Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2011, Page 296
Einn kostur við virkjun sjávarfalla umfram ýmsa aðra endurnýjanlega orkugjafa, s.s. vind
eða sólarljós, er hversu auðvelt er að spá fyrir um sjávarföll og sjávarfallastrauma sem
stjórnast af þekktum hreyfingum himintungla.
Sjávarföll við ísland eru um margt athyglisverð. Sjávarfallabylgjan gengur réttsælis
umhverfis landið á sveiflutíma sínum auk þess að ganga rangsælis í kringum
jafnstöðupunkta í hafinu norðvestur og austur af landinu. Sjávarföll eru því tiltölulega
flókin við landið og mikill munur á bæði útslagi og fasa sjávarfalla frá einum stað til
annars. Sjávarföll eru hæst við Vesturland en minnstur munur flóðs og fjöru er við
Norður- og Austurland. Sjávarföll hafa lengi verið mæld í höfnum landsins og út fra
tíðnigreiningu á þeim mæliröðum hafa Sjómælingar íslands gefið út spá fyrir sjávarföll
víðs vegar kringum landið frá því um miðja síðustu öld.
Reiknilíkan fyrir sjávarföll í hafinu umhverfis ísland hefur verið í þróun frá því á tíunda
áratug síðustu aldar. Þróun líkansins hófst árið 1993 hjá Verkfræðistofnun Háskóla
íslands og var síðan haldið áfram hjá VST (nú Verkís) í samstarfi við Siglingastofnun
íslands (SÍ). Á síðustu árum hefur líkanið verið endurbætt sem hluti af verkefni um
sjávarfallatengt atferli þorsks sem unnið hefur verið í samstarfi Verkíss, Háskólans 1
Reykjavík, Hafrannsóknarstofnunarinnar, Siglingastofnunar Islands o.fl.
Með reiknilíkaninu má spá fyrir um sjávarföll og sjávarfallastrauma í öllu hafinu
umhverfis ísland fyrir hvaða tímabil sem er auk þess sem hægt er að taka tillit til
veðurfarslegra áhrifa á sjávarhæð til að spá fyrir um frávik frá reiknuðum sjávarföllum af
völdum loftþrýstingsbreytinga og vindspennu á yfirborð sjávar, svokölluð sjávarflóð. Hja
Siglingastofnun íslands er sjávarfallalíkanið keyrt daglega byggt á veðurspá frá ECMWF
(European Center for Medium range Weather Forecasts) þar sem spáð er fyrir um
sjávarhæðir og strauma við landið fimm daga fram í tímann. Niðurstöður eru aðgengilegar
öllum á vefsetri stofnunarinnar (www.sigling.is).
Líkanið hefur auk þess verið notað við ýmsar aðrar rannsóknir og athuganir, s.s.
nákvæma kortlagningu strauma víðs vegar um landið vegna mats á dreifingu mengunar
í sjó, við athugun á sjávarfallastraumum í Breiðafirði þar sem orkugeta sjávarfallavirkjunar
í mynni Hvammsfjarðar var metin og í verkefni um mögulega nýtingu sjávarfallastrauma
til raforkuframleiðslu í Hornafirði. Líkanið hefur einnig verið notað til að spá fyrir um
dreifingu olíumengunar á sjó, rek hafíss, flóðbylgjur vegna berghlaupa í sjó og við
staðsetningu þorska út frá sjávarföllum.
Á nokkrum stöðum erlendis hefur verið sett fram yfirlit yfir orku sjávarfalla til að nota við
mat á mögulegri nýtingu hennar. Sem dæmi má nefna kort yfir sjávarfallaorku í hafinu
umhverfis Bretlandseyjar (Atlas of UK Marine Renewable Energy Resources) og skýrslu
um mögulega staði fyrir sjávarfallavirkjanir við Kanada (Tarotton et al., 2006). Tilvist
reiknilíkans fyrir sjávarföll við ísland gerir kleift að setja fram mat á orku sjávarfalla í öllu
hafinu umhverfis landið og hér á eftir er gerð grein fyrir kortlagningu orku og afls
sjávarfalla við landið. Fyrst er fjallað um líkanið og forsendur útreikninga en síðan eru
sett fram kort yfir hámarksstraumhraða sjávarfalla við landið, hámarksafl þeirra á stór-
streymi og smástreymi, meðalafl sjávarfalla og loks mat á heildarorku sjávarfalla yfir heilt
ár. Niðurstöðurnar byggjast á reiknilíkani með 2 km x 2 km upplausn á landgrunni
íslands og gefa góða heildarmynd af orku og afli sjávarfalla, en vegna takmarkaðrar
upplausnar geta mjög staðbundin áhrif rasta og straumstrengja verið verulega vanmetin
í þessum niðurstöðum eins og nánar er gerð grein fyrir hér á eftir. Til þess að fá nákvæmt
mat á staðbundnum aðstæðum á einstökum stöðum þarf nánari athuganir með líkaninu
studdar af staðbundnum mælingum.
294 I Árbók VFf/TFl 2011