Bændablaðið - 12.07.2012, Qupperneq 12
Bændablaðið | Fimmtudagur 12. júlí 201212
Fréttir
Matur skipar óneitanlega mikil-
vægan sess í ferðaþjónustu. Eitt
af því sem ferðamenn vilja ekki
vera án er góður matur og margir
hafa áhuga á að kynna sér matar-
menningu á þeim svæðum sem
þeir heimsækja. Hadda Björk
Gísladóttir, sem rekur ferðaþjón-
ustufyrirtækið Look North Travel
í félagi við eiginmann sinn Hauk
Snorrason ljósmyndara, býður
ferðamönnum að dvelja dagpart
í Hrífunesi í Skaftártungu og
galdrar fram margrétta matar-
veislu í samvinnu við gestina.
Hadda Björk sagði nýlega upp
vinnunni í alþjóðlegu lyfjafyrir-
tæki og ákvað að hella sér af full-
um krafti í ferðaþjónustuna.
Keyptu land og hús
Á því herrans ári 2007 keyptu þau
Hadda Björk og Haukur 10 hektara
spildu úr Hrífunesi ásamt gömlum
húsakosti. Gamla samkomuhúsið
hafði þá staðið ónotað um árabil
og þurfti gagngerrar endurnýjunar
við. Nú er þarna fyrirtaks gistihús,
Hrífunes Guesthouse, með
svefnaðstöðu fyrir allt að 25 gesti.
Hadda Björk hefur undanfarin ár séð
um matreiðslu fyrir ferðamennina
og getið sér gott orð fyrir handtökin
í eldhúsinu. Hún hefur í nokkur
ár boðið erlendum gestum í mat á
heimili þeirra hjóna í Reykjavík en
er nú að feta sig áfram í því að halda
stutt námskeið þar sem gestirnir
sjálfir taka þátt í matargerðinni.
„Við höfum rekið ferðaþjónustu-
fyrirtæki sem hefur aðallega boðið
upp á sérsniðnar ferðir fyrir ljós-
myndara en líka aðra ferðamenn.
Héðan er stutt í náttúruperlur á borð
við Landmannalaugar og margt
að sjá í nágrenninu. Hóparnir fara
í dagsferðir frá Hrífunesi og hafa
bækistöð hér,“ segir Hadda Björk.
Í vor hafði ferðaskrifstofan Ísafold
samband og bað Höddu Björk um að
halda matreiðslunámskeið fyrir hópa
Svisslendinga sem væru væntan-
legir í sumar. „Ég hugsaði mig ekki
lengi um og ákvað að hella mér út
í þetta. Við tókum á móti 7 manna
hópi í fyrsta skiptið og síðan komu
14 manns í þeim næsta. Þetta gekk
vonum framar og allir voru ánægðir,
stemningin var ekki ólík þeirri sem
var í dönsku kvikmyndinni Babettes
gæstebud!“
Hráefni af heimaslóð
„Ég legg áherslu á að vera með
hráefni úr sveitinni, m.a. tvíreykt
hangikjöt, sjóbirting, gæsabringur
og lambakjöt. Svo blanda ég saman
erlendum hefðum við íslenskar í
matargerðinni. Ég nota krydd, jurtir
og sveppi sem ég finn í íslenskri nátt-
úru og sulta úr berjum sem ég tíni
á haustin. Áður en hóparnir komu
útbjuggum við átta blaðsíðna upp-
skriftabækling þar sem fjallað er
um hráefnið í máli og myndum. Þar
koma m.a. við sögu lambalæri sem er
eldað í holu, graflax, saltfiskur, rúg-
brauð, rótargrænmeti, skyr, rabarbari
og fleira góðgæti. Við höfum einnig
farið með gestina okkar í heimsókn
til bændanna í nágrenninu og fengið
að smakka afurðir þeirra,“ segir
Hadda Björk.
Matarferðamennskan í Hrífunesi
gæti undið upp á sig, því í haust
er von á hópi blaðamanna frá
evrópskum matartímaritum til þess
að elda og upplifa dásemdirnar í
Hrífunesi.
Matreitt úr melgresismjöli
Hadda Björk er með fleiri járn í
eldinum því hún hefur unnið að því
að vinna melgresisfræ til að nota
í matargerð. „Melgresi var mikið
nýtt á fyrri öldum hér í Vestur-
Skaftafellssýslu í matargerð, t.d. í
brauð og bakstur. Ég fékk nokkur
kíló af mjöli hjá Landgræðslunni
og hef verið að prófa mig áfram í
því að búa til brauð og lummur úr
melmjölinu. Það eru verðmæti fólgin
í því að nota hráefni sem hægt er
að finna í sínu nánasta umhverfi og
hefur sögulega skírskotun í gamlar
matarhefðir og menningu. Hver
veit nema melgresisbrauð gæti
orðið einkennandi fyrir þetta svæði
í framtíðinni,“ segir Hadda Björk
Gísladóttir.
Nánari upplýsingar um þjón-
ustuna í Hrífunesi má nálgast á vef-
síðunni www.hrifunesguesthouse.is
og www.looknorth.is.
/TB
Íslenskur matur í forgrunni í ferðaþjónustu:
„Eins og í Babettes gæstebud“
- Gestirnir elda sjálfir og læra um íslenskt hráefni
Hadda Björk Gísladóttir ásamt syni sínum Sigurði Snorra Haukssyni.
Í Hrífunes Guesthouse er pláss fyrir allt að 25 gesti.
Hópur svissneskra ferðamanna heimsótti Hrífunes Guesthouse á dögunum,
tók þátt í að matreiða margrétta máltíð og fræddist um íslenskt hráefni úr
sveitinni. Mynd: Anna Hansdóttir.
Gestirnir fá uppskriftabækling
með myndum og nákvæmum leið-
beiningum sem þeir taka með sér
heim.
Myndir: TB
Góður gangur í minkaræktinni
dregur nýliða inn í greinina
Góð sala og hátt verð minkaskinna
síðustu misseri hefur valdið því að
minkarækt hefur vakið athygli sem
spennandi búgrein á nýjan leik.
Til margra ára börðust menn í
bökkum við þennan búskap en
nú stendur hann í blóma. Íslensk
skinn eru með þeim fremstu í heimi
hvað varðar gæði og forsvarsmenn
búgreinarinnar greina aukinn
áhuga fólks á að hefja búskap.
Reyndar hefur talsverðu púðri
verið eytt í að kynna Ísland erlendis
sem hentugt fyrir þennan búskap.
Það eru hins vegar, enn sem komið
er, fyrst og fremst Íslendingar sem
hafa komið nýir inn í greinina eða
eru að auka við sig.
Nú um stundir eru nokkrir aðilar
ýmist að hugsa sér til hreyfings eða
komnir af stað í minkarækt. Björn
Harðarson í Holti í Flóa er einn þeirra
en ásamt tengdasyni sínum hóf hann
minkarækt nú sl. vor. Björn er kúa-
bóndi með um 70 mjólkandi kýr en
tengdasonur hans vinnur sem smiður
á Selfossi. „Ég átti fjárhús hér sem
okkur datt í hug að nota undir eitt-
hvað annað en fellihýsi og ákváðum
þá að prófa minkinn, ég og tengda-
sonurinn. Við fengum til okkar 300
hvolpafullar læður 15. apríl sl. og
þær fóru að gjóta fljótlega eftir það.
Við erum komnir upp í 1.700 hvolpa
og þetta er full nýting á húsunum eins
og þau eru í dag,“ segir Björn.
Allir viljugir að hjálpa
Læðurnar fengu þeir keyptar hjá
minkabændum í nágrenninu á
Suðurlandi og segir Björn alla hafa
verið mjög viljuga að hjálpa þeim að
hefja þennan búskap. „Við höfðum
enga tengingu inn í þessa grein fyrir
en það hefur gengið ágætlega hjá
okkur. Frjósemin var mjög góð og
þetta hefur gengið svona eins og það
á að ganga fyrir sig. Við höfum verið
duglegir að heimsækja þá sem eru
hérna í kringum okkur, Bjarna í Túni
og Stefán og Katrínu í Ásaskóla.
Við höfum svo nýtt okkur faglegu
ráðgjöfina þónokkuð. Við höfum
talað heilmikið við hann Einar á
Skörðugili, heimsóttum hann um
daginn og hann hefur líka komið
hingað og sagt okkur til.“
Björn segir að vissulega fylgi
nokkur kostnaður því að byrja svona
búskap. Hins vegar komi tekjur mjög
fljótt inn á móti. „Við keyptum
búrefni fyrir fimm milljónir og
settum þau saman sjálfir. Læðurnar
keyptum við af bændum hér og
borgum þær þegar skinnin seljast,
sem er auðvitað mjög hagstætt fyrir
okkur. Svo er auðvitað alls konar
kostnaður við breytingar á húsunum.
Það þarf að setja plast í þökin til að
hleypa birtunni inn, setja vikur í
gólfin og gera húsin minkheld og
fuglheld. Ef menn eiga hús sem henta
þokkalega í þetta þá er ekki galið að
prófa þennan búskap.“
Útilokar ekki stækkun
Í ljósi þess hversu stutt er liðið síðan
minkarækt hófst í Holti er ekki
auðvelt að segja til um næstu skref
í búskapnum. Björn segir þó að þeir
séu bjartsýnir og vel sé hugsanlegt
að stækka búið frekar. „Við ætlum
allavega að fara einn hring í þessu
áður en við förum að huga að
stækkun. Það á eftir að slátra og pelsa
í nóvember og það verður nýtt fyrir
okkur. Við höfum heldur ekki parað,
við keyptum bara hvolpafullar læður.
Næsta sumar förum við kannski
að spá í stækkun. Þá þyrftum við
sennilega að byggja, við eigum
ekki önnur hús sem við gætum nýtt
í þetta. Það eru að vísu fyrrverandi
minka- og refaskálar hér í sveitinni
en þeir eru nú orðin ansi þreyttir
margir, þannig að kannski yrði best
að byggja bara. Alla vega munum við
skoða málin næsta sumar.“
Góður gangur í sölu á skinnum
og há verð urðu vissulega til þess
að Björn fór að skoða málin hvað
varðar minkaræktina. Hann gerir sér
þó grein fyrir því að þau verð sem
nú er um að ræða eru ekki heilög.
„Eins og Einar Einarsson ráðunautur
benti okkur á, þá lifir maður auðvitað
á meðalverðinu en ekki toppunum.
Verðið má sem sagt lækka en samt
myndi þetta borga sig því þetta er
auðvitað mjög gott núna.“
Ætla að byrja í haust
Í haust hyggjast ung hjón, Lilja
Finnbogadóttir og Freyr Andrésson,
hefja minkabúskap á Deildarfelli í
Vopnafirði. Hvorugt þeirra á ættir
að rekja í Vopnafjörðinn en búa
hins vegar svo vel að systir Freys,
Halldóra, býr með manni sínum á
Grænalæk í Vopnafirði með mink.
„Þau hjálpa okkur mikið af stað með
þetta. Við gátum fengið þessa jörð á
leigu og það var alveg upplagt að láta
reyna á þetta hérna, með þessa góðu
leiðbeinendur ef svo má að orði kom-
ast. Staðsetningin er líka um margt
mjög góð, hér er auðvitað fóðurstöð
og hefð fyrir minkabúskap.“
Á jörðinni eru ekki loðdýrahús
fyrir en þar eru fjárhús og segir
Lilja að stefnan sé að lengja þau.
„Við ætlum að breyta þeim og setja
inn í þau búr. Við erum hins vegar
ekki búin að fá jörðina afhenta en
það mun væntanlega gerast í þessum
mánuði. Það er verið að laga aðeins
íbúðarhúsið en að því loknu fáum
við jörðina væntanlega og getum þá
farið af stað með þetta.“
Engin kennsla í loðdýrarækt
Að sögn Lilju hyggjast þau Freyr
byrja í litlum mæli og hafa hugsað sér
að taka inn á bilinu 200 til 300 læður
til að byrja með. Hvorugt þeirra hafði
sérstaka tengingu inn í loðdýrarækt-
ina. „Freyr hefur reyndar unnið eitt-
hvað smáræði hér hjá þeim Halldóru
og Gauta en það er ekki mikið. Við
komum að segja má alveg ný og fersk
inn í þetta. Við erum hins vegar bæði
búfræðingar frá Hvanneyri, klár-
uðum það núna í vor. Því miður var
afar lítið nám í boði þar varðandi
loðdýrarækt. Eitthvað efni var til sem
við nýttum okkur til ritgerðaskrifa.
Annað var ekki kennt og mér þykir
það gagnrýnivert, ekki síst í ljósi þess
hvað hefur verið góður gangur í loð-
dýraræktinni upp á síðkastið. Það var
hægt að læra meira um þetta hér áður
fyrr í skólanum og það þyrfti að fara
að bjóða upp á það aftur.“
Lilja segir að vissulega séu þau að
kasta sér svolítið út í djúpu laugina,
í ljósi þess að þau hafi ekki unnið
við þetta áður. Því sé kannski ekki
hægt að segja mikið um hver fram-
tíðarplönin séu heldur ætli þau bara
að láta reyna á hvernig þeim líki
búskapurinn og hvernig hann gangi.
Þau séu spennt að byrja. /fr
Lilja og Freyr stefna á að taka inn
læður á Deildarfelli í haust.
Sigþór, Óli Már og Björn í Holti við upphaf framkvæmda við minkahúsin.