Bændablaðið - 12.07.2012, Blaðsíða 14

Bændablaðið - 12.07.2012, Blaðsíða 14
Bændablaðið | Fimmtudagur 12. júlí 201214 Fréttir Yfirvofandi breytingar á loftslagi jarðar er það umhverfismál sem langmesta athygli fær í Ástralíu: Mikilvægasti geymslustaður kolefnis í heiminum er jarðvegur - Verðmæti mengunarkvóta gæti numið þúsundum milljarða dollara Yfirvofandi breytingar á loftslagi jarðar er það umhverfismál sem langmesta athygli fær í Ástralíu og bendir Andrés Arnalds, fag- málastjóri hjá Landgræðslunni, á nokkur dæmi um verkefni sem unnið er að þar í landi í tengslum við kolefnisbindingu. Segir Andrés að almenningur í Ástralíu hafi mikinn áhuga á að lausn finnist á vandanum og mikil umræða sé um kolefnisbindingarmálin þar í landi, það sama sé ekki uppi á teningnum hér á landi. Í Ástralíu hefur víða sprottið upp fjöldi fyrirtækja, samtaka og sjálfseignarstofnana til að tengja saman bændur og þá sem þurfa eða vilja taka þátt í vörnum gegn loftslagsbreytingum með kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi. Verkefnin eru af ýmsu tagi en mörg hver tengjast skógrækt. Í vaxandi mæli er einnig bent á að mikilvægasti geymslustaður kolefnis í heiminum er jarðvegur. Andrés nefnir að fari svonefndir „mengunarkvótar“ á almennilegt flug í Ástralíu gæti verðmæti þeirra numið hundruðum ef ekki þúsundum milljarða dollara á nokkrum árum. Eftir miklu sé því að slægjast fyrir þá sem eru með góð verkefni sem standast allar kröfur. Aðstoðar bændur við að koma upp og viðhalda gróðri Andrés nefndi sem fyrr segir nokkur dæmi um verkefni. Eitt þeirra er fyrirtækið CarbonSmart sem var stofnað 2007 til að miðla á milli bænda og „mengunarvalda“ en um 45% bænda í álfunni eru innan samtakanna. Fyrirtækið aðstoðar bændur við að koma upp og viðhalda öflugum gróðri og lögð er áhersla á að ná breiðum umhverfismarkmiðum á sama tíma og bændum gefst kostur á að afla sér tekna. Reiknað er út hversu mikið kolefni viðbótargróður bindi og það síðan selt til einstaklinga eða fyrirtækja. Telur Andrés að nálgun af þessu tagi henti Íslendingum. Markmiðið að bæta skaðann Annað fyrirtæki sem Andrés nefnir heitir Renewable Soil, en það leggur megináherslu á kolefnisbindingu í jarðvegi til að byggja upp frjósemi lands. Greening Australia eru svo öflug umhverfissamtök sem njóta stuðnings stjórnvalda en meðal verkefna sem þau hafa á sinni könnu er að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eins og hægt er og binda það sem út af stendur sem mest í gróður og jarðveg. Þau eru afkastamikil í gróðursetningu trjáa og eflingu annars gróðurs með það markmið í huga að bæta þann skaða sem orðið hefur á vistkerfum Ástralíu síðan landnám Evrópubúa hófst þar fyrir 200 árum. Greiðir landeigendum kostnað að vissu marki Fjórða dæmið sem Andrés nefnir í grein sinni er sjálfseignarfyrirtækið Greenfleet en tilgangur þess er að koma í veg fyrir og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda auk þess að vinna að kolefnisbindingu. Fyrirtækið greiðir landeigendum kostnað upp að vissu marki við að koma upp varanlegum gróðri og er miðað við að svæðin séu að lágmarki 10 hektarar að stærð. Greiða kostnað en eiga tré og kolefni CO2 Australia er einkafyrirtæki sem er mjög öflugt í viðskiptum með kolefniskvóta í tengslum við landbúnað og hefur staðið fyrir gróðursetningu í meira en 11 þús ha lands undir merkjum kolefnisbindingar síðastliðin 8 ár. Gróðursetningin er notuð til að bæta landið, m.a. til skjóls eða beitar. CO2 Australia greiðir allan kostnað en á bæði trén og kolefnið sem í þeim er bundið. Umbætur í beitarstjórn skilvirkasta leiðin Climate Institute er sjálfstæð rannsóknarstofnun sem sett var á laggirnar og vinnur með almenningi, viðskiptalífinu og stjórnvöldum að því að þróa og koma í notkun lausnum vegna loftslagsvandans. Stofnunin hefur hvatt stjórnvöld til að stórauka hlutverk bænda í vörnum gegn loftslagsbreytingum. Bent er á að meginhluti umræðu um kolefnisbindingu snúist um gróðursetningu trjáa. Jarðvegurinn sé hins vegar megin geymslustaður kolefnisins. Því geti umbætur í stjórn á beit og annarri landnýtingu verið skilvirkasta leiðin til að stórauka kolefnisbindingu. /MÞÞ Andrés Arnalds, fagmálastjóri Landgræðslunnar: Kolefnisbinding á vegum bænda gerir þjóðinni kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar - Skatt á losun gróðurhúsalofttegunda á að nýta til aðgerða gegn loftslagsbreytingum Bændur víða um heim láta umræður um loftmengun mjög til sín taka, bjóða fram nauðsyn- legt þjónustuhlutverk og nýta það til að bæta gæði jarða sinna. Hér á landi virðast bændur hins vegar almennt fremur áhuga- litlir um þessi tengsl milli land- bóta og loftlagsmála. Þetta segir Andrés Arnalds, fagmálastjóri hjá Landgræðslunni, í grein sem birt er á vef Landgræðslunnar. Andrés bendir á að aðeins séu tvær leiðir færar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Önnur er sú að koma í veg fyrir eða draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eins og mögulegt er, einkum þá með því að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis. Hin leiðin er kolefnisbinding, m.a. með landgræðslu og skógrækt, og þá leið er hægt að nota til að mæta skuldbindingum vegna Kyoto- bókunarinnar samhliða því að draga úr losun þeirra gastegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum. Óvenjugóðar aðstæður til kolefnisbindingar hér á landi Bendir Andrés á í grein sinni að aðstæður til kolefnisbindingar með landgræðslu séu óvenjugóðar hér á landi, m.a. vegna þess að um 95% af skóglendi og um helmingur gróðurs og jarðvegs hafi eyðst frá landnámi vegna uppblásturs og landhnignunar. „Umreiknað yfir í ígildi koltvísýrings er þetta tap kolefnis mörg hundruð sinnum meira en nemur árlegri losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi,“ segir hann í greininni og bætir við að brýnt sé að skila hluta þess taps aftur til jarðar. Binding kolefnis fylgir sjálfkrafa öllu landbótastarfi Binding kolefnis fylgir sjálfkrafa öllu landbótastarfi og bendir Andrés á að íslenski eldfjallajarðvegurinn geti bundið í sér mikið af kolefni, unnið sé á örfoka landi þar sem næg úrkoma sé og uppgræðsluskilyrði góð. Niðurbrot lífrænna efna sé auk þess hægfara. Andrés bendir ennfremur á í grein sinni að draga muni úr bruna jarðefnaeldsneytis hér á landi á næstu árum, innlendir orkugjafar muni innan tíðar taka við af olíu og annarri innfluttri orku. Allt það kolefni, sem út af stæði í bókhaldi þjóðarinnar, yfir losun gróðurhúsalofttegunda, væri hægt að binda í gróður og jarðveg, þ.e. með því að nýta í auknum mæli getu gróðurs til að umbreyta koltvísýringi í lífræn efni. Umræða um efnahagslega hvata Á alþjóðavettvangi fer fram mikil umræða um efnahagslega hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og möguleika til fjármögnunar á kolefnisbindingu. Bendir Andrés á að í Ástralíu sé lögð áhersla á þróun svonefndra „bindikvóta“ sem bændur gætu skapað og síðan selt eða leigt. Annars staðar ræði menn um skatt á losun gróðurhúsalofttegunda og að fjármagn sem með honum fengist yrði nýtt til aðgerða gegn loftslagsbreytingum. Telur Andrés að slík nálgun geti nýst Íslendingum vel. Með því móti væri hægt að stórefla landbótastarfið og binda um leið mikið magn kolefnis. Kolefniskvótinn yrði áfram í eigu stjórnvalda, líkt og nú er, en fyrirkomulag af því tagi telur Andrés heppilegt. Of lítið fer fyrir umræðunni Hann segir að kolefnisbinding á vegum bænda, einkum í samstarfi við stjórnvöld, sé mikil og að þeir eigi stóran þátt í að gera þjóðinni kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar gagnvart Kyoto- bókun loftslagssamningsins. „Lítið virðist fara fyrir umræðu innan landbúnaðarins um þessi mikilvægu tengsl landbóta og loftslagsverndar,“ segir Andrés en víða erlendis láti bændur aftur á móti kolefnisbindingarmál til sín taka. /MÞÞ Ný lög um loftslagsmál - Loftslagssjóður til að styðja verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda Alþingi samþykkti ný lög um loftslagsmál 19. júní síðastliðinn. Þau leysa af hólmi lög nr. 65 frá árinu 2007 um losun gróðurhúsa- lofttegunda. Þetta er fyrsta heild- stæða löggjöfin um loftslagsmál hér á landi. Markmið lagasetningarinnar er tvíþætt, að því er fram kemur á vef umhverfisráðuneytisins. Annars vegar að setja heildarlög- gjöf um loftslagsmál og gefa með því málaflokknum tilhlýðilegan gaum sem sjálfstæðum málaflokki meðal umhverfismála. Með því er loftslagsmálum mörkuð viðeigandi staða í íslenskri löggjöf og fyrsta skrefið stigið í átt að því að sameina undir einum hatti sem flestar reglur er varða loftslagsvanda samtímans. Hins vegar er markmiðið að leiða í lög reglur um viðskipta- kerfi ESB með losunarheimildir, ETS-kerfið sem er hluti af EES- samningnum. Þar er að hluta til um að ræða reglur sem þegar höfðu verið í lög leiddar á Íslandi og að hluta til nýjar reglur. Þetta felur m.a. í sér að Ísland getur nú haft tekjur af viðskiptakerfinu með því að selja þær losunarheimildir sem það fær úthlutað til uppboðs á almennum markaði. Skylt að gera aðgerðaáætlun í loftslagsmálum Meðal nýmæla í lögunum er að fest er í lög skylda til að gera aðgerða- áætlun í loftslagsmálum, kostnað- armeta hana og uppfæra með reglu- bundnum hætti. Kveðið er á um stofnun Loftslagssjóðs sem hefur það hlutverk að styðja við verkefni er stuðlað geti að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, aðlögun að afleiðingum loftslags- breytinga og aukinni þekkingu almennings á loftslagsbreytingum af mannavöldum, afleiðingum þeirra og mögulegum aðgerðum til að sporna við þeim. Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn verði fjármagnaður með tekjum sem íslenska ríkið fær af uppboðum á losunarheimildum sem því verður úthlutað. Þá má nefna að meðal markmiða laganna er að stuðla að aðlögun að loftslagsbreytingum en slíkt markmið hefur ekki verið áður að finna í lögum hér á landi. Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir Viðskiptakerfi ESB með losunar- heimildir hefur verið starfrækt innan sambandsins frá árinu 2005. Viðskiptakerfið er meginstjórntæki ESB á sviði loftslagsmála og er ætlað að mynda hagrænan hvata til að draga úr losun gróðurhúsa- lofttegunda og efla þróun loftslags- vænnar tækni. Ísland, Noregur og Liechtenstein hafa frá árinu 2008 verið þátttak- endur í viðskiptakerfinu í gegnum EES-samninginn. Þar sem sú iðn- aðarstarfsemi á Íslandi sem hefði átt að falla undir viðskiptakerfið á tímabilinu 2008‒2012 var sérstak- lega undanþegin það tímabil hóf Ísland að taka virkan þátt í kerfinu 1. janúar sl. þegar flugstarfsemi var felld undir viðskiptakerfið. Um næstu áramót verður svo meiri breyting á viðskiptakerfinu þegar tilteknir nýir geirar iðnaðar á Íslandi munu falla undir það, þ.m.t. álframleiðsla, járnblendi og stein- ullarframleiðsla, auk fiskimjöls- framleiðslu með olíukötlum. Þetta þýðir að nær allur iðnaður á Íslandi sem losar gróðurhúsalofttegundir mun frá og með næstu áramótum þurfa að eiga losunarheimildir til samræmis við losun sína. /MÞÞ Allt það kolefni, sem stendur út af í bókhaldi þjóðarinnar yfir losun gróðurhúsa- lofttegunda, væri hægt að binda í gróður og jarðveg. Mynd: MÞÞ Andrés Arnalds. Mynd: HKr. Mynd: JE

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.