Póstmannablaðið - 01.09.1985, Blaðsíða 6

Póstmannablaðið - 01.09.1985, Blaðsíða 6
Steindór lét aldrei vanta bíla, því meiningin var, að ná sem allraflestum fólksflutningum á norðurleiðinni. Eg varð alltaf að láta Steindórsstöð í Reykjavík vita, hvað væru mörg sæti líklega umfram hjá mér. HI. MINNISVERÐ ATVIK — SLARK Það kom fyrir þetta sumar, að brú, sem hafði verið sett á Grjótá á Öxna- dalsheiði, brotnaði í miðju undan bílnum mínum, þetta var staurabrú, ekki lengri en svo sem tveir metrar ofan í botn, en bíllinn sat þarna eins og hundur, sem sest hefur á rassinn. Lítið vatn var í ánni. Fólkið var hrætt en ómeitt með öllu. Það var skúr þegar þetta kom fyrir. Ég bað fólkið að vera rólegt og bíða af sér skúrina inni í bílnum, því sæmilega fór um það þar, þó nokkuð hölluðust sætin aftur. Við gengum öll niður í Bakka- sel. Ég fékk bíla frá Akureyri til að sækja fólkið. Tók það mig svo nokkra klukkutíma að ná bílnum upp, en hann var mjög lítið skemmdur. Það mun hafa verið í ágúst, að ég var með fullan bíl af fólki til gistingar í Reykjaskóla. Ég talaði þaðan við Steindór, til þess að fá tvo bíla senda morguninn eftir. Þeir áttu að vera komnir að Reykjaskóla kl. 8 að morgni. Mér var heitið því, en sagt að mikið vatnsveður væri syðra og gæti því máski tafist eitthvað að þeir kæmust í tæka tíð, ég lagði ríkt á að þetta stæðist, því ég ætlaði þá um kvöldið til baka að sækja fólk, sem ég yrði svo kominn með í Reykjaskóla kl. 8 morguninn eftir. Þennan dag hafði ég lagt af stað frá Akureyri í góðu veðri og þurru, lagði því ekki mikinn trúnað á, að vont yrði að komast norður. Ég var kominn í Reykjaskóla kl. 8 um morguninn, með fólkið, sem ég fór að sækja norður í Víðidal og Miðfjörð. Bílarnir frá Steindóri voru ekki komnir. Ég náði símasambandi við Steindórsstöð, var sagt þar að þeir hefðu farið frá Reykjavík kl. 10 kvöldið áður og ekkert um þá vitað síðan. Nú var ekki um annað að gera, en bíða. Þeir komu kl. 9, sögðu veginn um Norðurárdalinn nær ófær- an af vatni og víða sundurgrafinn. Þetta voru þaulvanir og harðduglegir bílstjórar. Ekki var um annað að gera, en að fara, sennilegt að nú væri hætt að rigna, en svo var nú ekki, því strax á Holtavörðuheiðinni var stórrigning og meiri eftir því, sem lengra kom niður í Norðurárdalinn. Rétt fyrir ofan Dýrastaðaá hafði hlaupið skriða ofan úr klettum fyrir ofan veginn og alveg ofan í Norðurá. Þarna söfnuðust saman margir bílar, stórir og smáir, flestir voru smáir. Páll Sigurðsson og ég voru þeir einu, sem voru með stóra og háa bíla. Var nú hafist handa að þoka þeim framfyrir hina minni og út í skriðuna, sem var ekki mjög djúp, líklega svona í mitti þar sem hún var dýpst. Jafnóð- um og við mokuðum frá þessum tveimur bílum, seig þessi bölvuð leðja lengra fram, þetta mjakaðist hægt og seint, en að lokum komum við þessum tveimur bílum yfir. Fólkið varð að fara langt uppfyrir upptök skriðunnar og fannst mörgum nóg um það erfiði. Einn af mínum farþegum gafst upp á þessu príli uppí klettana, þóttist sjá grasbrú yfir skriðuna, þar sem hún sameinaðist vatnsflóði Norðurár, en það var missýni, en nóg til þess að farþegi, sem var Laufey Valdimars- dóttir, gafst nú alveg upp við að reyna að komast yfir, en allt fólkið var annars komið yfir. Ég sá engin önnur ráð, en að reyna að bera konuna yfir, en hún var bæði stór og þung, aldrei minna en 100-150 metrar yfir það versta að fara. Laufeyju leist víst nokkuð vel á þessa aðferð til að komast yfir og á bak komst hún og ég staulaðist út í svaðið, en var ekki langt kominn, þegar ég varð þess áskynja, að mér var um megn að komast áfram með byrði mína, því hún var ekki minna en 100 kg. og færðin vægast sagt mjög erfið, en „þegar neyðin er stærst er hjálpin næst“. Annar bílstjóri minn, frá Steindóri sá þetta hörmulega ástand mitt og braust út í foraðið mér til hjálpar, þetta tókst svo, við bárum frökenina líkt og í handbörum á milli okkar. Ég skal ekki segja að pilsið hafi ekki aðeins snert foraðið eitt- hvað, en við gerðum áreiðanlega okkar besta, til að það yrði sem allra minnst. Laufey hló mikið að þessu ferðalagi á eftir. A meðan á þessum flutningum öllum stóð, þarna yfir skriðuna, sel- fluttu bílstjórar mínir og Páll Sigurðs- son allt fólkið, sem þarna var saman- komið, ofan að Dalsmynni eða í samkomuhús, sem var þar ofan við vegamótin, _því enn rigndi mikið. Brýrnar tvær á Bjarnardalsánni voru báðar farnar, en Norðurárdalurinn allur, frá því fyrir ofan Hvamm eins og stöðuvatn. Ráðið til þess að koma öllu þessu fólki og póstinum áfram, var að fá marga bíla úr Borgarnesi til að sækja það upp að Bjarnardalsá. Ég þorði ekki að reyna að koma póstbíln- um yfir ána, hún var þá orðin nær ófær með hesta, var í taglhvarf á þeim í síðustu ferðunum með póstinn yfir. Mikið drukkið í Dalsmynni þennan eftirmi dag, mikið var talað í símann líka. Menn og hestar voru fengnir til að flytja fólkið yfir til bílanna, sem drifu að neðan frá Borg- arnesi. Ég man ekki hvað marga bíla ég fékk, en mun hafa verið með eitthvað milli 20-30 manns og póstinn á mínum vegum. Sjálfur fór ég í Borgarnes til að skila af mér póstinum og fá mér nýjan fatnað, allt var gegnblautt og forugt. Engir fleiri bílar komust þennan dag yfir skriðuna. Ég fór sjálfur til baka og hitti mína bílstjóra og fór með þeim upp að Fornahvammi til að sofa, en seint mun hafa verið sest að, það kvöld. Daginn eftir fór ég svo að vitja um póstbílinn, sem enn var norðan Bjarn- ardalsár hjá Dalsmynni. Mikið var þá farið að draga úr vatnsflóðinu í dalnum, en þó ófært yfir skriðuna ennþá. Ég varð að reyna að komast eitthvað áleiðis til Reykjavíkur. Þá var það fyrst Bjarnardalsáin, sem hafði dregið mjög mikið úr, ég var nú orðinn einn og mjög erfitt að komast yfir allt það stórgrýti, sem áin hafði flutt fram í flóðinu, það tókst þó, því ég man að í Ferjukot kom ég um hádegi. Ég tók þar bensín og var beðinn að doka við, þar var fólk, sem óskaði eftir að verða mér samferða suður, var það á bíl, en bjóst við vondri færð og því styrkur í að verða mér samferða, þar sem ég var á traustum en tómum bílnum. Þetta var Matthías Matthíasson, sonur Matthí- asar Einarssonar læknis og kona hans, dóttir Helga Péturs. Okkur gekk furðu vel, festum þó bílana nokkuð oft, en um kvöldið náðum við til Reykjavíkur. Nokkrar fleiri póstferðir frá þessu sumri eru mér minnisstæðar, en óvíst hvort ég ætti að segja frá þeim hér, því oft yrði þá að nefna nöfn manna, farþega og annarra, en minnið er stundum ekki svo gott sem skyldi. PAKKIR Innilegar þakkir færi ég Póstmanna- félagi íslands fyrir auðsýnda samúð við andlát og jarðarför eiginmanns míns, Sigurðar Þorkelssonar, verk- fræðings. Else Þorkelsson. 6 PÓSTMANNABLAÐIÐ

x

Póstmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Póstmannablaðið
https://timarit.is/publication/802

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.