Verkakonan - 01.01.1945, Blaðsíða 14

Verkakonan - 01.01.1945, Blaðsíða 14
Frá liðnum árum Jónína Jónatansdóttir: Gullin mín Þau voru hvorki dýr né fjölbreytt heimafengnu gullin, sem við telpurnar lékum okkur að, þegar ég var lítil, en við undum við þau með ljúfu geði og vor- um sælar í gleði okkar og áhyggjulausum leik. Þau voru misjafnlega falleg þessi gull, en stundum kom það fyrir að gylltur eða rósóttur bolli brotnaði og þá urðu rósóttu og gylltu brotin fallegustu og dýrmæt- ustu leikföngin og geymd þar í gullastokknum, sem bezt fór um þau. Sum brot voru þar líka blökk og Ijót, en þeim vildum við henda út í horn. En litlar stúlkur vaxa upp og verða fullorðnar og áður en varði kvaddi ég bernskuna, og hætti að leika mér að gylltu og rósóttu brotunum mínum. Lífið gaf mér önnur viðfangsefni. Það gaf mér marg- ar góðar gjafir og þá miklu hamingju að eiga áhuga- mál og fá að starfa fyrir þau. Og starfið, ekki sízt á meðal ykkar, kæru félagssystur mínar, færði mér oft mikla ánægju og djúpa gleði. Hjá ykkur átti ég marg- ar mínar beztu stundir. Þið voruð svo góðar við mig alla tíð, ég fann streyma frá ykkur til mín samúð og hlýjan hug, ég fann að þið báruð traust til mín og stóðuð á bak við mig, þegar ég var að reyna að vinna að ykkar málum, og að þið sýnduð mér umburðarlyndi og fyrirgáfuð mér, þegar ég var ekki nógu dugleg. Nú er ég hætt að geta starfað með ykkur og get ekki einu sinni notið þeirrar gleði að koma á fund til ykkar, horfa á ástúðlegu andlitin ykkar, sem mér þykir svo vænt um, og láta hlýjuna frá handtökum ykkar verma mig. En það er annað, sem ég get gert. Eg á endur- minningarnar mínar, gullastokkinn minn, sem ég get opnað þegar ég vil. Og nú er það orðin mín mesta gleði að sitja og rísla mér við gullin mín, sem þar eru geymd. Þar á ég svo margt fallegt, sem samveran við ykkur hefur gefið mér. Vænst þykir mér um minningarnar um það litla, sem ég gat gert fyrir ykkur og ykkar mál, það eru gylltu og rósóttu brotin, sem gaman er að horfa á. Eg sé þar líka önnur brot, blökk og ljót, það eru minningar um það, sem ég hefði ef til vill getað gert, en sem ég vanrækti. En ég veit að þið hafið fyrir- gefið mér það allt, og að þið vitið að ein dýpsta gleðin og ánægjan í mínu lífi var sú að fá að nota kraftana til að starfa fyrir ykkur og með ykkur. Eg get ekki þakkað ykkur eins og mig langar til, en ég vil nota þetta tækifæri og senda ykkur öllum sam- eiginlega og hverri einstakri innilegustu kveðjur mínar. Mætti blessun guðs hvíla yfir ykkur öllum, lífs og liðnum, störfum ykkar, heimilum og ástvinum. Mætti sú sterka föðurhönd, sem getur látið máttinn full- komnast í veikleikanum, ætíð vera ykkur stoð og hlíf. 12 VERKAKONAN

x

Verkakonan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Verkakonan
https://timarit.is/publication/887

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.