Litli Bergþór - 01.03.1993, Blaðsíða 10

Litli Bergþór - 01.03.1993, Blaðsíða 10
Skyggnst um á Kjalvegi Annar hluti eftir Tómas Tómasson Af Bláfellshálsi Við erum hér við rætur Bláfells og horfum yfir svæðið milli Langjökuls og Hofsjökuls. Þetta er eins og einhver undraheimur, sem aldrei hefur horfið mér úr minni frá því ég fékk það fyrst augum litið. Þarna eru ótal örnefni, og vildi ég rifja upp þau helstu. Hér næst okkur í vestur er Geldingafell. Til skamms tíma lá bílvegurinn norður með hlíðum þess, en fyrir fáum árum var hann færður og liggur hér beint niður með Bláfellinu. Hvítárnesið blasir við okkur en nær er Hvítárvatn. Hér að sunnanverðu liggur að því grjótapall, sem Jökulkrókur heitir. Norðvestan við vatnið er Skriðufellið, sem má segja að sé hulið jökli nema austurbrúnin, sem er snarbrattar skriður og klettabelti niður að vatni. Fyrr á árum var allbreið jökultunga niður með Skriðufellinu að sunnan og náði niður í Hvítárvatnið. Fyrir kom að kindurfæru yfir þetta jökulhaft, og þurfti þá að sækja þær í fjallið, sem ekki var greiðfært. Nú á síðustu áratugum hefur þessi jökultunga hlánað og engin fyrirstaða að komast í fjallið sunnanfrá. Undirlendi er þarna ekki og því er ógreiðfært að komast inn fjallið. Sagnir eru til um að fær leið hafi verið með fjallsrótunum fyrr á öldum. Þá hafi vatnið ekki legið að fjallinu. Norðan við Skriðufellið gengur skriðjökull niður í vatnið og lokar leiðinni þeim megin frá. Þegar hlánar á vorin virðist koma hreyfing á jökulinn og stórir jakar klofna úr jökulbrúninni og fljóta fram eftir vatninu, þar sem þeir standa á grunnvatni og eyðast af sól og vatni. Framan af sumri má oft sjá mikið af jökum standa langt upp fyrir vatnsborðið eins og seglbátar. Norðan við þennan skriðjökul myndast vík út úr vatninu inní landið. Allbratt er í kringum hana en gróður ótrúlega fjölbreyttur svo nærri jöklinum. Þarna segir sagan að hafi verið stunduð silungsveiði með sérstæðum hætti. sá sem veiðina stundaði batt folald við stein á bakkanum þar sem víkin myndast frá vatninu. Síðan teymdi hann móðurina fyrir botninn á víkinni þar til hann var kominn á móts við folaldið. Þá batt hann fiskinet í taglið á merinni og lét hana synda með netið yfir. Engar aflaskýrslur hefur verið talað um frá þessum fiskveiðum. Þessi vík ber nafnið Karlsdráttur. Til norðausturs frá Karlsdrætti liggur hraunbrún, sem sennilega hefur myndast frá gosi undir jöklinum, trúlega frá eldstöð, sem nefnd er Sólkatla. Þessi hraunbrún heitir Leggjabrjótur. Frá hraunbrúninni hallar landinu til austurs og myndast þar allmikið grösugt undirlendi, sem Fróðárdalur heitir, Innri og Fremri. Innri-Fróðárdalurinn er að mestu gróðurlaus. Að honum liggur lítið fjall, sem Rauðafell heitir. Fremri-Fróðárdalurinn er hins vegar grösugur. Eftir honum rennur allmikil bergvatnsá, Fróðá. Nokkru austar er sérstætt fjall, sem myndar háar grösugar brekkur móti suðri. Þar vex nokkurt birkikjarr. Austurkantur fjallsins er að mestu gróðurlaus. Þar ganga brattar skriður og klettar niður í Fúlukvísl, sem rennur þarna austanundir. Fúlakvísl á upptök sín undir Langjökli, bak við Þjófadalafjöll, og rennur með vesturjaðri Kjalhrauns niður í Hvítárnes og skiptir oft um farveg niðri á Nesinu. Víkjum aftur að þessu fjalli, sem ber nafnið Hrefnubúðir. í sögunni segir að þar hafi kona risans Bergþórs í Bláfelli byggt sér bæ og búið. Hún hafði heitið Hrefna og þaðan er nafnið komið. Ef við horfum norður yfir Hrefnubúðir, sjáum við að landið hækkar. Þar taka við miklar grjótöldur upp undir Hrútfellið, sem stendur fram undan, og austur að Fúlukvísl. Þetta svæði heitir einu nafni Baldheiði. Með Fúlukvíslinni erfjárgróður á stöku stað, annars gróðurlítið. Suðvestur af Hrútfellinu má sjá gamalt mannvirki, ekki stórt í sniðum, en þarna hefur verið borið saman grjót og hlaðið upp eitthvert skýli. Ekki er fær leið með Hrútfelli að vestan á hesti, og er því leið smalanna með fjallinu að austan. Þeim megin er nokkurt graslendi á kafla og fjölbreyttur gróður. Birkikjarr sést þar og mikið af hvönn. Þar eru hæðir, sem Múlar heita og Þverbrekkur. Þarna fellur Fúlakvíslin í gljúfrum á köflum, og hér rétt fyrir norðan rennur hún í svo þröngu gljúfri að menn sem ekki eru lofthræddir hafa hlaupið þar yfir. Við megum ekki skilja svo við Hrútfellið að minnast ekki á hæð þess, en það mun vera 1410 metrar með sinn Regnbúðajökul á toppnum, hæsta fjall á þessum slóðum. Þegar kemur norður fyrir Hrútfellið taka við Fremra- og Innra-Sandfell, og enn lengra, norðvestur af Þjófadölum, er fjallshryggur, sem gengur frá jöklinum og til austurs. Þessi Litli - Bergþór 10

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.