Birtingur - 01.06.1957, Qupperneq 7
takanlegu fátæktarbasli alþýðu til sjávar
og sveita — og átti þó eftir að harðna. Mann-
leg örlög leituðu nú fastar á í náttúrunnar
stað, gömul verðmæti í lífi og list þörfnuð-
ust endurmats og önnur ný bar við sjónhring.
— Þó léztu næstu bók þína heita Ég læt
sem ég sofi.
— Það var nú bara plat vegna vögguvís-
unnar. En sem sagt — sumarið 1932 tek ég
mér bessaleyfi frá nytjastörfum, slík lífs-
nauðsyn var mér að kveða þessi hrjúfu og
hryssingslegu raunsæisljóð. Fór mér þar eitt-
hvað svipað og Sigurði Einarssyni, þó ekki
þekkti ég til ljóða hans þá. Þegar við flutt-
umst suður um haustið hafði ég handritið af
bókinni meðferðis.
Ég reyni að rifja upp fyrir mér andann i
þessari tímamótabók skáldsins meðan ég
drekk rjúkandi kaffið sem húsmóðirin hefur
borið okkur, minnist hendinga á stangli:
Ég orti áður fyrri
um ástir vor og blóm.
En nú er harpan hörðnuð
og hefur skipt um róm.
Línur úr Opnu bréfi koma einnig fram í
hugann:
Ó, gamli kirkjunnar guð!
Ég bað til þín löngum sem dálítill drengur,
en Drottinn! — nú get ég það ekki lengur ..
Þar fór það: náttúrudýrkunin, guðdómur-
inn og ungmennafélagsandinn — allt í græn-
an sjó. Upp úr kafinu skýtur nýrri mynd:
Og gustmiklir öreigar ganga
um götuna, ryki þakta.
Þeir ryðjast sem rennandi móða
— en rauðu fánarnir blakta . . .
— Þú hefur auðvitað lent von bráðar í
flokki harðsvíraðra byltingarseggja eftir
suðurkomuna ?
— Ekki stóð á því. Steinn var þegar orð-
inn blóðrauður og nú var það hann sem fór
að kenna mér. Kristinn E. Andrésson var
þá ekki alls fyrir löngu kominn heim frá
námi erlendis og sá voldugar sýnir. Hann er
einhver hin mesta eldsál sem ég hef kynnzt,
þó yfirborðið sé oftast ljúft og kyrrt, auk
þess sem hann er gæddur frábærri skipulags-
gáfu og framkvæmdadug. Hann var pottur-
inn og pannan í öllu markverðu sem gerðist
í andlegum málum okkar, hinna róttæku,
næstu árin — og það var reyndar ýmislegt:
stofnun Félags byltingarsinnaðra rithöfunda,
Rauðra penna, Heimskringlu og Máls og
menningar. Einkum var stofnun Máls og
menningar grettistak sem gerbreytti allri
aðstöðu höfunda í því að ná til almennings.
En þó Kristinn ætti öll frumkvæði var engu
síðri hlutur Einars bróður haris sem gerðist
hinn óþreytandi ármaður félagsins og hefur
verið það æ síðan. Án hans hefði Mál og
menning aldrei náð þeim tilgangi sínum að
verða fjöldasamtök menningarþyrstrar al-
þýðu. Hygg ég að fáir tveir bræður hafi bætt
hvor annan jafn skemmtilega upp í langri
og harðri baráttu. Og ekki má gleyma Þóru:
hún var alltaf skiöldur okkar og skjól og svo
hjartaprúð að manni fannst stundum eins og
allir umkomulausustu tónar manns og jarðar
yrðu að einum sigurhljómi í brjóstinu á henni.
— Ég er þér innilega sammála. En held-
urðu ekki að Mál og menning sé tekin að
fjarlægjast upprunalegt hlutverk sitt: að
vera lifandi samhjálp rithöfunda og fólksins ?
Mér virðist sem aðrir hafi nú orðið meiri ráð
yfir félaginu og systurfyrirtækjum þess en
skáld og rithöfundar.
5