Eining - 01.06.1965, Qupperneq 10
EINING
1A
±v
var ekki utanað lærð list, heldur henni jafn eðlislægt, eins og
andardráttur hennar, eins og hennar hægri hönd. Það var
hinn huldi maður hjartans, eins og postulinn orðar það svo
fallega, sem mér fannst vera hennar dýrasta skart, og öllum,
sem eitthvað kynntust henni lá vafalaust í augum uppi.
Ég hygg, að allir þeir, sem kynntust frú Sigríði, hafi orðið
snortnir af áhrifum góðvildar, hreinleika og virðuleika, sem
mér fannst geisla frá persónuleika hennar. I nærveru hennar
hlaut allt hégómatal að falla niður af sjálfu sér og mörgum
mun hafa fundizt líkt og í sálminum stendur: „Hið lága fær-
ist fjær, en færist aftur nær hið helga og háa.“ Eitt rit sitt
hefur maðurinn hennar tileinkað henni m. a. með þessum
orðum:
„Konunni minni, þeirri sál, sem kallað hefur fram úr
dýpstu fylgsnum sálar minnar hinar sterkustu og viðkvæm-
ustu tilfinningar mínar, göfgað þær og frjóvgað,“ — og hann
kveðst gera það með: „þakklæti og djúpri lotningu fyrir þeim
guðdómlega og göfugasta mætti, sem ég þekki — þeim kær-
leika, sem á vegum hreinleikans og heilagleikans gefur allt
til unaðar og blessunar þeim, sem í skjóli hans býr.“
Þetta eru fögur orð, sem allir vinirnir vita að eru sönn.
Öll framkoma þessarar vel menntuðu og hjartahreinu
konu var látlaus, en yfir henni hvíldi sá tiginleiki og þokki,
sú hjartaglóð, sem olli því, að eftir henni var tekið, og túlk-
aði betur en mörg orð hvern mann hún hafði að geyma.
Fríð í sjón og horsk í hjarta,
höfðingslund af enni skein.
Svipur, athöfn — allt nam skarta,
af því sálin var svo hrein.
Þessar ljóðlínur þjóðskáldsins, sem ortar voru um löngu
liðna heiðurskonu, fara áreiðanlega nærri um það að vera
raunsönn lýsing á frú Sigríði Torfadóttur. Hún var svo hrein
sál, átti svo gott hjarta. — Elskaði fegurðina og hið góða,
hvar sem það birtist, en skrifaði mótgerðir í sandinn. Vildi
engan særa, en öllum rétta hjálparhönd, ef hún mátti.
Grandvarleiki þessarar góðu konu gat engum dulizt.
Framkoma hennar var öll til fyrirmyndar. Hún var sjálfstæð
í skoðunum og gat haldið fast á máli sínu, en var jafnframt
gædd mikilli geðprýði og yndislegu innra jafnvægi.
Sigríður var mikil trúkona — trúin var hennar hjartans
mál. Það var trúin, sem gerði hana svo heilsteypta sál sem
hún var — og jafnframt svo sterka í mildi sinni og hjarta-
gæzku.
Starfsvettvangur hennar var ef til vill ekki víður. Hún
var eiginkona og móðir, en hvaða starf er veglegra ? Er nokk-
urt starf mikilvægara frá sjónarmiði þjóðfélagsins, þegar vel
er að gáð?
Hún var manninum sínum stoðin styrka, sem aldrei brást,
gerði hann að meiri og betri manni, eins og orð hans, er ég
vitnaði áðan til, svo og fjölmörg fleiri ummæli og ljóð sýna,
svo að ekki verður um villzt. Og hvílík hamingja að fá að
eiga hjai’tkæran lífsförunaut sér við hlið í dagsins önn og
stríði í nær hálfa öld. Mikils hefur nú eiginmaðurinn misst.
En ég veit, vinur, að í
„Þú hopar lítt við sár.
Þú veizt að lífið lifir,
en lúta hlýtur hel,
að öllu drottnar yfir
guðs eilíft fagrahvel.“
Og börnum sínum var hún góð móðir, enda létu þau áreið-
anlega ekkert ógert, það sem í þeirra valdi stóð, til að reynast
henni góð börn.
Fagurs heimilislífs er minnst og blessaðar minningarnar,
sem tengdar eru heimilinu hennar og ykkar ástvinanna. En
heimilið ykkar var aldrei einangraður smáheimur. Það stóð
ávalt við þjóðbraut, opið frændum og vinum, samherjum og
góðum sálufélögum. Þangað hefur leið margra legið. Og þar
var fagurt menningarheimili og þar var gott að koma, því að
gesturinn fann að hann var velkominn. Margir minnast nú
þessara stunda með þakklæti í huga. Þar lýsti gleðin á brá,
þegar húsfreyjan settist við hljóðfærið og söngurinn ómaði.
Þar var mikil gestrisni, en líka rausn inn við hjartað, sem
yljaði gestinum og gerði honum hverja komu þangað minnis-
stæða, skildi eitthvað eftir, sem betra var að eiga en án að
vera.
En öllu er markaður tími. Dagarnir fljúga frá oss hver af
öðrum, og vér kveðjum vinina við hin hinztu vegamót, en sá
ræður sem ræður vel. Hér er minninga- og kveðjustund.
Vinirnir kveðja hjartkæra eiginkonu og móður, tengda-
móður og ömmu, frændkonu og vin og færa henni hjartgrónar
þakkir sínar og fyrirbænir. Að þessum líkbörum leitar hugur
margra, nær og fjær, og biður góðri konu, fagurri sál, bless-
unar drottins.
Sonurinn í fjarlægð og fjölskylda hans eru oss nálæg í
anda á þessari stundu, og þeim sendum vér samúðarkveðjur
úr húsi drottins.
Postuli Krists sagði:
Skart yðar sé ekki ytra skart, heldur sé það hinn huldi
maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrr-
láts anda, sem dýrmætur er í augum guðs.
Þegar ég lít við leiðarlok yfir ævidag Sigríðar Torfadóttur
og virði fyrir mér persónuleika hennar og líf, finnst mér hún
hafa komizt langt áleiðis á þeirri braut að lifa í samræmi við
þessi orð postulans, eftir því sem oss veikum mönnum er
kleift.
Sýndai*mennskan var henni fjarlæg, hollustan við hið
góða og fagra var aðalsmark hennar, stafaði frá henni eins
og bjartir geislar. Hún safnaði góðum sjóði hjarta síns, ávann
sér veganesti í baráttu lífsins, sem sá einn kann að meta er á
viljann lítur og verkin metur. Gefi henni nú góður guð raun
lofi betra.
SIGRÍÐUR TORFADÓTTIR
Kveðja frá Eiginmanni.
Þú ert mér horfin, ástargyðjan mín.
Nú er svo tómt að vera hér án þín.
Mér gleymist aldrei glaða brosið þitt.
Hér græðir ekkert hjartasárið mitt.
Minn hinzta koss, á kalda ennið þitt,
ég kyssti beygður, hjartans yndið mitt,
í dauða bros á vörum þínum var.
Það vitni um hið fagra líf þitt bar.