Kom enda
glöggt í ljós í veikindastríði Sæ-
mundar að Auður og börnin
þeirra þjöppuðu sér saman um
hann og gerðu allt sem í þeirra
valdi stóð til að létta honum byrð-
arnar. Hugur okkar er nú hjá fjöl-
skyldu Sæmundar, konu hans og
börnum, öldruðum föður og öðrum
aðstandendum hans á þessum erf-
iða tíma og við biðjum þeim Guðs
blessunar.
Við kveðjum nú með söknuði
vin og vinnufélaga í þakklæti fyrir
tíu ára samvinnu og vináttu sem
aldrei bar skugga á.
Kolbrún Oddbergsdóttir og
Guðríður Guðmundsdóttir.
Með örfáum orðum langar mig
fyrir hönd samtaka Vímulausrar
æsku að minnast Sæmundar okk-
ar sem lést langt fyrir aldur fram.
Sæmundur var einn af burðar-
ásunum í samtökunum því hann
hafði með ótakmarkaðri vinnu
sinni og eljusemi léð samtökunum
starfskrafta sína í tæp 20 ár. Öll
þau ár var hann mjög hliðhollur
samtökunum og gott var að leita
til hans með hvers konar hug-
myndir sem upp komu. Fyrst var
leitað til hans í kringum 1990 þeg-
ar samtökin voru að færa út kví-
arnar og kom hann að öflugum
námskeiðum til handa foreldrum
sem áttu börn í vanda eða vildu
styrkja sjálfa sig í uppeldi barna
sinna. Hann lagði mikla áherslu á
foreldraþáttinn í öllu starfi hjá
samtökunum en foreldrarnir eru
grunnurinn að góðu uppeldi og að-
búnaði barnanna.
Sæmundur var formaður sam-
takanna í nokkur ár og mótaði
stefnu fyrir samtökin sem enn eru
í gildi. Námskeið og efling ein-
staklingsins skipti hann miklu
máli og sett voru á laggirnar nám-
skeið fyrir foreldra sem kölluð
voru „öflugt sjálfstraust“ en með
þeim námskeiðum vildi hann efla
foreldra til að takast á við vanlíð-
an þegar þau áttu ungling í
neyslu. Unglingar og foreldrar
þeirra voru honum afar hugleikin
og liggja eftir hann ótal bækur og
greinar þess efnis. Má til að
mynda geta þess að bókinni
„Lengi muna börnin“ var dreift
inn á 30 þúsund heimili á sínum
tíma.
Sæmundur var einstaklega fag-
legur í verki, traustur og stað-
fastur. Einstaklega gott var að
vinna með honum og þau verk
sem hann tók sér fyrir hendur
vann hann vel og faglega í alla
staði. Samtökin leituðu mjög oft
til hans og var hann ávallt boðinn
og búinn til að veita ráð og leið-
beiningar á sinn rólega og yf-
irvegaða hátt. Eftir hann liggja
mörg verk sem nýtist íslensku
samfélagi áfram á sviði forvarna
og barnauppeldis. Einstaklega
góður maður er fallinn frá en
minningin um störf hans og verk
lifir áfram í samtökunum Vímu-
lausri æsku.
Ég vil fyrir hönd samtakanna
og stjórnar Vímulausrar æsku
votta aðstandendum hans alla
samúð okkar og biðja guð um að
veita þeim styrk á þessum erfiðu
tímum.
Fh. Vímulausrar æsku,
Ólöf Ásta Farestveit,
stjórnarformaður.
Sæmundur Hafsteinsson, sál-
fræðingur og forstöðumaður Fé-
lagsþjónustunnar í Hafnarfirði er
fallinn frá, langt um aldur fram.
Þegar ég tók við formennsku í
Fjölskylduráði Hafnarfjarðar, ár-
ið 2002, tókst strax með okkur
ágætt samstarf. Raunar hófust
kynni okkar nokkrum árum áður,
því Sæmundur var fenginn af yf-
irvöldum til að meta hæfi okkar
hjónanna til að ættleiða barn. Þá
þegar áttaði ég mig á því hve fær
Sæmundur var í sínu fagi, hve
næmur hann var á fólk og hvern
mann hann hafði að geyma. Sam-
antektin sem hann lagði fram eftir
nokkur samtöl, var bæði nákvæm
og raunsönn. Sömu eiginleikar
einkenndu störf hans hjá Fé-
lagsþjónustunni. Hann var fljótur
að átta sig á aðstæðum fólks og
andlegu ástandi. Þar kom áralöng
þjálfun vafalítið að gagni, en ekki
síður óvenjulegt innsæi.
Þessir eiginleikar gögnuðust
Sæmundi vel í starfi hans sem sál-
fræðingur, þar sem hann þurfti
oft að setja sig inn í erfiðar að-
stæður ókunnugs fólks á stuttum
tíma og finna leiðir til að hjálpa
því til að finna lausn á sínum
vanda. Viðfangsefnin voru honum
ekki vandamál, heldur leit að
lausn.
Fáum hef ég kynnst sem hafa
haft jafn mikla hæfileika til að
tala róandi til fólks í miklu ójafn-
vægi, hvort sem um var að ræða
hópa eða einstaklinga. Ég varð
nokkrum sinnum vitni að því þegar
Sæmundur var fenginn til að tala
við hópa sem höfðu orðið fyrir
áfalli, eða voru í uppnámi. Enn-
fremur varð ég oftar en einu sinni
vitni að samtölum við einstaklinga
sem voru reiðir eða í mikilli geðs-
hræringu. Á stuttum tíma tókst
honum að róa viðkomandi niður og
ná þannig sambandi við hann, að
hægt var að ræða málin af yfirveg-
un í framhaldinu. Þetta gat hann
jafnvel gert símleiðis. Sá sem varð
vitni að slíku samtali gat ekki ann-
að en dáðst að hæfileikanum – án
þess þó að geta skilgreint hvað
það var nákvæmlega sem gerði
það að verkum að viðkomandi ró-
aðist. Hann einfaldlega varð róleg-
ur af samskiptum við Sæmund.
Sæmundur var farsæll í störfum
sínum sem forstöðumaður Fé-
lagsþjónustunnar í Hafnarfirði.
Samskipti við hann voru áreynslu-
laus og uppbyggileg og hann hafði
jákvæð áhrif á umhverfið. Þau
áhrif lifa áfram með þeim sem
urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að fá
að starfa með Sæmundi og læra af
honum. Fjölskyldunni votta ég
innilega samúð vegna fráfalls
vandaðs og góðs drengs.
Guðmundur Rúnar Árnason.
Sæmundur Hafsteinsson, félagi
okkar og vinur, er látinn eftir erfið
veikindi. Sæmundur varð félagi í
Samtökum félagsmálstjóra á Ís-
landi fyrir rúmum 15 árum er
hann réðst til starfa sem félags-
málastjóri í Bessastaðahreppi, síð-
ar Sveitarfélagið Álftanes. Árið
2000 var hann ráðinn félagsmála-
stjóri í Hafnarfirði. Sæmundur sat
í stjórn samtakanna árin 2005–
2009, er hann lét af stjórnarsetu
að eigin ósk.
Sæmundur var góður félagi,
ráðagóður og einatt jákvæður í
allri nálgun. Viðhorf hans mótuð-
ust af virðingu, hvort sem var fyrir
notendum félagslegrar þjónustu,
samstarfsaðilum eða viðfangsefn-
um. Ekki var hann hávær á fund-
um okkar en orð hans höfðu því
meira vægi, enda var hann vitur
maður og menntur vel á okkar
fagsviði; nam félagsráðgjöf fyrst
og síðar sálarfræði og lét til sín
taka á því sviði, stundaði ritstörf,
hélt uppi námskeiðum og fræðslu
og var nafntogaður leiðbeinandi
áður en hann tók að sér manna-
forráð og stjórnun innan fé-
lagsþjónustunnar. Við félagar hans
höfum vissu fyrir því að hann var
farsæll í starfi sínu. Fráfall Sæ-
mundar er mikill missir samstarfs-
mönnum og okkur félögum hans.
Við söknum vinar í stað. En mest-
ur er þó missir konu hans og
barna, sem missa nú nákominn
öðru sinni á stuttum tíma, en
tengdafaðir Sæmundar var til
grafar borinn fyrir örfáum dögum.
Við vottum Sæmundi virðingu, ást-
vinum hans samúð okkar, sem og
samstarfsfólki hans í Hafnarfirði.
Við óskum og skjólstæðingum
hans að annar jafngóður maður
komi í manns stað þótt slíkur verði
vandfundinn.
F.h. Samtaka félagsmálastjóra á
Íslandi,
Gunnar M. Sandholt,
formaður.
✝
Minningarathöfn um elskulegan son okkar og
bróður,
LÁRUS HRAFN KVARAN
flugmann,
sem lést á Kirchberg sjúkrahúsinu í Lúxemborg
þann 5. júní, fer fram í Fríkirkjunni í
Reykjavík miðvikudaginn 30. júní kl. 14.00.
Blóm og kransar eru vinsamlegast afþakkaðir en
þeim sem vilja minnast hans er bent á Krabbameinsfélag Íslands.
Ragnar G. Kvaran, Hrefna Lárusdóttir Kvaran,
Anna Ragnhildur Kvaran
og fjölskylda Lárusar í Lúxemborg.