Póstmannablaðið - 01.09.1985, Page 4
Guðmundur Albertsson
Fyrsta póstferð á bíl
milli Reykjavíkur og Akureyrar
Vorið 1983, voru liðin 50 ár frá því
að fyrsta póstferðin til Akureyrar var
farin alla lciðábíl. Áður var pósturinn
sendur um Borgarnes og þá aðeins til
Sauðárkróks, en nú var talið að fært
mundi vera fyrir Hvalfjörð. Ákveðið
var að fara eina ferð í viku, á þriðju-
dögum frá Reykjavík til Blönduóss
og á miðvikudögum áfram um Sauð-
árkrók til Akureyrar.
I. FYRSTA FERÐIN
Það mun hafa verið fyrsta þriðj udag
í júní, sem fyrsta ferðin hófst kl. 8 að
morgni. Nokkrir farþegar voru með,
ég man ekki hve margir, eða hverjir
það voru. Það var nokkuð seinfarið
fyrir Kollafjörð og um Kjalarnes, en
þó engar ófærur, mest melgötur og
ruðningar meðfram Esju. Fyrir innan
Eyrarkot fór ég ofan í fjöru, inn með
Laxárvogi voru tvær smávíkur, sem
urðu ófærar á stórstraumsflóði, en
það kom ekki að sök nú, síðan um
hlaðið á Laxanesi og mátti heita í
gegnum fjóshauginn. Laxá var farin á
vaði aðeins neðar en brúin er nú, upp
með túninu innanverðu á Neðra-
Hálsi, töluverð moldarbrekka var þar
upp og flughált í rigningu. Við vorum
50 km frá Reykjavík og liðnar tvær
klukkustundir. Nú sáum við langleið-
ina inn fyrir Hvalfjörð, Ferstikla beint
á móti hinum megin við fjörðinn. Þar
var ég búinn að panta miðdegisverð
og leiðin nú meira en hálfnuð þangað.
Síðan lá leiðin ofan af hálsinum og þá
framhjá Hvammi og Hvammsvík,
ofan í fjöru og svo fikrað sig upp
bratta sneiðinga uppfyrir Staupastein.
Nú var í fyrsta sinn farið út úr
bílnum til að rétta úr sér og hvíla
örlitla stund. Áfram fikruðum við
okkur inn þessa bröttu og seinförnu
leið ofan við túnið í Hvítanesi og upp
að túngarði á Fossá, ofaní gilið að
ánni, en nú var komið að slæmum
farartálma, snarbrattir klettar til
hægri handar, en mjó brú yfir ána í
vínkilbeygju, ekki sjáanleg leið að
snúa bílnum, en þó eftir margskonar
puð og pjakk, beygja handriðið út,
lyfta bílnum og færa hann örlítið til
ýmist að aftan eða framan, það
hafðist, bíllinn komst óskemmdur
yfir. Áfram að Brynjudalsá, yfir hana
meðfram stálstreng, sem strengdur
var þarna yfir, til að varna því að bílar
eða hestar færu í hyl, sem var ofan við
stálstrenginn, því sjór féll líka þarna
uppí, í stórstraumi og raunar þarna
víðar. Síðan inn með hlíðinni og fyrir
hinn raunverulega Hvalfjarðarbotn,
yfir Botnsá á Ieirum við fjarðarbotn-
inn, út með Þyrilshlíðinni neðan við
túnið á Þyrli aftur nokkuð upp að
brúnni yfir Bláskeggsá, líklega elstu
steinbrú á landinu. Það var ekki á að
lítast, brúin mjórri en breidd bílsins,
sögðu farþegarnir, en okkur lánaðist
að sveigja handriðið það mikið út, að
bíllinn skemmdist ekki af því, en þar
mátti ekki tæpara standa. Litli-Sandur
voru þá í byggð, framhjá Brekku og
Bjarteyjarsandi, rétt ofan við Hrafna-
björg voru sæmilega greiðar melgötur
að Ferstiklu. Matur þar. Ekið hafði
verið 84 km frá Reykjavík á tæpum 5
klukkustundum og taldist það gott.
Það var samkomulag um það milli
Sigurðar Briem póstmálastjóra og
Geirs Zoéga vegamálastjóra, að ég
ætti að hringja í vegagerðina ef nauð-
synlega þyrfti að laga eitthvað, svo
póstbíllinn kæmist leiðar sinnar. Nú
hringdi ég í vegagerðina frá Ferstiklu
og sagði frá þessum tveimur brúm á
Bláskeggsá og Fossá, sem ég taldi
ófærar eins og þær væru.
Leiðin lá nú um Ferstikluháls og
yfir Svínadal. Eg var nú kominn á mér
kunnar slóðir, því nokkrum sinnum
var ég búinn að fara að norðan, suður
að Kalastaðakoti á undanförnum
árum með fólk, sem var svo ferjað yfir
fjörðinn að Eyri, en fenginn bíll
þangað frá Reykjavík. Leiðin lá nú
inn dalinn að Geitabergi og þar yfir
ána á móts við bæinn Dragháls, yfir
Dragann og ofan í Skorradal, hjá
bænum Stóru-Drageyri, yfir Dragána
á grjóteyrum og vestur með Skorra-
dalsvatni, ýmist alveg meðfram vatn-
inu eða lítið eitt uppí skógarkjarrinu,
síðan yfir Andakílsá þar, sem hún
fellur úr vatninu með bæinn Grund á
hægri hönd, nú yfir Hestháls um
Norðlingaflöt og Götuás á Lunda-
reykjadalsveg, þá til vinstri fram hjá
bænum Hesti og að Hvítárbrú og eru
það 119 km frá Reykjavík.
Svignaskarð var minn fyrsti póst-
viðkomustaður ánorðurleiðinni. Eftir
miðdagskaffi hjá Vigfúsi í Hreða-
vatnsskála var komið í Fornahvamm
til að fá fréttir af heiðinni. Jóhann
sagði hana alófæra fyrir bíl, klaka-
hlaup og aurbleyta mikil. Hann hafði
nokkrar tekjur af að ferja fólk á
hestum norður yfir á vorin meðan
ekki var bílfært. Þetta reyndist nokk-
uð ýkt hjá Jóhanni, því ég var ekki
svo mjög lengi yfir heiðina líklega um
tvær og hálfa klukkustund. Norðan
heiðar var nokkuð gott yfirferðar og
þar komu mínir föstu viðkomustaðir
með póstinn. Staður, Reykjaskóli,
Melstaður, síðan Hvammstangi þang-
að er um það bil 5 km krókur,
Lækjamót. Sveinsstaðir, Stóra-Giljá
og Blönduós. Til Blönduóss munum
við hafa komið um kl. 11 um kvöldið
og gist var í kvennaskólanum, sem
var sumargistihús.
Að morgni næsta dags var svo
haldið áfram með viðkomu á Holta-
stöðum í Langadal, Æsustöðum og
Bólstaðarhlíð. Norður yfir Vatns-
skarð var vegurinn nokkuð seinfar-
inn. í Varmahlíð var póstviðkomu-
staður og svo 27 km út úr til Sauðár-
króks, sem tók mig nær tvær klukku-
stundir. Á Stóru-Ökrum átti ég líka
að skila pósti og líka í Miklabæ.
Miðdegismaturinn var borðaður að
Víðivöllum, póstur að Silfrastöðum
og þar með lokið mínum póstvið-
komustöðum á norðurleið. Á Öxna-
dalsheiði var versta gilið í Giljareit-
unum, Dagdvelja heitir það og var
ansi erfitt með minn langa bíl, vegur-
inn eins og liggjandi inn í hlíðina og
klettaveggir sitt hvoru megin og snar-
bratt niður í botn gilsins. Ég sendi
mann á undan til að stöðva bíl ef
einhver væri á leið suður yfir, því ekki
var hægt að mætast þarna á nokkuð
löngum kafla. Grjótá var leiðinda á,
flæddi vítt yfir grjóteyrar og gat
orðið, ef rigndi, ill yfirferðar, þar sem
hún spýtti grjóti út um allt. í Bakkaseli
fengum við kaffi og stutta hvíld og svo
var eftir síðasti áfanginn til Akureyr-
ar. Nú varð ég að hringja í Vegagerð-
ina og láta þá vita um verstu tálman-
irnar á leiðinni. Aðallega Grjótá og
Dagdvelju og máski fleiri staði, ég
man þó ekki eftir fleiri stöðum nú.
4 PÓSTMANNABLAÐIÐ