Litli Bergþór - 01.03.1993, Blaðsíða 15

Litli Bergþór - 01.03.1993, Blaðsíða 15
til að Ijúka verkinu. En skólans vegna get ég lokið doktorsgráðunni. Við komum semsagt heim til íslands árið '85, þar sem mér bauðst að gerast farprestur. Og fyrst þjónaði ég á ísafirði. M: Það var mjög gaman að vera á ísafirði. Það hittist svo á að Sunnukórinn vantaði stjórnanda og kirkjukórinn líka, svo mér var dembt í að stjórna báðum kórunum. Þannig kynntist ég strax, í gegnum sönginn og preststarfið hjá Kristjáni, mörgu skemmtilegu fólki. Ég segi það hiklaust að fólk, sem hefur gaman af að syngja með öðrum, er eitthvert skemmtilegasta og félagslyndasta fólk sem maður hittir. Og svo er það líka þannig, að ef maður á þess kost að starfa að því sem mann langar til og með fólki sem hefur áhuga, er alveg sama hvar maður býr, það er allsstaðar gott að vera. Það stóð til að við yrðum tvö ár á ísafirði, en það varð því miður bara eitt ár, því haustið '86 losnaði Grenjaðarstaður í Þingeyjarsýslu og við fórum þangað. L-B: Er það eitthvað sem erykkur öðru fremur minnisstætt frá dvöl ykkar á ísafirði? K: Ja, það er margt sem er minnisstætt. Það var til dæmis mjög gaman að taka þátt í uppbyggingu starfsins í safnaðarheimilinu við Sólgötu, sem þá var ný búið að kaupa. Mér er líka mjög minnisstætt þegar við Jón Ragnarsson, prestur í Bolungavík, messuðum í eyðibyggðunum á Hornströndum um sumarið. Á Stað í Aðalvík og Stað í Grunnavík. Kirkjuklukkurnar frá Stað í Grunnavík höfðu verið fluttar í lítinn klukkuturn í kirkjugarðinum inni í Firði, sem kallað er, á ísafirði og var meiningin að fá þær lánaðar fyrir messuna á Stað. Kvöldið áður voru klukkurnar hinsvegar enn ósóttar, svo á björtu laugardagskvöldi, um miðnættið, varð fólk, sem leið átti í kirkjugarðinn, vitni að klukkustuldi, þar sem sjálfur presturinn var að verki! Enginn sagði neitt, en menn horfðu frekar undarlega á mig! Nú, klukkur og orgel var síðan flutt á kviktrjám þennan klukkutíma gang heim að kirkjunni. Frá gamla prestshúsinu gengum við tveir í fullum skrúða í gegnum hvannstóð og sóleyjar, stiklandi lækina í hempunum. Það hlýtur að hafa verið frekar kyndugt að sjá. Mjög fallegt veður í bæði skiptin og margt fólk, og það var gaman að sjá fólkið koma gangandi allsstaðar að til kirkjunnar. Maður gæti ímyndað sér að það hafi verið eitthvað þessu líkt í gamla daga. Um kvöldið var harmóníkuball í Aðalvík, þar sem allir dönsuðu við birtu miðnætursólarinnar til morguns, ungir sem aldnir. L-B: Svo fóruð þið að Grenjaðarstað. M: Já, þangað fórum við haustið '86 og vorum þar, þangað til við komum hingað í Skálholt s.l. haust. Maður var auðvitað fljótlega kominn á kaf í félagsmál og vinnu. Ég tók að mér söngkennslu við Tónlistarskólann á Akureyri, keyrði þangað einu sinni til tvisvar í viku. Svo raddþjálfaði ég kóra á vegum söngmálastjóraembættisins út um allt land. Sumarið eftir að við komum norður byrjuðum við Björn Steinar Sólbergsson, organisti á Akureyri, að skipuleggja Sumartónleika í kirkjum á Norðurlandi. Og það starf hefur fært út kvíarnar síðan. Fyrsta sumarið voru tónleikar í þremur kirkjum, en síðastliðið sumar voru kirkjurnar orðnar sjö og heildarfjöldi tónleika átján. K: Svo má ekki gleyma kvennakórnum! M: Nei, það er rétt. Kvennakórnum Lissy stjórnaði ég í 5 ár, en hann var stofnaður árið '85 á vegum Kvenfélagasambands S-Þingeyjarsýslu og telur um 60 konur. Síðasta verkefni mitt með kórnum var upptaka geisladisks með söng kórsins á liðnu sumri. Það er reyndar gaman að því, að kórinn okkar var ein hvatningin að stofnun Kvennakórs Reykjavíkur nú í haust. Það er því ekki alltaf að hugmyndirnar þurfi að koma að sunnan! Nú, í fyrravor stóðum við fyrir Landsmóti kvennakóra í Ýdölum í Aðaldal. Þar hittust 5 kvennakórar, alls um 150 konur, allsstaðar að af landinu til að syngja saman og eflast hver með öðrum. í lok mótsins voru svo haldnir tónleikar, þar sem yfir tvöhundruð manns komu til að hlusta á kórana. Fyrirfram vorum við ekki vissar um áhuga Þingeyinga á kvennasöng, þar sem karlakórahefðin er mjög rík þar. En aðsóknin fór fram úr björtustu vonum, og þetta var allt mjög ánægjulegt. L-B: Eitthvað varst þú viðriðin MENOR, Menningarsamtök Norðlendinga? M: Jú, ég kom inn í stjórn MENOR árið '88 og var formaður 1991 - 1992. Samtökin urðu einmitt 10 ára á síðasta ári og við reyndum að halda uppá það. Létum m.a. hanna merki félagsins og gáfum út veglegt afmælisrit. Smásagna- eða Ijóðasamkeppni, í samvinnu við dagblaðið Dag, hefur í nokkur ár verið fastur punktur í starfseminni. Og í fyrra var líka byrjað að birta vikulega "MENOR menningardagskrá" í Degi, svipað MENSA dagskránni hér í Sunnlenska Fréttablaðinu. Kemur sá pistill í staðinn fyrir fréttabréf samtakanna, sem komið hafði út 8 sinnum á ári, árin á undan. Eitt af mikilvægustu hlutverkum svona menningarsamtaka tel ég einmitt vera upplýsingamiðlun og kynningarstarfsemi. L-B: Kristján, hvernig fannst þér að koma að Grenjaðarstað? K: Ég var fjósastrákur á Grenjaðarstað eftir fermingu, svo ég þekkti vel til þar og hef alltaf haft taugar þangað síðan. Það var því gott að koma þangað. Grenjaðarstaður er gott prestakall, stórt miðað við sveitarprestaköil og það eru forréttindi að fá að vera prestur þar sem maður þekkir alla. - En þeim mun erfiðara að slíta sig frá starfinu aftur. - Enda er ég ekki formlega farinn þaðan, því ég er í tveggja ára launalausu leyfi frá Grenjaðarstað. Ég er illa syndur og þætti betra að komast aftur til sama Litli - Bergþór 15

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.