Morgunblaðið - 12.08.2010, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 12.08.2010, Blaðsíða 19
19 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 12. ÁGÚST 2010 Áfram Ísland! Þessir hressu strákar hvöttu sína menn í landsliðinu í fótbolta áfram á móti Liechtenstein í gærkvöldi. Engum sögum fer af því hvort þeir voru jafnkátir að leiknum loknum. Ómar Við hrun bankanna í byrj- un október 2008 lifnaði yfir pólitískri umræðu á Íslandi svo um munaði. Kallað var eftir gjörbreyttum stjórn- arháttum og jafnvel nýju lýðveldi. Minna fór fyrir greiningu á því sem úrskeið- is hafði farið og hvernig at- burðarásin tengdist stjórn- skipun Íslands en hugmynd um einhverskonar þjóðfund, þar sem ræða skyldi stjórn- arskrá lýðveldisins, fékk víða góðan hljóm- grunn. Þegar þetta er skrifað hafa lög verið samþykkt um að þjóðfundur skuli haldinn í byrjun vetrar og í framhaldi af honum verði kosið til stjórnlagaþings sem hafi með hönd- um endurskoðun stjórnarskrárinnar (Lög nr. 90 25. júní 2010). Á næstu vikum og mánuðum verður von- andi lífleg og umfram allt vönduð umræða um það sem betur má fara í stjórnskipun lýð- veldisins. Grein þessari er ætlað að vera inn- legg í þá umræðu og ábending um nokkur at- riði sem höfundur telur að vert sé að geta í þessu samhengi. Hugtakið stjórnarskrárfesta (e. con- stitutionalism) hefur hvorki fyrr né síðar ver- ið sérlega áberandi í íslenskri stjórnmála- umræðu. Ástæður þess eru eflaust margar, sú líklega veigamest að krafan um sérstaka íslenska stjórnarskrá og síðar stjórnarskráin sjálf var nýtt sem tæki í fullveldis- og sjálf- stæðisbaráttu Íslendinga fremur en til með- vitaðrar umræðu um og uppbyggingar valda- stofnana samfélagsins í anda stjórnarskrárfestunnar. Umræðan um gagn- gera endurskoðun stjórnarskrárinnar hófst til dæmis ekki fyrr en eftir að Þjóðverjar réðust inn í Danmörku í apríl 1940 og Íslend- ingar höfðu tekið æðstu stjórn ríkisins í eigin hendur. Hugmyndafræðilegur grundvöllur stjórn- arskrárfestunnar er oftast rakinn til kenn- inga Lockes, Rousseaus og Mon- tesquieus en framkvæmd hennar til stjórnarskrárgerðar Bandaríkja- manna og Frakka í lok átjándu ald- ar. Frá upphafi hefur stjórn- arskrárfestan þróast í tvær næsta ólíkar áttir sem kenna má við þjóð- irnar sem áttu frumkvæðið í þeim efnum. Á nítjándu öld reyndu margar Evrópuþjóðir að takmarka vald konunga með ákvæðum eigin stjórnarskrár (e. constitutional monarchy: á íslensku er talað um þingbundna konungsstjórn sem getur verið nokkuð misvísandi). Í gegnum tengslin við Danmörku fylgdi stjórn- arskrárþróunin á Íslandi að mestu hefð hins frjálslynda evrópska borgarasamfélags 19. aldarinnar. Eftir að konungar Vestur-Evrópu höfðu verið gerðir nær valdalausir á fyrstu áratug- um 20. aldarinnar með stjórnskipunar- ákvæðum viðkomandi ríkja breyttist staðan. Stjórnarskrárnar bundu ekki lengur hendur raunverulegra valdhafa umfram það sem stjórnarskrárbundin ákvæði um þingræði gerðu ráð fyrir, enda sóttu þeir umboð sitt til þjóðarinnar í frjálsum kosningum og voru þannig réttkjörnir fulltrúar lýðsins. Á fyrri hluta tuttugustu aldar urðu það svo örlög stjórnarskráa Vestur-Evrópuríkja að ýmist steinrenna í hlutverkaleysi sínu eða verða fórnarlömb ómarkvissrar tilraunastarf- semi þjóðþinga í stjórnskipunarmálum svo ekki sé talað um afleiðingarnar af valdatöku nasista í Þýskalandi. Það er svo með stofnun Þýska sambandslýðveldisins 1949 að lagður er grundvöllur að nýrri stefnu í evrópskri stjórnarskrárfestu með samþykkt Grundvall- arlaga lýðveldisins (das Grundgesetz). Þótt bæði fræðimenn og stjórnmálamenn á Vest- urlöndum bæru snemma lof á nýja stjórn- skipan í Þýska sambandslýðveldinu varð bið á að áhrifa hennar færi að gæta á stjórn- arskrármál ríkja vestan járntjaldsins. Það var ekki fyrr en á áttunda áratug síð- ustu aldar sem stjórnarskrárþróunin í Vest- ur-Evrópu tók við sér á nýjan leik. Þar fóru fyrir þjóðir Suður-Evrópu í viðleitni sinni til að koma á vestrænu lýðræði í löndum sínum (Grikkland, Spánn og Portúgal) eftir valdatíð her- og einræðisstjórna. Ekki má heldur líta framhjá áhrifum yfirþjóðlegra dómstóla á endurvakningu stjórnarskrárfestunnar í Evrópu. Síðast en ekki síst ber að nefna stjórnarfarsbyltinguna í Mið- og Austur- Evrópu á liðnum tveimur áratugum. Eftir hrun austantjaldskommúnismans kepptust fræðimenn við að lýsa Vesturlönd sigurveg- ara í þeirri hugmyndafræðilegu baráttu sem staðið hefur yfir frá því að Bolsévikar kom- ust til valda í Rússlandi árið 1917. Einhlít lýsing á sigurvegaranum hefur að vísu látið á sér standa en þegar reynt er að koma orðum yfir fyrirbærið heyrast oftast nefnd hugtökin vestrænt lýðræði og lögmál markaðarins. Ekki er jafn kunnugt að stjórnarskrárfestan hefur sýnt, svo ekki verður um villst, að hún er sá þáttur pólitískrar hugmyndafræði Vesturlanda sem nýtur almennastrar við- urkenningar þeirra sem staðið hafa í fylking- arbrjósti frjálsræðisaflanna í Rússlandi og fyrrverandi leppríkjum Sovétríkjanna. Með stofnun lýðveldisins Íslands kemst þjóðin fyrst fyrir alvöru á blað í stjórnskip- unarsögu Vesturlanda því aldrei hafði stjórn- skipun lýðfrjáls ríkis verið samþykkt með allsherjar atkvæðagreiðslu fyrr en á Íslandi dagana 20.-23. maí 1944. Þótt því sé gjarnan haldið fram að stjórnarskráin frá 1944 sé lít- ið breytt stjórnarskrá konungsríkisins Ís- lands þá yfirsést mörgum mikilvægi þeirra ákvæða lýðveldisstjórnarskrárinnar sem snúa að þjóðkjöri forseta (3. gr.) og mögu- leikum hins lýðræðislega kjörna þjóðhöfð- ingja til að vísa lagafrumvörpum til þjóð- aratkvæðagreiðslu (26. gr.). Þegar umræðan um gerð stjórnarskrárinnar er lesin má ljóst vera að með samkomulagi um þessi ákvæði stíga alþingismenn meðvituð skref í átt til virkrar stjórnarskrárfestu sem gerir ráð fyr- ir að valdastofnanir lýðveldisins veiti hver annarri aðhald. Á þeim tíma sem liðinn er frá lýðveld- isstofnun hafa verið gerðar töluverðar breyt- ingar á stjórnarskránni en þeirra langmerk- ust er endurskoðun mannréttindaákvæða hennar sem tók gildi árið 1995. Mikil um- ræða varð í þjóðfélaginu um frumvarpið þeg- ar það kom fram og sýndist sitt hverjum. Þrátt fyrir töluverða óánægju úti í samfélag- inu með framsetningu einstakra greina og fjarveru efnisþátta tókst að ná bærilegri og breiðri sátt um breytingarnar. Fullyrða má að endurskoðun mannréttindaákvæða stjórn- arskrárinnar hafi ásamt öðrum breytingum í samfélaginu stuðlað að aukinni umræðu um mannréttindamál og jákvæðri þróun á því sviði. Aðrar breytingar á stjórnarskránni svo sem sameining þingdeilda (1991) og stækkun kjördæma (1999) ollu ekki viðlíka við- brögðum í samfélaginu og fengu litla al- menna umræðu. Hvað sem öðru líður þá eigum við stjórn- arskrá sem ekki hefur verið sýnt fram á að hafi brugðist í þeim grundvallaratriðum sem hún tekur á þótt einhverju sé að sjálfsögðu við að bæta og ýmislegt megi til betri vegar færa. Því er mikilvægt að allar þær breyt- ingar sem hugsanlega verða gerðar á stjórn- arskránni á næstunni tengi íslenska stjórn- skipun enn frekar við hugmyndagrundvöll stjórnarskrárfestunnar. Það er þó ekki síður mikilvægt að okkur verði það ljóst í þeirri umræðu og umfjöllun sem verður á næstu misserum að við stöndum rótföst í stjórn- skipunarhefð vestrænna lýðræðisríkja. Eftir Ágúst Þór Árnason » Á næstu vikum og mán- uðum verður vonandi lífleg og umfram allt vönduð um- ræða um það sem betur má fara í stjórnskipun lýðveld- isins. Ágúst Þór Árnason Stjórnarskrárfesta og grundvöllur lýðveldisins Höfundur er kennari við lagadeild Háskólans á Akureyri.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.