Foreldrablaðið - 01.01.1971, Blaðsíða 7

Foreldrablaðið - 01.01.1971, Blaðsíða 7
5 mæli, þegar sá gállinn er á honum, er hljóðmynd- unin ekki til trafala. Þá þarf aðeins að koma harða framburðinum upp í vana. Ef takast mætti þannig að þoka framburðinum í harðmælisátt með því að samræma hann hjá hverjum einstaklingi, sem blandaðan framburð hefir, yrði drjúgur sigur unninn, og eftirleikurinn yrði auðveldari. Harðmæltir foreldrar geta unnið hið mesta þarfaverk og tekið ómakið af skólun- um með því að byrja nógu snemma að leiðbeina börnum sínum. Ef harðmælisframburði er eindregið haldið að börnum á aldrinum 3—6 ára, ná þau fullu valdi á honum. Skýr framburður. Til góðs framburðar verður að gera þá kröfu, að hann sé skýr. Óskýr framburður er aldrei vand- aður framburður. Veigamesta ástæðan fyrir því, að harðmæli á vinsældum að fagna — einnig meðal margra, sem alizt hafa upp við linmæli, — er án efa sú, að harðmæli er að öðru jöfnu skýr- ara en linmæli. Ég hefi stundum líkt linmæli við inflúensu. Að öllum jafnaði er hún ekki talin hættu- legur sjúkdómur sjálf, en hún lamar viðnámsþrótt líkamans og undirbýr jarðveginn fyrir skæðari sóttir. Svipað er að segja um linmælið. Linmælis- framburður getur auðvitað verið skýr eins og hver önnur mállýzka, en reynslan virðist sýna, að al- menn framburðarslekja, þ. á m. óljós sérhljóða- framburður, sé fremur í för með honum en harð- mælinu, og það er háskalegt. Málið gegnir því hlutverki að flytja hugsun frá manni til manns. Það er stórkostlegasta sam- göngutæki, sem upp hefir verið fundið. Sá, sem hefir lítið að flytja, hefir litla þörf fyrir flutn- ingatæki. En jafnvel þótt hann aki því hálftómu, verður hann að kunna að stjórna því og hlíta sett- um umferðarreglum, ef ekki á illa að fara. Allir kannast við, hvílík raun það getur verið að komast fram úr ógreinilegri skrift eða hlusta á talstöð við vo.nd skilyrði. Ætti því að vera óþarft að rökstyðja frekar þá meginkröfu, að framburður verði að vera skýr. Þó má enn minna á, að í skjóli óskýrs framburðar má fela óskýra hugsun, jafnvel fákunnáttu í meðferð beyginga eða annarra mál- farslegra atriða. Hvers vegna eru menn t. d. oft í óvissu um það, hvort þeir eiga að nota smá- orðið af eða að eða jafnvel á? En krafan um skýran framburð er ekki einhlít. h'ann verður jafnframt að vera réttur og eðlileg- ur. Forðast ber í lestri stafsetningarframburð, sem á sér ekki stoð í töluðu máli. Áherzlur verða að vera réttar og málhreimur íslenzkur og tilgerðar- laus. Ef um lestur er að ræða, þarf lestrarhraði að vera hóflegur, svo að hvert atkvæði skili sér að fullu — en þó liðugur. Mjög hraður lestur stenzt tæplega skýrleikakröfuna. Mjög hægur lestur getur orðið silalegur og hikandi og því við- vaningslegur og óeðlilegur. í þessum efnum sem öðrum verður að leita mundangshófs. Lestrar- kennari má ekki varpa ábyrgðinni á skeiðklukk- una. Hann verður að sætta sig við þá áhyggju, sem fylgir því að beita eigin dómgreind. Fjöl- margt og raunar allt hið mikilvægasta í lestri og framburði verður ekki metið með neinum mæli- tækjum, sem hann getur haft tiltæk. Með skeið- klukku má mæla lesinn atkvæðafjölda á mínútu. En hún segir ekkert um lesturinn að öðru leyti. Voru langar þagnir milli orða? Var allt lesið í belg og biðu? Hún svarar ekki einu sinni þessum spurn- ingum, hvað þá öðrum um mikilvæg framburðar- atriði, sem drepið var á hér að framan. Við vandað mat á lestri getur klukka aðeins verið til stuðnings. Hún má ekki taka ráðin af kennaranum. Þroskuð dómgreind er svo mörgum sinnum fjölhæfara mælitæki en skeiðklukka. Mönnum hættir til að láta tæknina blekkja sig. Ef við réðum yfir litlu, handhægu tæki eins og skeiðklukku til þess að mæla hreim og áherzlur, en hefðum hins vegar engin tól til þess að mæla hraða eða taka tíma, má búast við, að allt snerist um hreiminn og áherzlurnar, en hraðinn væri van- ræktur. Baldur Jónsson.

x

Foreldrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Foreldrablaðið
https://timarit.is/publication/890

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.