Bændablaðið - 23.09.2010, Qupperneq 26
10 | ÖRÆFANETIÐ
Á hlaðinu í Skaftafelli hafa Íslenskir fjallaleið-
sögumenn komið sér upp veglegri aðstöðu
þar sem þeir bjóða upp á leiðsögn um fjöll
og jökla í þjóðgarðinum. Fyrirtækið var
stofnað af fjórum ungum fjalla- og leiðsögu-
mönnum árið 1994. Markmið þess hefur frá
upphafi verið að fara ótroðnar slóðir með
innlenda sem erlenda ferðamenn, opna augu
fólks fyrir fjallaferðum, stuðla að verndun
viðkvæmrar náttúru norðurslóða og að auka
gæði og fagmennsku í leiðsögn. Fyrirtækið
hefur vaxið mjög á þeim 16 árum sem liðin
eru frá stofnun og í dag eru 47 leiðsögu-
menn skráðir á heimasíðu þess auk um það
bil 20 starfsmanna á skrifstofu.
„Aðstaðan hér hefur breyst mikið frá því
þeir félagarnir fóru af stað með þessa starf-
semi á sínum tíma. Þá höfðust leiðsögu-
mennirnir við í tjöldum hér á tjaldstæðinu og
búnaðurinn var geymdur í tunnum. Núna
erum við komin með þetta hús undir búnað
og afgreiðslu og síðan hafa leiðsögumenn-
irnir mun betri gistiaðstöðu í færanlegum
húsum hér á lóðinni,“ segir Arinbjörn Hauks-
son, starfsmaður Íslenskra fjallaleiðsögu-
manna, sem stóð vaktina í afgreiðslu fyrir-
tækisins í Skaftafelli þegar blaðamann bar að
garði. Hann segir að ferðaframboðið hafi
þróast mikið og úrval ferða aukist en fyrir-
tækið er einnig með aðstöðu á Skógum og
býður ferðir á Sólheimajökul.
Aðspurður segir Arinbjörn að sumarið hafi
verið ágætt þótt ekki hafi verið jafn mikið að
gera og í fyrra sem var algjört metár. Hann
segir einnig að ferðamannastraumurinn hafi
byrjað heldur seinna en þá og dreifst yfir
lengri tíma. Líklega hafi gosið í Eyjafjallajökli
haft einhver áhrif en ekki síður heimsmeist-
arakeppnin í knattspyrnu.
Í sumar buðu Íslenskir fjallaleiðsögumenn
upp á nokkrar mislangar ferðir á Svínafells-
jökul og fjöllin í nágrenni Skaftafells. Ferð-
irnar voru allt frá tveimur og hálfri klukku-
stund og upp í sjö klukkustunda heilsdags-
ferðir. Einnig er hægt að komast í ísklifur og í
ferðir á Hvannadalshnjúk og á Hrútfjallstinda
þegar aðstæður leyfa. Í styttri ferðunum er
lögð áhersla á að fólk sé vel búið og í góðum
gönguskóm og er jafnvel hægt að leigja sér
skó á staðnum ef þeir sem komið er í teljast
ekki nógu traustir. Allir sem fara í ferðir fá
brodda og ísaxir en í lengri ferðum bætast
við öryggisbelti og hjálmar. Þann stutta tíma
sem blaðamaður staldraði við hjá Íslenskum
fjallaleiðsögumönnum var greinilegt að ferð-
mönnum þótti tilkomumikið að fá þennan
veglega öryggisbúnað í upphafi ferðar.
Myndavélar voru óspart dregnar fram og
væntanlegir göngugarpar myndaðir í bak og
fyrir með hjálma og ísaxir reiddar um öxl.
www.fjallaleiðsögumenn.is
Arinbjörn Hauksson hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum segir að sumarið hafi verið gott en hafi samt ekki jafnast á við metsumarið 2009.
Íslenskir fjallaleiðsögumenn í Skaftafelli:
Markmiðið að opna augu
fólks fyrir fjallaferðum
Góð fjarskipti eru mikilvægust þar sem fjar-
lægð á milli bæja er mikil og langt að sækja
þá þjónustu sem við teljum til almennra lífs-
gæða í dag. Aðgangur að menntun og marg-
víslegum störfum, sem byggð eru á tölvu-
tækni og skjótum samskiptum fyrirtækja og
stofnana við viðskiptavini sína, eru meðal
þeirra gæða sem eftirsóknarverð eru í dag.
Íbúar í Öræfasveit hafa þurft að aka um
langan veg til að sækja sér þessi gæði en
með samstilltu átaki og frumkvæði íbúanna
hefur verið komið upp tækni til að færa þau
heim í stofu til þeirra. Ljósleiðari getur flutt
margfalt meira gagnamagn en önnur fjar-
skiptakerfi auk þess sem áreiðanleiki er meiri
þar sem ekki þarf að hafa sömu áhyggjur af
veðurfari og öðrum þáttum sem alla jafna
geta truflað samskipti.
Það eru nokkur ár síðan að boðað var til
fundar í Öræfum þar sem fulltrúar sveitar-
félagsins mættu til viðræðna við íbúa um
fjarskiptamál. Hugmyndin sem þá var reifuð
var stór og það gætti efasemda um hvort
hægt væri að ná verkefninu í höfn. Margt
þurfti til að hugmyndin gæti gengið upp og
margir þurftu að róa í takt en þar léku
Fjarski, Knútur Bruun og Ingólfur sonur hans
og RARIK lykilhlutverk. Utanríkisráðuneytið,
Landsvirkjun og Vodafone eiga einnig stóran
þátt í að tekist hefur að láta drauminn ræt-
ast. Íbúarnir hafa sjálfir reitt fram háar fjár-
hæðir til að gera þetta að veruleika og mér
er til efs að íbúar í þéttbýli gætu stillt saman
strengi sína með þessum hætti.
Framfaraspor
Það er aldrei auðvelt að skyggnast til fram-
tíðar en trú mín er sú að ásamt tengingu
hringvegarins og stofnun þjóðgarðsins í
Skaftafelli muni lagning ljósleiðarakerfisins
sanna sig sem eitt mesta framfaraspor sem
stigið hefur verið í Öræfum síðustu áratugi.
Möguleikarnir sem nú opnast eru meðal
annars þeir að störf, sem útheimta góð fjar-
skipti, eins og upplýsingatækni, fjarmenntun,
fjarvinnsla og fleira geta nú fest rætur án
vandkvæða og unga fólkið fær möguleika á
að nýta sér til fullnustu kosti Internetsins og
tölvutækninnar í námi og leik.
Ég tel að ljósleiðaraverkefnið í Öræfum
verði fyrirmynd fyrir aðrar sveitir í Sveitar-
félaginu Hornafirði og í raun um allt land og
setji ný viðmið í fjarskiptamálum. Verkefnið
bætir grunngerð samfélagsins til mikilla
muna og það verður síðan íbúa í Öræfum,
sveitarfélagsins, stofnana og fyrirtækja á
svæðinu að vinna að hagnýtingu þeirra tæki-
færa sem það skapar.
Hjalti Þór Vignisson
sveitarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjörður
www.hornafjordur.is Ljósleiðaraverkefnið í Öræfum verður fyrirmynd fyrir aðrar sveitir í sveitafélaginu segir Hjalti Þór
Vignisson.
Samstillt
átak og frum-
kvæði íbúa
Kveðja frá sveitarstjórn
Hæstur
tinda
Öræfajökull gengur suður úr Vatnajökli
og frá honum falla fjölmargir skriðjöklar,
svo sem Skaftafellsjökull, Svínafellsjökull,
Virkisjökull, Falljökull, Kvíárjökull og
Fjallsjökull en við hann er samnefnt
jökullón, Fjallsárlón. Hæsti tindur Öræfa-
jökuls nefnist Hvannadalshnjúkur og er
hæsti tindur Íslands. Öræfajökull er eld-
keila og árið 1362 varð mikið gos í jökl-
inum. Gríðarlegar hamfarir urðu í Litla-
Héraði og tugir bæja lögðust í eyði
vegna flóða og gjóskufalls. Litla-Hérað
sem var blómleg sveit, fékk á sig ásýnd
eyðimerkur og hefur síðan heitið Öræfi.
Aftur gaus Öræfajökull árið 1727 og
stóð gosið í tæpt ár. Tjón varð þó ekki
eins mikið og í fyrra gosi. Enn má sjá
merki frá þessu gosi á Háöldu milli Sand-
fells og Hofs en þar er jökulker, sem
hefur verið friðlýst.