Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2011, Side 134
Mat á umhverfisáhrifum 2002-2006
I kjölfar þessa vanrv Vegagerðin mat á umhverfisáhrifum fyrir nýjan veg á milli Öxarfjarðar
og Þistilfjarðar um Hólaheiði og Hófaskarð, með tengingu til Raufarhafnar.
I lögum um mat á umhverfisáhrifum er lagning vega lengri en 10 km ávallt háð mati á
umhverfisáhrifum. Samanlögð vegalengd nýrra vega var áætluð 56 km og framkvæmdin
því matsskyld.
Matsáætlun
Matsáætlun vegna framkvæmdarinnar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á
umhverfisáhrifum var samþykkt í október 2002. í matsáætluninni var kynnt rann-
sóknarsvæði sem mögulegar veglínur skyldu falla innan.
Ymsir sérfræðingar voru fengnir til að gera rannsóknir. Fornleifastofnun íslands gerði
fornleifakönnun, Náttúrufræðistofnun íslands gerði rannsókn á jarðfræði, vatnsvernd,
gróðurfari og fuglalífi, Haraldur Ólafsson veðurfræðingur gerði rannsókn á veðurfari,
Orion Ráðgjöf ehf. gerði rannsókn á færð, veðri og hugsanlegum snjóflóðastöðum, VSÓ
Ráðgjöf tók saman upplýsingar um landslag á svæðinu, umferðardeild Vegagerðarinnar
gerði umferðarkönnun og umferðarspá og jarðfræðideild Vegagerðarinnar gerði námu-
rannsóknir.
Markmið framkvæmdar
Framkvæmdin felst í því að tengja saman Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn með góðum
heilsársvegi og koma þessum byggðum í betra vegasamband við aðra landshluta.
Tilgangur framkvæmdarinnar í heild sinni er að styrkja samgöngur milli byggðakjarna á
Norðausturlandi, auka umferðaröryggi og stuðla að greiðari samgöngum á svæðinu með
því að leggja heilsársveg með hönnunarhraða 90 km/klst. Jafnframt að lágmarka aksturs-
fjarlægð á milli þéttbýliskjarna og stuðla þannig að myndun eins þjónustusvæðis sem nær
til Kópaskers, Raufarhafnar og Þórshafnar.
Matsskýrsla
Drög að matsskýrslu og fyrirhuguð framkvæmd voru kynnt fyrir heimamönnum í janúar
2005. Matsskýrsla sem byggir á matsáætlun og niðurstöðum fjölmargra sérfræðinga á
ýmsum sviðum var lögð fram í febrúar 2005. Meðal annars voru metin möguleg áhrif
framkvæmda á jarðmyndanir, landslag, gróðurfar, fuglalíf, vatnafar, fornleifar og
samfélag. Við skilgreiningu og ákvörðun um valkosti var fjöldi leiða skoðaður. Á sjö
köflum fyrirhugaðs vegar voru lagðir fram valkostir til athugunar og úrskurðar Skipu-
lagsstofnunar. Stór liður í þeirri vinnu var að koma til móts við sjónarmið landeigenda,
draga úr umhverfisáhrifum og velja hentugt vegstæði.
I niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum kom fram að á heildina litið væru áhrif hinna mis-
munandi áfanga fyrirhugaðs vegar um Hólaheiði á umhverfið ekki mikil. Áhrif á einstaka
umhverfisþætti voru að mati framkvæmdaraðila frá því að vera jákvæð eða engin upp í
talsverð neikvæð áhrif.
Fram kom að framkvæmdin myndi hafa nokkur til talsverð jákvæð áhrif á samfélagið á
svæðinu. Megináhrif hennar á samfélag yrðu stækkun atvinnu- og þjónustusvæðis.
Kópasker og Raufarhöfn yrðu eitt atvinnusvæði og samskipti á milli Raufarhafnar,
Þórshafnar og Kópaskers myndu aukast. Bætt aðgengi að þjónustu og möguleikar á tíðari
samskiptum milli byggðakjarnanna myndu bæta lífsskilyrði á svæðinu og auka sam-
kennd íbúanna. Nýr vegur væri forsenda fyrir mögulegri sameiningu sveitarfélaga á
svæðinu og myndi auðvelda allan sameiginlegan rekstur opinberrar þjónustu.
1 3 2
Arbók VFl/TFl 2011