Verkakonan - 01.01.1945, Page 4

Verkakonan - 01.01.1945, Page 4
Jóhanna Egilsdóttir: Verkakonan krefst réttlætis í upphafi skapaði guð himinn og jörð og manninn; og konuna honum til dægrastyttingar og gamans, eða svo segir í sköpunarsögunni um upphafið. Samkvæmt þessu orðalagi hefur viðhorfið til konunn- ar ávallt, eða alveg til síðasta tugs þessarar aldar, verið þess eðlis, að konan væri einhver óæðri vera en maður- inn, sem ekki þyrfti því að taka eins mikið tillit til. Þessi hugsanavilla mannanna, sem ráðin hafa haft gegnum aldirnar, hefur þó þróast til hins betra — þró- ast svo hægt, sem skríðandi ormur —. Eg hef ekki hugsað mér að rekja í þessari stuttu grein þróunarsögu kvenréttindanna í heiminum frá öndverðu, heldur aðeins stikla á því stærsta í baráttu- sögu íslenzkra verkakvenna frá því er fyrsta stéttar- félag kvenna var stofnað hér á landi, en það var V.K.F. Framsókn í Reykjavík 1914. Árið 1907 var fyrsta kvenréttindafélagið stofnað á íslandi, — var það Kvenréttindafélag Islands. Aðal- stefnumið þess var að berjast fyrir réttindum kvenna að lögum til jafns við karla. Árið 1914 hafði Kven- réttindafélagið ekki enn sett á stefnuskrá sína neitt, sem beint sneri að hagsmunabaráttu íslenzkra kvenna. Þetta sáu konur í Kvenréttindafélaginu og stofnuðu því annað félag, er fyrst og fremst lét hagsmunabaráttu verkakvenna til sín taka. Þegar svo V. K. F. Framsókn var stofnað 1914 undir forustu hinnar merku konu, Jónínu Jónatansdóttur, hófst hin harða og lífsnauðsynlega barátta fyrir bætt- um kjörum reykvískra verkakvenna, sem háð var gegn vilja- og skilningsleysi atvinnurekenda og jafnvel verka- kvenna sjálfra, sem haldnar voru blekkingu og hótun- um atvinnurekendanna; er notuðu sér svo miskunnar- laust og án alls bróðurkærleika hina röngu „trú“, um getuleysi og hæfnisleysi kvenna til líkamlegra og and- legra starfa. Svo gjörbreyttur er þessi hugsunarháttur nú, — sem betur fer —, að varla kemur fyrir að nokk- ur atvinnurekandi komi fram við verkakonur með hót- anir eða blekkingar, hvað þá að konur skilji ekki nauð- syn samtaka sinna. Á þessum tímamótum félagsins er ekki úr vegi að rifja upp þær breytingar, sem orðið hafa á lífskjörum verkakvenna á þeim 30 árum, sem félagið hefur starfað, og sem er bein afleiðing þrotlausrar baráttu samtaka þeirra í V. K. F. Framsókn. Á fyrsta tug þessarar aldar og áður en V. K. F. Framsókn var stofnað, gengu konur til kola-, salt- og timburvinnu, og var ekki svo sjaldgæft að sjá konur rogast með kola- og saltpoka niður við höfn í uppskip- un úr skipum við hlið karlmannanna. Ekki höfðu þó konurnar sama kaup og karlmennirnir, þrátt fyrir sömu vinnu, því kaup karla var 25 aurar á tímann, en kvennakaupið var 12 aurar á tímann; enginn matartím- inn og því síður kaffitími, rétt aðeins tími til að gleypa í sig matinn undir eftirliti verkstjóra, sem átti sennilega að sjá um að maturinn yrði ekki tugginn of vel. Kaup kvenna var 12 aurar á tímann, hvort sem unnið var í dag-, nætur- eða helgidagavinnu, og unnu þær oft 16 tíma í sólarhring við kolauppskipun eða þess háttar, og voru þó ekki of haldnar af fjárfúlgunni. Þetta er ekki falleg lýsing á lífskjörum kvenna hér áður fyrr. Má þó tilnefna enn ljótari lýsingu á Hfskjör- um þeirra og réttleysi gagnvart húsbændunum fyrir ekki meira en 30—40 árum síðan. Sú sté.tt kvenna, er vinnukonur nefnast, höfðu þá 5,00 krónur á mán- uði, en svo skammt voru þessar konur frá því að geta talizt ambáttir húsbænda sinna, að þær voru sendar á „eyrina“ til fiskvinnu og annarrar hafnar- vinnu, ekki fyrir þessa 12 aura á tímann, heldur sitt fasta mánaðarkaup. Síðan hirtu húsbændurnir kaupið, er þær höfðu unnið fyrir við uppskipunina eða annað þess háttar. Sá þáttur íslenzka atvinnulífsins, er mest hefur verið stundaður af verkakonum, er fiskbreiðsla og fiskþvott- ur. Sá aðbúnaður, er konur höfðu við fiskþvott, var svo hörmulegur, að fullyrða má, að margar hafi beðið heilsutjón í þeirri vosbúð, er þær stóðu í allan daginn. Aðkoma kvenna í fiskhúsin var oft sú á veturna, að þær urðu að byrja á að brjóta klakann, sem setzt hafði í þvottakörin um nætur; síðan hófst þvotturinn í ísköldu vatni og í ísköldum húsakynnum allan daginn. 2 VERKAKONAN

x

Verkakonan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Verkakonan
https://timarit.is/publication/887

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.