Bændablaðið - 12.07.2012, Blaðsíða 7

Bændablaðið - 12.07.2012, Blaðsíða 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 12. júlí 2012 7 ið höldum okkur enn um sinn fyrir vestan, n.t.t. við nægta- borð Valdimars H. Gíslasonar á Mýrum í Dýrafirði. Hinn illræmdi refur Móri var tíður gestur í Mýrarvarpi. En þar kom að Móri féll fyrir feigðarskoti frá Zófoníasi Þorvaldssyni á Læk. Móri mætti örlögum sínum undir Mýrarfellstagli. Þá orti Valdimar H. Gíslason: Móri hann var mæðustrá, mörgu tók við hagli. Loks í nótt hann lokar brá, látinn undir Tagli. En vaktmenn eiga sér líka auðnu- stundir á vaktinni. Einn með „gráa fiðringnum“ orti Einar Gíslason frá Mýrum: Fátt er nú til fanga ríkt, fyrnast lífsins gæði. En gaman væri að geta drýgt góða synd í næði. Margar atlögur höfðu verið gerðar áður en loks tókst að fella dýrið í æðarvarpi Mýrarbænda. Kristján Rögnvaldur Einarsson, stórskytta á Flateyri, sem jafnan missir ekki marks, skaut þó einu sinni laust á Móra. Þá orti hann: Sjá, hann kemur mér í mót mórauður og hnellinn. Andartak hann féll við fót en fældist síðan hvellinn. Össur Torfason, hreindýraskytta frá Egilsstöðum, á meira en 100 vaktnætur að baki við Mýrarvarp. Byssa hans heitir Feita-Berta. Heldur þótti vaktmönnum hún hávær eina nóttina, og af því tilefni varð til einskonar samsuða í talstöðvum manna: Nú var Berta þykkjuþung, þaut í vippugati. Össi tóbaks eltir pung, enginn veifiskati. Steinþór Kristjánsson frá Hjarðardal í Önundarfirði lá í skot- húsi yst á Mýrarmel. Hann orti drápu um þá lífsreynslu sína, sem hefst á þessu erindi: Á sandi byggði hygginn maður hús með hásæti og góðri pissukrús. Ég út um gluggann gægðist fram á nótt ef gamli rebbi kemur, deyr hann skjótt. Einstaka sinnum gefst þó tóm til alvöru íþrótta á blöðum Braga. Steinþór Kristjánsson, sem jafnan er kallaður Dúi, hafði barist við sléttubandavísu lengi nætur en náði ekki endum saman. Með honum á vaktinni var Ólafur Halldórsson frá Mýrum og dró hann Dúa að landi: Dúinn snúinn dúllar sér, dottar, vindil tottar. Lúinn búinn lúllar hér, léttar andar þéttar. Einhverju sinni voru Gylfi og Tinna, börn Ólafs frá Mýrum, á tófuvakt. Mikið þótti þeim til um tilþrif Kristjáns Rögnvaldar Einarssonar við refaveiðarnar og ortu í sameiningu þessa limru: Nú annar hver skolli er dáinn og því finnst oss ei út í bláinn, að Kiddi Valdi Einarsson kaldi sé maðurinn með ljáinn. Umsjón: Árni Jónsson kotabyggd1@gmail.com Í umræðunni Mælt af Munni fraM V Framúrskarandi hestakostur á Landsmóti Deilur um staðarval drógu úr aðsókn, að mati formanns Landssambands hestamanna Landsmóti hestamanna lauk sunnudaginn 1. júlí síðastliðinn í Víðidal í Reykjavík. Mótið var í alla staði hið glæsilegasta, hestakostur þótti afar góður og aðstæður allar til fyrirmyndar. Um 9.500 gestir mættu á mótið en um 1.000 hestar tóku þátt ásamt um 600 knöpum. Lengst af lék veðrið við mótsgesti en þó kláraðist mótið í úrhellisrigningu. Þetta er aðeins í annað sinn sem landsmót er haldið í Víðidal en áður fór það þar fram árið 2000. Nokkuð harðar deilur urðu um staðarvalið í aðdraganda mótsins og ekki er útséð um hvernig þeim málum verður háttað í framtíðinni. Almennt eru hestamenn þó á því að erfitt verði að gera önnur mótsvæði sambærileg við Víðidalinn, ekki síst í ljósi þess að nægt hesthúsapláss er í næsta nágrenni en það hefur hvað helst verið gagnrýnt við landsmótsstaðina Gaddstaðaflatir og Vindheimamela. Þá væri nægt gistirými í Reykjavík fyrir gesti mótsins og þjónusta öll innan seilingar. Færri gestir en vonast var til Bændablaðið tók Harald Þórarinsson, formann Landssambands hestamannafélaga, tali að loknu móti og spurði hann fyrst hvernig honum hefði þótt takast til. Haraldur var almennt ánægður með mótið. „Í stórum dráttum heppnaðist öll framkvæmd mótsins vel og það sem við settum upp gekk í meginatriðum. Við hefðum að vísu viljað sjá fleira fólk. Aukningin frá því á landsmótinu á Vindheimamelum í fyrra liggur, að því er ég tel, fyrst og fremst í fleiri útlendingum. Þeir útlendingar sem komu og við höfum heyrt af eru mjög ánægðir með mótið. Knapar og hestaeigendur eru sömuleiðis afar ánægðir og gestir, það við heyrum mest.“ Deilur um staðarval höfðu áhrif Haraldur segir að í sínum huga sé ljóst að þær deilur sem urðu um stað- arvalið hafi haft áhrif á mætingu á mótið. „Það held ég alveg örugglega. Ég held að hluti af hestaáhugafólki úti á landsbyggðinni hafi setið heima og það var meðal annars vegna þess hvað urðu heiftúðugar deilur um þessa hluti. Ég held að það hafi haft áhrif, nema á þennan allra harðasta kjarna sem mætir hvar sem mót eru haldin. Menn töluðu um að landsmót gæti ekki verið í Reykjavík, það væri engin stemming og svo framvegis. Menn töluðu mótið niður með mjög skipulögðum hætti. Nú held ég að menn verði að hefja sig upp úr því, reyna að ræða málin í rólegheitum og sjá hvað er best fyrir umgjörðina utan um íslenska hestinn. Ég hef heyrt að nú, eftir mótið, vilji sumir gera þá kröfu að mótið verði hvergi haldið nema boðið verði upp á sambærilegar aðstæður fyrir gesti, fyrir hestana og þá sem eru að vinna með þá.“ Verður að forðast öfgafulla umræðu Í ljósi þessa spyr blaðamaður hvort að slíkar kröfur þýði ekki að eng- inn staður nema Víðidalur komi til greina til landsmótshalds. Haraldur játar því að svo sé, ætli menn sér að gera kröfur um að aðstæður verði sambærilegar og hægt var að bjóða upp á á mótinu nú.„Það er einmitt þessi öfgafulla umræða sem menn eiga að forðast. Víðidalurinn kemur vissulega til greina aftur, en næsta mót verður á Hellu. Það er alveg ljóst, það er búið að skrifa undir og því verður ekkert breytt. Síðan hefjast viðræður um mótið 2016 við Vindheimamela. Ég efast þó um að þær viðræður verði kláraðar fyrr en búið verður að greina þetta mót.“ Haraldur segir að það yrði mjög til bóta ef hægt yrði að komast að niðurstöðu um hvaða kröfur menn vilji gera til landsmótssvæða og sömuleiðis ef hægt yrði að raða landsmótsstöðum niður til lengri tíma en nú er. „Ef við ætlum að markaðssetja mótið almennilega þurfum við að skilgreina hvað við viljum bjóða upp á á svæðunum. Það sem við þurfum samt fyrst og fremst að komast upp úr er þessi staðarvals- pólitík. Þetta snýst um að við getum búið hestinum og þeim sem eru að vinna með hann þannig skilyrði að hægt sé að sýna hestinn og kynna sem best, þannig að réttlæta megi þær fjárfestingar sem lagt er í milli móta. Staðir, sem ekki er hægt að reka sjálfbært á milli móta, hljóta að víkja til hliðar.“ Árangurinn framúrskarandi Hvað varðar árangurinn á mótinu fannst Haraldi hann framúrskarandi. „Maður stendur alltaf jafn gapandi yfir því hvað hrossin eru að verða betri og betri. Þau eru betur þjálfuð, betur sýnd og ég held að segja megi að hestakosturinn á mótinu núna hafi verið alveg frábær. Hann var ekki síðri en á Vindheimamelum í fyrra og ég held að ef eitthvað er hafi hann heilt yfir verið betri. Dómarnir voru mjög góðir og maður heyrði ekki mikla óánægju með þá, hvorki kynbótadómana né dómana í gæð- ingakeppninni. Ég held að við séum að sjá mjög markvissar framfarir, á öllum sviðum hestamennskunnar. Það er hins vegar staðreynd að Svíar eru að sigla mjög fast á eftir okkur í kostum í sínum bestu hrossum. Við þurfum því að huga vel að þessum málum. Eins og þetta er að þróast núna er eingöngu verið að selja topp- hross úr landi, kynbóta- og keppnis- hross. Annað er mjög þungt í sölu. Það segir okkur að útlendingar eru að sækja hingað rjómann af ræktuninni og við verðum því að standa vel í lappirnar í okkar ræktun. Það skiptir okkur geysilega miklu máli að vera í forystunni í öllu sem viðkemur íslenska hestinum og þá þurfum við líka að vera í forystu hvað varðar umgjörðina, mótahald og slíkt. Við þurfum að sýna að við getum haldið mót með fjölbreyttum hætti, bæði í borg og úti á landsbyggðinni þar sem allar aðstæður eru í topplagi.“ /fr Haraldur Þórarinsson, formaður Landssambands hestamannafélaga. Stemningin í brekkunni var afar góð enda lék veðrið við mótsgesti. Setning mótsins tókst vel og þótti hin glæsilegasta. Ljósmyndir: HKr.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.