Unga Ísland - 01.03.1939, Blaðsíða 10

Unga Ísland - 01.03.1939, Blaðsíða 10
34 UNGA ÍSLAND Sigga var allt í einu orðin fullorðin, og þó var hún eiginlega bara lítil stúlka ennþá með ljósa svuntu við stuttan kjól. Það gat annars ekki verið rétt að Gunnsa ætlaði að fara. Nei, gat ekki verið rétt. Kannski hafði honum aldrei þótt vænt um Gunnsu. Meira að segja stundum óskað henni langt í burtu. En samt, ef hún ætlaði nú að fara, — ja, þá hlaut henni að þykja það ósköp leiðinlegt. Já, það hlaut henni að þykja, og þá átti hún auðvitað svo bágt. Það gat ekki verið að pabbi og mamma vildu láta hana eiga bágt. Nei, og þá var heldur ekkert gaman meir. Þá var eitthvað búið að vera. — Og hvert? spurði hann að lokum. En Sigga var ekkert upp á það kom- in að segja allt, sem hún vissi. Það var hún ekki. — Gettu, sagði hún og setti stút á munninn. En hann gat ekki getið. Það var ómögulegt að geta. — Hann Gvendur frá Grjóti ætlar að fá hana sem ráðskonu, því að nú ætlar hann að fara að búa, sagði Sigga. Iiann spurði einskis meir. Ilann horfði rannsakandi á Gunnsu, er hún kom inn frá mjöltunum. Nei, hún var alveg eins og hún átti að sér. Þetta hlaut að vera bull úr Siggu. Átti hann að spyrja? Nei, hann spurði ekki. Ilann veitti Gunnsu eftirför svo lítið bar á. — Hvað er að þér, Skúli minn? spurði Gunnsa seinna um kvöldið, þá sat hann á kofforti inn í herbergi henn- ar, sagði ekkert, bara sat með hend- urnar á milli hnjánna, en hún var eitt- hvað að sýsla við sparipilsið sitt og slifsið. Nei, það var ekkert að honum. — Nú ætla ég að fara héðan alfar- in á morgun, Skúli minn. Verðurðu ekki feginn? Hann svaraði því engu, bara sat þög- ull og horfði niður á gólfið. — Ég held það væri ekki nema von, að þú yrðir feginn, greyið. Ég hefi víst aldrei verið þér góð fremur en öðr- um. Hann leit upp og sá ekki betur, en að það blikuðu tár í augum hennar. Hún sagði þetta svo, ja, svo einkenriilega, að það var sem heilt ský af klökkva legðist yfir barnssál hans. Hann sagði ekkert að heldur, en augu. hans fyllt- ust tárum. Ilann skyldi þó harka af sér. Hann stóð upp og ætlaði út úr herberginu, en hún sá hvað honum leið. — Skúli minn, sagði hún, ég veit að ég hefi oft verið vond við þig eins og alla aðra. Ég hefði ekki átt að vera það, en það er svo margt öðruvísi en það ætti að vera. Og það er svo margt, sem hefir gert mig svona. Ég hefi bar- ist við svo marga erfiðleika, sem þú þekkir ekki, sem betur fer. Ég veit að þú munnt fyrirgefa mér allt það illa, þegar ég er farin. Þú ert svo góður drengur og mér hefir í raun og veru alltaf þótt vænt um þig. Þú mátt eiga hann, seðilinn þann arna. Kauptu þér eitthvað fyrir hann, ef þú einhverntíma færð að fara út á Tanga. Hún lagði ljómandi fallegan fimmkrónu seðil í lófa hans. Hún klappaði vinalega á koll hans; hann ætlaði að segja eitthvað, en það kom ekkert hljóð fram, yfir varir hans. Ilann leit upp í andlit hennar og augu hans voru full af tárurn þakklætisins. Iíann sagði ekki neitt. Svo laut hún niður og kyssti hann beint á munninn. — Blessaður drengurinn, sagði hún, og hann var þotinn burt á samri stundu.

x

Unga Ísland

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Unga Ísland
https://timarit.is/publication/894

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.